Aðalfundur félags heimspekikennara var haldinn í Verzlunarskóla Íslands laugardaginn 9. júní. Félagið vex hægt og þétt og Ármann Halldórsson fráfarandi formaður þakkaði það góðu félagsstarfi og vexti í heimi heimspekikennslunnar á Íslandi. Fundurinn hófst með skemmtilegu námskeiði Jóhanns Björnssonar sem miðlaði af fjölbreyttri reynslu sinni af heimspekikennslu.
Helstu fréttir af aðalfundinum eru þessar:
- Ármann Halldórsson flutti skýrslu um störf félagsins á liðnu starfsári og sagði síðan af sér formennsku. Í stað hans var Kristian Guttesen kosinn formaður. Félagsmenn þakka Ármanni vel unnin störf. Hann á mestan heiður að því að endurvekja starfsemi félagsins og halda henni gangandi síðustu ár. Á síðasta ári ber hæst að félagið hélt heimspekilegar æfingar sem eru vettvangur til að æfa sig í samræðu. Félagið hélt heimspekikvöld með Hauki Inga Jónassyni og tók þátt í framkvæmd tveggja námskeiða fyrir heimspekikennara sem haldin voru í Garðabæ. Stjórn félagsins gaf umsögn um umsóknir í þróunarsjóð námsgagna og er ánægð með útkomuna úr sjóðnum en tveir aðilar fengu styrk til námsefnisgerðar fyrir heimspekikennslu.
- Þórdís Hauksdóttir gjaldkeri félagsins lagði fram reikninga. Fjárhagsleg staða félagsins er traust.
- Brynhildur Sigurðardóttir og Þórdís Hauksdóttir sögðu sig úr stjórn en Ingimar Waage mun sitja þar áfram. Brynhildur ætlar að einbeita sér að starfi í ritstjórn heimspekitorgsins en Þórdís ætlar að taka að sér að vera talsmaður félagsins í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar og vinna að eflingu heimspekikennslu í skólum borgarinnar.
- Nýir meðlimir í stjórn félagsins eru Jóhanna Guðrún Ólafsdóttir, Sigurlaug Hreinsdóttir og Elsa Björg Magnúsdóttir. Ákveðið var að ný og gömul stjórn myndu hittast fljótlega til að bera saman bækur sínar. Ritstjórn heimspekitorgsins yrði með á þeim fundi, huga þarf að því hvort kjósa þurfi ritstjóra fréttabréfsins og endurnýja umboð ritstjórnarinnar.
- Fundurinn samþykkti ályktun um að gera rafrænt fréttabréf heimspekikennara að málgagni sínu.
- Fráfarandi stjórn er ánægð með þá áherslu sem lögð hefur verið á minni viðburði svo sem heimspekilegu æfingarnar. Óskað var eftir því að þær æfingar tækju á sig fastara form þannig að félagsmenn hefðu reglulega tækifæri til að hittast og æfa sig í heimspekilegri samræðu.