Miðvikudaginn 25. maí hélt félagið aðalfund í Verzlunarskóla Íslands. Fundurinn var vel sóttur og sífellt eru nýir kennarar að bætast í félagið. Auk venjulegra aðalfundastarfa hélt Sigríður Þorgeirsdóttir uppi umræðu um menningu heimspekinnar og birtingarmyndir hennar í kennslu. Út frá inngangserindi Sigríðar spunnust ýmsar hugleiðingar og lífleg samræða.
Björn Rúnar Egilsson hætti í stjórn félagsins þar sem hann er að flytja erlendis og eru honum þökkuð vel unnin störf. Þórdís Hauksdóttir tekur við hlutverki gjaldkera félagsins og Brynhildur Sigurðardóttir er nýr meðstjórnandi.
Stjórn félagsins fer nú að huga að dagskrá næsta vetrar. Á fundinum kom meðal annars fram vilji til að hafa reglulega samræðukvöld á vegum félagsins þar sem heimspekingur heldur inngangserindi til að vekja samræðu líkt og Sigríður Þorgeirsdóttir gerði á þessum aðalfundi.