Haldin verður heimspekileg samræðuæfing miðvikudagskvöldið 14. september kl. 20.00. Æfingin verður haldin í Garðaskóla í Garðabæ og er gengið inn um inngang á vesturhlið, beint af bílastæði. Áhersla er lögð á sókratíska samræðu sem Ármann Halldórsson stjórnar. Sókratísk samræða er heimspekileg rannsókn á siðferðilegum og tilfinningalegum veruleika okkar manneskjanna. Hráefni rannsóknarinnar er lífsreynsla okkar sjálfra. Ekki er leitað í smiðju fornra spekinga eða vísindamanna heldur leitum við í okkar eigin ranni að dæmum og vísbendingum. Til að samræðan geti skilað árangri er mikilvægt að vera undirbúinn fyrir hana. Í okkar tilfelli ætlum við að rannsaka hugtakið: HUGREKKI … og verkefnið þitt verður að rifja upp og skrá niður og vera svo tilbúinn að segja frá í samræðunni dæmi um hugrekki úr þinni eigin lífsreynslu. Mikilvægt er að þetta sé raunverulegt og persónulegt dæmi. Dæmin þurfa ekki að vera hástemmd eða flókin, og alls ekki löng.
Heimspekileg æfing 14. september kl. 20.00
Ármann hefur mikla reynslu af notkun aðferðarinnar og segir: “af mörgum skemmtilegum samræðuaðferðum heimspekinnar er hún í uppáhaldi hjá mér, og þá einkum og sér í lagi í hópi fullorðinna! Ég hlakka til skemmtilegra samræðna okkar, góðar kveðjur, Ármann Halldórsson”