Heimspekikaffihús

eftir Sigurlaugu Hreinsdóttur

Ég hafði heyrt af heimspekikaffihúsi öðru hvoru og hugsað um að mæta en lét ekki af því verða fyrr en á menningarnótt í ágúst 2011. Ég mætti með vinkonu minni í Iðnó upp á efri hæð. Við settumst við hvítdúkað langborð og drukkum kaffi úr hvítum kaffibollum. Fljótlega fylltist borðið af fólki, það lagði orð í belg og velti fyrir sér spurningunni: „Hvað er menning?“ Það labbaði inn og út eftir þörfum og gat blandað sér í samræðurnar að vild. Þeir félagar Skúli Pálsson og Hreinn Pálsson heimspekingar, stýrðu umræðunum eða þeir stýrðu þeim eiginlega ekki, þeir hvöttu fólk til að tala og sýndu viðurkennandi viðmót ef maður lagði orð í belg og spurðu spurninga til að halda umræðunni lifandi. Drífa Thorstensen heimspekingur stóð að þessum gjörningi líka, hún hafði útvegað húsnæði í Iðnó. Hún var að vinna þar og þjónustaði fólk af mikilli natni með kaffi og bjór og þess háttar. Þetta var hátíðleg stund.

Ég tók að stunda Heimspekikaffihús ötullega næsta árið. Það tók smá tíma að finna því fasta staðsetningu en nú hefur það um töluverðan tíma verið á veitingahúsinu Horninu í innri sal í hverri viku, á laugardögum, milli kl. 14:00 – 16:00. Þar eru allir velkomnir, á öllum aldri. Hópurinn sameinast í því að takast á við ýmiskonar heimspekilegar spurningar. Þar má sitja og hlusta eða tala að vild.

Löngu seinna áttaði ég mig á hvað ég hafði lært á því að taka þátt í samræðum á heimspekikaffihúsi. Í byrjun var ég hikandi við að tala. Skúli, Hreinn og Drífa mættu yfirleitt og stýrðu umræðum. Þau voru ólík, með margskonar nálganir og samræðan var oft krefjandi. Þarna mætti allskonar fólk og það var tekist á. Ég upplifði allt tilfinningarófið innra með mér þarna við borðið, það hrikti í stoðum eigin hugmyndakerfis og í hita leiksins dróst ég inn í samræðuna og tók þátt næstum óafvitandi, ég hafði nefnilega stundum einsett mér að hlusta bara þann daginn en það tókst aldrei. Smám saman fóru óskiljanlegar eða skrítnar hugsanir að verða skiljanlegar í huga mér, ég fór að átta mig á því í verki að þrátt fyrir að ég skilji fólk ekki þá kemur hugsun þess alltaf úr merkilegu samhengi sem ég get lært að skilja ef ég hlusta og spyr spurninga. Það er einhver óútskýranleg fullnægja sem felst í því að mismunandi hugarheimar leitast við að mætast í þeim tilgangi að reyna að fást við sameiginlegt viðfangsefni og frelsandi að heyra allt önnur sjónarhorn en sitt eigið. Þekkinguna sækjum við inná við, í okkar eigin hugmynda- og reynsluheim. Það kom mér á óvart að ég gat dregið fram allskonar hugmyndir og þekkingu sem ég vissi ekki að ég hefði.

Reglur heimspekikaffihússins eru einfaldar, það er bannað að slá um sig með nöfnum frægra karla eða kvenna og nýta það sem rök einnig verður að tala þannig að allir við borðið skilji. Drífa hefur stundum sagt að við ættum að tala og útskýra þannig að barn gæti skilið hvað við erum að segja. Við borðið eru allir jafnir og með sameiginlegt markmið, að kljást við spurningu dagsins. Í lokin er gjarnan rætt um hvernig til tókst, hvernig gekk samræðan? Voru einhverjir vinklar hunsaðir? Hvernig gekk að hlusta? Hvernig gekk að halda þræði? Var spurningin nógu og góð, vakti hún upp góðar umræður? Fengu allir að komast að sem vildu? Í miðri samræðu er gjarnan samantekt, þá tekur einhver í hópnum að sér að draga saman hvert hópurinn er kominn í samræðunum eða ef það eru margir punktar í gangi í einu, að draga þá fram og þá leggjum við okkur fram við að halda þræði. Við minnum hvert annað á að grípa ekki fram í; að einhver annar var á undan með orðið; að halda þræði eða stytta mál okkar og vera kurteis. Með sífelldri sameiginlegri sjálfskoðun höfum við lært að bæta okkur til muna í samræðulistinni. Í heimspekikaffihúsinu er talað um að það þurfi að vera sjálfbært og enginn megi vera ómissandi því hafa ýmsir verið virkjaðir í að stýra samræðunni við borðið og margir fengið að spreyta sig.

Til þess að draga fram þau áhrif sem heimspekikaffihúsið hefur haft á mig þá vil ég taka fram að ég er menntaður heimspekikennari. Í Háskóla Íslands var ekkert námskeið sem kenndi mér það sem ég hef lært á heimspekikaffihúsinu. Þarna fann ég og lærði nýjan vinkil við að kenna og læra. Heimspekilega samræðu lærir maður nefnilega með reynslu af henni og þjálfun í henni. Sá þroski sem ég hef öðlast í samræðuaðferðinni, lengst af við borðið í bakherberginu á Horninu, hefur gert mig að betri kennara og verið mér næring í starfi mínu. Þar æfist ég í að leggja hugsanir mínar fram til skoðunar með aðstoð hinna við borðið, á sama hátt og ég tek þátt í að skoða hugsanir og þekkingu annarra. Stundum þegar ég nota þessa aðferð í kennslustofunni og skapa vettvang fyrir nemendur að hugsa sjálf þá gerast merkilegir hlutir. Eftir reynslu mína af þessu þá tel ég að það væri mikill fengur fyrir nemendur í heimspekiskor í  Háskóla Íslands ef þeir fengju þjálfun í samræðu í sínu námi, HÍ gæti jafnvel gefið þeim einingar fyrir að mæta á heimspekikaffihús.

Ég lagði fram spurningu fyrir félagana á fésbókarsíðu heimspekikaffihússins um reynslu þeirra og leyfi þeim þræði að standa hér ómenguðum.

Hæhæ kæru heimspekikaffihúsaáhugakonur og karlar : ). Mig langar að beina orðum minum til þeirra sem hafa verið að mæta á heimspekikaffihús þar sem ég ætla að setja saman smá pistil um það. Hvað finnst ykkur þið læra/græða á því að mæta á heimspekikaffihús? Hvað finnst ykkur aðrir læra/græða á því að þið mætið á heimspekikaffihús?

Karl 1) 1. ég læri/græði vinarlegt og létt spjall með kaffinu

Karl 1) 2. ég hugsa að aðrir hafi það sama út úr þesssu

Kona 1) Góða skemmtun. Kveðja S. T.

Kona 2) Það að ef að maður kemur óundirbúin og talar út frá eigin hjarta að maður er að opna sig of mikið fyrir fólki sem að maður þekkir ekkert.

Karl 2) * Komast í tæri við skemmtileg sjónarmið
* þjálfun í “frekju”
* Samvera
* Þjálfun í þolinmæði, sérstaklega gagnvart fólki sem er “á útopnu að staðaldri”
* Hitta áhugavert fólk, sumt hittir maður etv seinna á öðrum vettvöngum líka
* Að erfitt er að halda þræði
* Að þrátt fyrir góðar reglur, góða viðleitni og áhugasamt og vel gefið fólki tekst okkur stundum illa að vera uppbyggileg og að hlusta
* Komast í tæri við áhugaverða pælingar
* Að stundum er erfitt að átta sig á hvort fólki er alvara eða að leika sér þegar rök eru sett fram
* Tækifæri til að tjá sig og æfa það
Held að margir aðrir fá svipað út úr þessum hittingum.

Kona 3) Mér finnst að það verði til þekking og skilningur hjá mér í þessum átökum.

Karl 3) 1. Skemmtanangildi, 2. Breyting á líðan, framkomu og markmiðum sökum skilnings (vangaveltur um lykilhugtök eins og t.d. þjáningu og dauða geta breytt viðhorfum og viðbrögðum gagnvart umræddum fyrirbærum til hins betra), 3. Þjálfun í rökræðu (ég hef mestan áhuga á því að bera kennsl á það hvar og hvernig fólk misstígur sig í rökræðuhefðinni svo ég og aðrir getum nálgast markmiðið ( “sannleikann” ) á skilvirkari/skjótari máta), 4. Safna efni í handritagerð til að kvikmynda e-ð af þessu þegar færi gefst…svo e-ð sé nefnt. x)

Kona 4) Þar fær maður frí frá venjuleikanum. Ég nota hspkaffið til að æfa mig í að hlusta á ólíkar skoðanir og skilja hvað átt sé við. Ég æfi mig líka í að koma hugmyndum mínum í orð.

Karl 4) Fyrst fer maður á Heimspekikaffihús til að vita hvernig það er að vera á heimspekikaffihúsi. Það á við um marga hluti. Þá lítum við á “Heimspekikaffihúsið” sem breytu í jöfnunni og restina fasta. Svo er hægt að setja aðrar breytur inn og það á við um alskonar forvitnitilfelli. Ástæðan fyrir að undirritaður hefur haldið áfram að mæta er trú á að þetta geri mér gott, -skemmtunin er hrein aukaafurð.

Karl 3) Held ég verði að taka undir með Karli 4) að því leyti að “trúin á það að þetta sé e-ð sem geri manni gott” í margvíslegum skilningi(margir góðir punktar komið fram sem ég mundi ekki eftir) er meginástæðan fyrir því að ég mæti, fín “regnhlífar-setning” yfir alla kosti ef maður telur skemmtun einnig gera sér gott.

Kona 5) Mér finnst svo gaman og áhugavert að hitta aðra sem hafa áhuga á því að kryfja tilveruna til mergjar. Mér finnst einnig svo gott að koma þar sem er hlustað án þess að gjammað sé framm í og fólk virðir hvert annað. Mér finnst svo gaman að hlusta á gáfulegar og skemmtilegar umræður.

Karl 5) Við erum stöðugt á leiðinni til meiri skilnings. Okkur miðar stundum afar hægt en þokumst samt áfram. Heimspekikaffihúsið er “slow food” hugans. Við gefum okkur tíma og oftar en ekki endurfæðast gamlar og góðar hugmyndir og viðhorf – efast um að ný hugmynd hafi fæðst á Heimspekikaffihúsinu. Stundum er þetta eins og í skák, margir leikir en staðan breytist ekki neitt, stundum einn frjór leikur og staðan gjörbreytist.

Karl 5) stundum -> oftast

Karl 6) Heimspekikaffihúsið er tenging við ræturnar. Ræturnar næra með því að minna á að heimspeki er meira en akademísk faggrein og rætur eru jarðtenging. Jarðtenging er góð fyrir okkur sem hættir til að svífa upp í fræðiský þar sem við fyrirhittum aðeins aðra fræðimenn.

 


 

Að lokum vil ég minnast á draum okkar heimspekikaffihúsakvenna: Þeir sem þarna mæta eru allir sammála um að þátttaka kvenna er mun dræmari en þátttaka karla. Nokkrum sinnum hefur komið upp umræða í hópnum hvernig á því standi að konur mæti þar síður en karlar. Það gefur auga leið að þær aðstæður bjóða upp á ríkjandi karllægni. Það er mikilvægt fyrir heimspekikaffihús og hugsunina þar að konur mæti til jafns við karla svo hugsun kvenna verði þar jafn sýnileg. Hugsun á heimspekikaffihúsi er aðeins hálf hugsun ef þar mætir aðeins annað kynið. Við heimspekikaffihúsakonur viljum því hvetja fleiri konur til þess að mæta á laugardögum og standa saman um að þar verði hugsun kvenna jafn sýnileg og hugsun karla.

Sigurlaug Hreinsdóttur