Menntun

Í M-Paed ritgerð minni, Menntun eða afmenntun? frá árinu 2010, velti ég vöngum yfir því hvort það séu sjálfsögð sannindi að innan grunnskólanna fari fram menntun. Ritgerðin er skrifuð með foreldra í huga út frá sjónarhorni nemenda sem hafa ekki þrifist nægilega vel innan grunnskólans.
        Í byrjun velti ég upp merkingu hugtaksins menntun. Heimspekingurinn Guðmundur Finnbogason kom fram með þá kenningu að í menntun fælist sú hugmynd að verða „meira maður“, ekki „meiri“ maður í merkingunni að verða meiri en aðrir menn heldur að verða meira maður sjálfur, mennskari. Páll Skúlason heimspekingur segir að það verði að gera greinarmun á hugtökunum „fræðslu“ og „menntun“. Hann telur að hugtökunum sé gjarnan slegið saman. Afleiðingin er að menntakerfið sinnir aðallega fræðslu án menntunar og það leiðir til skortstilfinningar sem getur af sér hégóma og græðgi. Menntun fullnægir hins vegar nemendum. Menntunarheimspeki John Dewey rímar vel við þessar hugmyndir. Hann telur að við lærum í gegnum reynslu okkar. Samkvæmt Dewey getur reynslan bæði verið menntandi og líka afmenntandi sem er andstæða menntunar. Hlutverk kennara felst einmitt í því að sjá til þess að nemendur öðlist menntandi reynslu. Menntandi reynsla opnar fyrir möguleika á frekari menntandi reynslu en afmenntandi reynsla skerðir möguleika nemenda á frekari menntandi reynslu og leiðir þá gjarnan á glapstigu frekari afmenntunar. Afmenntandi reynsla getur skapað einkenni hjá nemendum. Í ritgerðinni kallast þau sjúkdómseinkenni. Þá er átt við sjúkdómseinkenni á samfélagi en ekki á einstaklingum. Nemandi sem birtir einkenni sýnir því eðlileg viðbrögð við óeðlilegu umhverfi. Það kallar á rannsókn á þeim viðhorfum sem birtast í menningu nemenda til þess að leita orsaka einkennanna. Með það markmið fyrir augum skoðaði ég afmenntandi reynslu nemenda innan grunnskólans frá þremur sjónarhornum; námslegu, félagslegu og samfélagslegu.

Sjúkdómseinkenni – vegna afmenntandi reynslu

Hvað varðar námslegu hliðina þá þarf að hafa í huga að mismuna ekki eiginleikum eða hæfileikum nemenda með því að upphefja einn á kostnað annars. Ken Robinsson segir að við drepum niður sköpunargáfu nemenda í skólunum og að eftir skólagöngu trúi jafnvel hæfileikaríkir nemendur að þeir séu það ekki. Einnig lítur út fyrir að reynsla af samanburðarhæfu námsmati sé afmenntandi þar sem nemandinn lærir að meta sjálfan sig í samanburði við aðra. Það virðist leiða til þess að nemendur taki fremur hugsunarlaust upp gildi og viðmið annarra. Námsleiði er einkenni sem orsakast vegna bæði einangrandi og fyrirframákveðins námsfyrirkomulags, óháð nemendum. Wolfgang Edelstein vill meina að námsleiði sé sjúkdómseinkenni á menntamistökum skólans.
        John Dewey telur að menntun sé í eðli sínu félagslegt ferli. Það gefur því að skilja að félagslegt sjónarhorn er afar mikilvægt. Í skólunum læra nemendur gjarnan hvar í stigveldinu þeir sjálfir og félagar þeirra eru staddir, hverjir eru æðri og hverjir eru óæðri og hver er „rétta leiðin“ til að vita og lifa. Þarna skortir á jafningjatengsl og er þetta skýr sjúkdómsmynd á veikum félagslegum jarðvegi. Þar sem margbreytileikinn er ekki viðurkenndur læra nemendur mismunun. Dewey telur einnig að skortur á samfellu í námi geti orsakað athyglisskort hjá nemendum. Harber og Davies halda því fram að of mikil stjórnun, agi og samkeppni geti leitt til streitu, kvíða, svefnörðugleika og jafnvel átröskunar og að með of þvingandi aðferðum gagnvart nemendum sé verið að endurskapa ofbeldi í víðara samfélagi.
        Samfélagslegt sjónarhorn byggir á samspili skóla og samfélags. Þar skiptir heildræn sýn höfuðmáli. John Dewey segir að skólinn eigi að vera lífið sjálft, ekki æfingabúðir sem undirbúa nemendur fyrir alvörulíf. Klofinn veruleiki samfélagsins getur haft skaðleg áhrif á nemendur. Klofningurinn birtist til dæmis á milli atvinnulífs og einkalífs, það hefur bein áhrif á námsskrá skólanna og þannig áhrif á sjálfsmynd nemenda. Hættan er sú að grunnskólinn leggi meira upp úr því að uppfylla þarfir atvinnulífs en að uppfylla þarfir nemenda. Einkennin verða þau að nemendur læra að aðgreina mannkjarna sinn frá því lífi sem þeir lifa hér og nú. Dewey telur að þetta sé skaðlegt og geti endað sem andleg veikindi eða klofið geð. Nemendur þurfa að læra að gera atvinnulífið að sínu í stað þess að vera þröngvað inn í form sem þeim er fyrirfram úthlutað.
        Viðhorf skólanna er oft á þá leið, að þessi einkenni séu vandi nemenda og þeir þurfi því að taka sig á. Ég held því alls ekki fram að öll einkenni nemenda séu af völdum skólakerfisins en ef einkenni skapast vegna skólakerfisins þá er brýnt að stofnanir séu tilbúnar að viðurkenna það og slæmt ef kerfið (gerendur) kennir þolendum um einkenni sín. Sjúkdómseinkenni nemenda hverfa oft ekki heldur fylgja þeim inn í fullorðinsárin. Kennarar eru að sumu leyti í miklum vanda þar sem þeir hafa afar takmarkað rými innan Aðalnámskrár grunnskóla til þess að lesa nemendur og mæta þeim.

Hamingja og lýðræði

Spurningin um hugsanlega lausn á þeim vanda sem ég hef lýst hér á undan er ekki einföld. Í leit minni að svörum staldraði ég við hamingjukenningu Nel Noddings og lýðræðiskenningu John Dewey sem hafa báðar heilsteypta og manneskjulega sýn. Noddings telur að hamingjan eigi að vera frummarkmið námskrár og öll önnur markmið eigi að styðja hamingjuhugmyndina. Þar skipa sjálfsþekking, rými til þess að skilgreina sjálfan sig og sú tilfinning að tilheyra, meginsess. Dewey skilgreinir lýðræði sem lífsmáta. Hugmyndin er smættuð niður í viðhorf milli tveggja manneskja, að þrátt fyrir að vera ósammála þá geti þær litið á hvor aðra sem vin sem mætti læra af. Mín skoðun er sú að í heildrænum kenningum og hugsjónum þessarra heimspekinga leynist svör við vandanum, við þurfum bara að tileinka okkur þær betur. Við ættum ekki að horfa framhjá því að grunnskólinn er sennilega sterkasta afl samfélagsins til þess að bæta og umbreyta sjálfu sér. Þar fer fram skyldunám. Grunnskólinn hefur því tækifæri til þess að ná til allra barna landsins og fjölskyldna þeirra.
        Rétt er að taka fram að þessi ritgerð var skrifuð áður en Aðalnámskrá grunnskóla var endurskoðuð síðast. Þrátt fyrir að námskráin hafi að mörgu leyti þróast í farsæla átt er eftir sem áður mikilvægt að foreldrar komi með mun öflugari hætti að menntaskipulagi grunnskólanna. Foreldrar sjá börnin sín með hjartanu og því eru líkur á að fingrafar þess skili sér í hugmyndafræði menntunar sem tekur tillit til allra eðlisþátta manneskjunnar.

Sigurlaug Hreinsdóttir

Birt í Fréttablaði ADHD samtakanna 25(1), 26-27.