Kvenheimspekingar koma í kaffi: Hannah Arendt

Næsti kvenheimspekingur sem verður kynntur í röðinni „Kvenheimspekingar koma í kaffi“ er Hannah Arendt (1906-1975). Arendt er ekki hvað síst þekkt fyrir að hafa gefið út bók sem hafði að geyma fyrstu greininguna á alræðiskerfum nasisma og stalínísma eftir seinni heimsstyrjöldina og svo fyrir skrif sín um Eichmann-réttarhöldin, en kvikmynd sem snýst einkum um aðkomu hennar að þeim er til sýnis í Bíó Paradís þessa dagana (í dag þriðjudag kl. 20:00, 22:10 og miðvikudag, fimmtudag, föstudag, laugardag og sunnudag kl. 17:50, 20:00). Arendt skrifaði í kjölfarið mikið um stjórnmál, hvernig vettvangur stjórnmála hefði verið eyðilagður og hugleiddi leiðir út úr ógöngum pólitíkur.

Páll Skúlason og Sigríður Þorgeirsdóttir munu kynna heimspeki Arendt og munu þau ræða hvaða erindi hún eigi við samtímann til skilnings á kreppu á mörgum sviðum samfélagsins.

Verið velkomin í kaffi fimmtudaginn 4. apríl, kl. 15, í Árnagarði 201.