Sögur af Nasreddin Hodja

Atli Harðarson þýddi úr grísku

Erindi flutt á málþingi helgað Jóni Thoroddsen, 2. nóvember 2024, kl. 10–14:30 í Auðarsal í Veröld – húsi Vigdísar


Sögur herma að Nasreddin hafi verið uppi á þrettándu öld og hann er gjarna tengdur við þorpið Hortu í miðri Litlu-Asíu, vestan við Ankara og suðaustan við Istanbul. Nafn hans er ritað á marga ólíka vegu. Oft er hann titlaður Hodja en það viðurnefni merkir kennari eða meistari og er eins og nafnið stafsett á marga vegu.
            Þótt Nasreddin hafi að líkindum fæðst og lifað í Tyrklandi eru sögur um hann ekki nærri því allar tyrkneskar að uppruna. Öldum saman hafa þær kviknað víða í löndum múslíma frá Kína í austri til Miðjarðarhafslanda í vestri og eru enn að verða til. Þær eru hluti af fjölþjóðlegri og lifandi sagnahefð. Sögurnar hverfast samt allar um hjartahreinan og góðviljaðan speking sem er í senn barnslegur og glöggskyggn á það broslega í tilverunni. Þessi einkenni fylgja honum jafnaframt því sem á hann hlaðast minningar frá ólíkum tímum og mörgum löndum. Nasreddin hefur því allt í senn svip af fornum heimspekingum, helgum mönnum og margs konar vitringum. Að einhverju marki hefur hann líka runnið saman við aðrar þjóðsagna­persón­ur á seinni öldum.
            Sterkust eru tengsl Nasreddins við súfistana sem voru andlega þenkjandi skáld, dulspekingar og hugsuðir innan íslam. Ég hygg að Vesturlandabúar þekki súfisma helst af ljóðum Rumi og fleiri skálda. Ég læt það liggja milli hluta hvort rétt er án fyrirvara að kalla Nasreddin súfista.
            Hér fara á eftir kaflar úr safni Nasreddinsagna sem Stelios Pelasgos (Στέλιος Πελασγός) skráði á grísku og kom út á bók árið 2022.[1] Hann kveðst hafa kynnst Nasreddin af sögum afa síns sem var frá borginni Smyrnu. Hún heitir nú Izmir.

Týndur í mannfjöldanum

Eitt sinn þurfti Nasreddin að fara til borgarinnar. Hann hafði heyrt um mannhafið þar og óx í augum að þurfa að ganga um markaðinn og kaupa allt sem konan hans bað hann að koma með heim. Þorpið sitt þekkti hann og vissi þar deili á hverjum manni en borgin var honum framandi.
        Einn nágranna hans úr þorpinu reyndi að stríða honum og sagði: „Vertu óhræddur herra minn. Þú ert stór maður og ekkert barn og engin hætta á að þú týnist í mannfjöldanum.“
        „En þetta er ekkert spaug“ svaraði Nasreddin „hvað ef ég týnist nú samt?“
        „Hægt er að forðast það“ sagði nágranninn þá „við getum bundið kút úr graskeri við mittislinda þinn. Enginn annar hefur slíkan björgunarbúnað í mannhafinu.“
        „Þetta er þjóðráð“ svaraði Nasreddin „ég þekkist þá úr og týnist ekki.“
        Hélt hann nú áhyggjulaus til borgarinnar með kútinn við lindann. Þegar þangað kom starði hann opineygur á öll þau undur sem fyrir bar. Við og við fannst honum mannhafið samt ætla að færa sig í kaf þegar hann barst áfram með fjöldanum. Þá þreifaði hann um klæði sín, greip í kútinn góða og varpaði öndinni léttar.
        „Ó, já. Ég er Nasreddin, eiginmaður Æsu og faðir Smælis“ og svo rifjaði hann upp í huganum hvað foreldrar hans hétu, afar og ömmur, vinir og sveitungar allir.
        Bar nú að tvo óknyttastráka. Þeir læddust aftan að honum, skáru á lindann og stálu kútnum. Annar þeirra batt hann við belti sitt og svo biðu þeir eftir viðbrögðum Nasreddins.
        Ekki þurftu þeir lengi að bíða. Þegar næsta bylgja mannhafsins greip hann með sér þá þreifaði hann eftir kútnum og greip í tómt.
        Nasreddin var mjög brugðið, tók að skima um mannfjöldann, sá ungling með kútinn við mittið, skundaði til hans og sagði „salam alekúm, ekki ert þú Nasreddin?“
        „Alekúm salam“ svaraði þjófurinn.
        „Herra minn góður, við þurfum að tala saman. Fórst þú að heiman í morgun með graskerskút við mittislindann til að þekkja sjálfan þig úr í mannhafinu?“
        „Rétt er það. Ég er Nasreddin“ svaraði skálkurinn og glotti.
        „Þá verð ég að spyrja þig að einu herra minn góður. Ef þú ert Nasreddin hver er þá ég?“

Þetta var ekki í eina skiptið sem Nasreddin þurfti að fara á markaðinn í borginni. Tíminn leið, hann safnaði kjarki, tók við nýjum pöntunarlista og hélt af stað. Hann einsetti sér að týnast ekki og ákvað að dvelja á sama gististað og í fyrri ferð. Hann kannaðist orðið við fólkið þar og gæti skroppið þaðan í fjölmennið á markaðnum. Á gististaðnum yrði líka annast um asnann hans og þar yrði öruggt skjól fyrir þá báða.
        Allt gekk vel. Nasreddin fékk að eta og drekka á gististaðnum og svaf um nóttina. Morgunninn eftir fór hann með stóran sekk á markaðinn og fyllti hann af vörum en þar kom eins og fyrri daginn að hann vissi ekki hvar hann var staddur í mannhafinu og týndist þar í annað sinn.
        Þvílíkur fjöldi. Þvílík iðandi kös. Hver var hann sjálfur í öllum þessum grúa, ungur eða gamall, karl eða kona? Honum var öllum lokið.
        Skelfingu lostinn gekk hann inn í næstu búð. Þar var fyrir smiður sem seldi gripi úr tré.
        „Heill og sæll herra minn“ sagði smiðurinn „hvað get ég gert fyrir yður?“
        Nasreddin starði á hann með hjartað í buxunum og augun stóðu á stilkum.
        „Þarftu stól eða koll? Ég smíða líka ljómandi falleg borð eftir máli.“
        „Nei“ greip Nasreddin fram í „það sem ég þarf er að vita hvort þú sást mig koma inn í búðina.“
        „Já, herra minn. Ég sá þig koma hér inn.“
        „Eins gott“ stundi Nasreddin og var heldur enn ekki létt „og hefur þú séð mig áður?“
        „Nei, herra minn. Þetta er í fyrsta sinn sem þú kemur fyrir mín augu.“
        „Hvernig í ósköpunum veistu þá að þetta er ég?“

Þessi saga virðist ef til vill tómt grín en hún ýjar samt að heimspekilegri ráðgátu um fyrstu persónu í heimi sem er lýst hlutlægt. Fullkomin lýsing á efnisheiminum segir allt um hvernig hlutir hreyfast og breytast en hún segir hvorki hvað af öllu því sem á jörð hrærist og um jörð skríður er ég né heldur hvaða staður er hér og hvaða augnablik er nú.
            Næsta saga er líka um meira alvörumál en virðast kann við fyrstu sýn því að í Litlu-Asíu tíðkaðist, eftir því sem sögur herma, að smána sakamenn og þá sem voru upp á kant við húsbændur og yfirvöld með því að binda þá, setja öfugt á asna og flytja þannig til hirtingar eða á aftökustað. Sagan kallast á við ummæli Krists um að sá sem upphefur sjálfan sig muni lítillækkaður verða og sá sem lítillækkar sjálfan sig muni upphafinn verða og þekktasta myndin af Nasreddin tengist þessari sögu. Hún er af manni sem situr á baki asna og snýr aftur.

Öfugur á asnanum

Eitt sinn var múlla Nasreddin með söfnuði sínum. Hann sat á asnanum og fór fyrir en þeir trúuðu fylgdu á eftir fótgangandi. Nasreddin horfði ekki fram á veginn því hann sneri öfugt á asnanum og horfði á sitt guðrækna fólk. Asninn þekkti leiðina og húsbóndi hans treysti dýrinu betur en sjálfum sér til að rata réttan veg.
        „Hví situr þú öfugur á asnanum“ spurði einn hinna guðræknu.
        „Af virðingu við ykkur kæru bræður“ svaraði Nasreddin. „Ef ég fer á undan og sit rétt þá sný ég við ykkur baki og það ber ekki vott um mikla virðingu. Ef þið hins vegar gangið á undan og ég elti þá snúið þið baki við mér. Aðeins með því að ég snúi öfugt getum við allir sýnt hver öðrum þá virðingu sem ber.“

Tvær síðustu sögurnar, sem hér fara á eftir, eru dæmigerðar fyrir Nasreddin. Hann er spekingur með barnshjarta sem talar og starfar af góðum hug jafnframt því sem hann gerir grín að alls konar vitleysu í fólki sem telur sig skynsamt og hafið yfir kjánaskap.

Kistan með steinvölunum

Okurkarl og nirfill sem var nágranni Nasreddins átti kistu úr járni. Hún var veggföst og rammlega læst. Þar geymdi hann lírur sínar. Eftir föstudagsbænir í moskunni opnaði hann jafnan kistuna, taldi lírurnar og læsti henni svo aftur. Stundum bauð hann Nasreddin til sín og lét hann sitja frammi meðan hann fór inn þar sem kistan var og taldi fé sitt.
        Hann heyrðist telja: „Lírurnar mínar, nú tel ég ykkur eina af annarri. Ein líra, tvær lírur, þrjár lírur, fjórar …“
        Nasreddin keypti sér líka fjárhirslu með lás en lét sér duga ódýran kassa úr tini. Ofan í hann lét hann hvítar steinvölur. Einn föstudaginn bauð hann auðmanninum nágranna sínum heim eftir að þeir komu úr moskunni. Þegar þeir höfðu drukkið kaffi og talað saman sagði Nasreddin: „Afsakaðu mig æruverðugi herra. Ég þarf að bregða mér inn í næsta herbergi og gera dálítið. Það tekur enga stund svo ég kem fljótt aftur.“
        Okrarinn heyrði kunnugleg hljóð, hljóð sem hann þekkti vel, þegar lykli var snúið í skrá og marraði í hjörum. Hann færði sig nær dyrunum að herberginu og heyrði Nasreddin telja: „Ein, tvær, þrjár, …“
        Rifa var milli stafs og hurðar og hann gægðist inn og sá að Nasreddin hafi tekið steinvölur úr kassanum.
        Nú stóðst hann ekki mátið og kallaði: „Ekki ertu að telja steinvölur? Ertu orðinn galinn?“
        „Ég geri eins og þú, æruverðugi herra.“
        „En ég tel lírur sem eru verðmæti og fjármunir.“
        „Og ég tel steinvölurnar mínar. Þær eru mér jafn dýrmætar og lírurnar eru þér og koma mér að sömu notum. Það eina sem þú gerir við peningana er að telja þá því þú eyðir aldrei neinu. Það er eins með steinvölurnar. Ég hef þær til að telja og hreykja mér af.“

Hver hefur lög að mæla?

Eitt sinn komu tveir menn til Nasreddins og báðu hann að dæma í málum sínum.
        Sá sem fyrr tók til máls sagði: „Kæri herra. Ég á asna og í fyrradag var hann horfinn. Ég leitaði daglangt og fann hann hvergi. Þegar kvölda tók sá ég hann sveittan að bera timbur í byggingu hjá manninum sem er hérna með mér. Þá hafði hann rogast með byrðar, fjörutíu ferðir. Ég krafðist þess að fá borgun fyrir að láta asnann minn erfiða svona. Hef ég ekki réttinn mín megin?
        Nasreddin hugsaði sig um og svaraði svo: „Rétt er það. Þú hefur lög að mæla.“
        Þá tók hinn maðurinn til máls og sagði: „Herra minn. Hann sagði ekki alla söguna. Hann hafði svelt skepnuna og látið ganga lausa. Asninn sótti því í útihús manna og stal þar fóðri. Stundum át hann líka kúrbít frá öðrum og eitt sinn kom hann í garðholu mína og hámaði í sig erturnar. Það sem meira er og verra, hann eyðilagi baunaplöntur sem stóðu í beinum röðum og lásu sig upp greinar sem ég hafði rekið ofan í moldina. Þegar ég rakst á asnaskömmina þá sagði ég, þarna ertu og nú skaltu vinna fyrir mat þínum. Ég hlóð svo á hann timbrinu og lét hann bera það. Hef ég ekki réttinn mín megin?“
        Nasreddin hugsaði sig um og svaraði svo: „Rétt er það. Þú hefur lög að mæla.“
        Nú spratt fram maður sem hugði að Nasreddin væri galinn og vildi losna við hann úr bænum.
        „Þetta stenst ekki“ sagði hann. „Hvers konar dómari ert þú eiginlega sem segir báðum að þeir hafi rétt fyrir sér? Það getur alls ekki verið að báðir hafi réttinn sín megin?“
        „Rétt er það“ svaraði Nasreddin. „Þú hefur svo sannarlega lög að mæla.“


Eftirmálsgrein

[1] Bókin heitir Νασρεντίν Χότζας, το γέλιο της Μικρασίας (Útgefandi: Πρώτη ύλη. www.pibooks.gr). Sögurnar í bókinni eru tölusettar og þær sem hér fara á eftir eru númer 1.3.1, 1.3.2, 1.4.1, 6.1 og 10.4. Þær tvær fyrstu eru þýddar sem ein saga. Ég hafði samband við Stelios Pelasgos og hann veitti leyfi til að birta þýðingarnar.