Fyrirlestraröðin um kvenheimspekinga heldur áfram. Á hverjum fimmtudegi er sjónum beint að kvenheimspekingi úr sögu heimspekinnar. Næst mun Þóra Björg Sigurðardóttir tala um heimspeki Elísabetar frá Bæheimi. Fyrirlesturinn verður fluttur í dag, fimmtudaginn 21. mars, í Árnagarði, stofu 201 kl. 15:00.
Næsti kvenheimspekingur sem verður kynntur í röðinni „Kvenheimspekingar koma í kaffi“ er Elísabet prinsessa af Bæheimi (1618-1680) sem er þekktust fyrir langvarandi bréfaskrif sín við Descartes. Til eru 50 bréf sem fóru á milli þeirra og snúast þau að stórum hluta um samband sálar og líkama sem Descartes gerði skarpan greinarmun á. Elísabet efaðist um þessa skýru sundurgreiningu sálar og líkama og röksemdir hennar urðu til þess að Descartes samdi rit um ástríður sálarinnar eða tilfinningar sem hann tileinkaði henni. Elísabet var rationalisti eins og Descartes en hún á það sammerkt með mörgum konum í sögu heimspekinnar að gefa líkama og tilfinningalífi meira vægi og meira gildi en lengst af hefur verið gert í heimspeki. Bréf Elísabetar sýna einnig kunnáttu hennar í frumspeki, rúmfræði og siðfræði, en hún skrifaðist á við fleiri lærdómsmenn og -konur þess tíma.