Heimspekitorgið býður starfandi kennurum og öðru áhugafólki um heimspekikennslu að senda inn styttri og lengri hugleiðingar um störf sín og rannsóknarefni, eða jafnvel spurningar sem það langar setja fram.
Með þessu er vonast til að Heimspekitorgið geti orðið lýðræðislegur vettvangur fyrir umræðu um heimspekikennslu og menntaheimspeki.
Allt frá því vefsíðan fór í loftið árið 2011 hefur efnisgerð á síðunni að mestu leyti verið í höndum einnar manneskju, Brynhildar Sigurðardóttur. Hún hefur einnig haft veg og vanda að fréttabréfi Félags heimspekikennara. Sá sem þetta ritar telur fullvíst að ef hennar nyti ekki við væru störf ritstjórnar, sem og félagsstarf heimspekikennara, fátækara.
Það er von undirritaðs að framlag Brynhildar verði eftir sem áður jafn örlátt og verið hefur, en hér með skorar ritstjórn á annað áhugafólk um heimspekikennslu að leggja Heimspekitorginu lið og senda inn hugleiðingar og spurningar sem veitt geta öðrum innblástur í þeirra starfi.
Senda má efni í tölvupósti á heimspekikennarar@gmail.com.