Kennaranám

Þjálfunarhópur í heimspekilegri samræðu.

Veturinn 2012-2013 verður starfræktur umræðuhópur kennara sem vilja þjálfa sig í heimspekilegri samræðu sem kennsluaðferð. Hópurinn hóf starfsemi haustið 2011 og hittist einu sinni í mánuði, á miðvikudögum kl. 16.00-17.30 í Garðaskóla, Garðabæ. Markmið hópsins er að þátttakendur fræðist um heimspekilega samræðu og fái þjálfun í að beita henni með eigin nemendum. Kennarar verða Dr. Hreinn Pálsson, Brynhildur Sigurðardóttir M.Ed. og fleiri reynslumiklir heimspekikennarar. Nánari upplýsingar og skráning á vefsíðu Klifsins, skapandi fræðsluseturs.

Heimspeki með börnum

Á Menntavísindasviði Háskóla Íslands er námskeiðið Heimspeki með börnum (MEN 225F) kennt á vorönn 2012 og áætlað að það verði aftur í boði vorið 2013. Umsjónarmaður námskeiðsins hefur verið Brynhildur Sigurðardóttir og aðrir kennarar á námskeiðinu hafa m.a. verið Hreinn Pálsson, Jóhann Björnsson og Ármann Halldórsson. Í námskeiðslýsingu segir m.a.:

Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning á markmiðum og tilgangi þess að stunda heimspekilega samræðu með börnum og fullorðnum. Nemendur eiga í lok námskeiðsins að skilja hvað í því felst að skipuleggja og stjórna starfi í samræðufélagi (Community of Inquiry). Á námskeiðinu verður fjallað um samræðu sem kennsluaðferð og hugmyndir fræðimanna um tilgang og markmið þess að stunda heimspekilega samræðu með börnum. Fjallað verður um tengsl milli sex grunnþátta nýendurskoðaðrar aðalnámskrár við meginmarkmið heimspekilegrar samræðu s.s. gagnrýna og skapandi hugsun, umhyggju, sjálfsþekkingu og lýðræðislega færni. Ólíkar nálganir að samræðu sem kennsluaðferð verða kynntar og innsýn gefin í störf þeirra kennara sem lengst eru komnir í aðlögun aðferðanna að íslenskum nemendahópum og kennslustofum.

Námskeið á vegum félags heimspekikennara

Félag heimspekikennara heldur árlega námskeið til að kynna aðferðir og leiðir í heimspekikennslu. Félagið hefur fengið erlenda kennara til að halda helgarnámskeið og íslenskir kennarar hafa haldið styttri æfingar á vegum félagsins. Námskeið og önnur dagskrá á vegum félagsins er auglýst á Heimspekitorginu, á Facebook síðu félagsins og í Fréttabréfi heimspekikennara.

Næsta námskeið félagsins verður laugardaginn 9. júní 2012. Á því námskeiði mun Jóhann Björnsson heimspekingur og kennari í Réttarholtsskóla kynna verkefni sem hann hefur samið og notað í heimspekikennslu í Réttarholtsskóla og víðar. Námskeiðið verður nánar auglýst hér á heimspekitorginu þegar nær dregur.

Auk námskeiðanna stendur félag heimspekikennara reglulega fyrir heimspekilegum æfingum. Þar hittast þeir sem hafa áhuga á að þjálfa sjálfa sig í heimspekilegri samræðu og æfa sig. Félagsmenn í félagi heimspekikennara hafa skipst á að stjórna æfingunum sem eru auglýstar jafn óðum hér á heimspekitorginu.