Sögulegt yfirlit

Sögulegt yfirlit

Heimspeki á sér lengri sögu á Íslandi en marga grunar en á vef Félags áhugamanna um heimspeki er að finna ágætis umfjöllun um íslenska heimspeki fyrri alda.[1] Heimspeki er Íslendingum ekki ókunnug en hér á landi hafa menn lesið heimspekileg rit frá upphafi ritaldar (upphaf ritaldar miðast við 1117-18).[2] Þá fóru íslenskir námsmenn á öldum áður til Kaupmannahafnar, og víðar, og lásu þar heimspeki en heimspekin varð fyrst að sérstakri námsgrein innan Háskóla Íslands árið 1972. Þá fyrst var hægt að lesa heimspeki til Ba-prófs á Íslandi.

Heimspeki sem fræðigrein á Íslandi

Á þeim tíma, þegar heimspeki varð í fyrsta skipti að sérstakri námsgrein innan háskólans, var orðið „heimspeki“ notað í mun víðari skilningi en í dag. Fram yfir miðja 20. öld merkti orðið „heimspeki“ „almenn vísindi önnur en guðfræði, læknisfræði og lögfræði“[3] en með tímanum breyttist þó merking orðsins, í daglegu sem fræðilegu tali, og afmarkaðist við heiti einnar hugvísindagreinar, heimspeki.[4] Heimspeki varð fyrst að sérstakri fræðigrein við Háskóla Íslands árið 1972. Þeir sem komu að mótun fræðigreinarinnar á upphafsárum hennar voru einna helst heimspekingarnir Páll Skúlason og Þorsteinn Gylfason ásamt Arnóri Hannibalssyni og Mikael Marlies Karlsson heimspekingum. Deildinn stækkaði jafnt og þétt í gegnum árin og með tímanum hafa fleiri prófessorar bæst í hópinn. Þá var Sigríður Þorgeirsdóttir fyrsta konan til að gegna starfi háskólakennara í heimspeki árið 1997.

 

Enn þann dag í dag er eingöngu hægt að ljúka háskólgráðu í heimspeki við Háskóla Íslands þó að heimspeki hafi orðið hluti af öðru námi innan annarra háskóla á Íslandi. Dæmi um það er HHS námið, eða heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði, við Háskólann við Bifröst.[5] Fyrsta doktorsritgerðin í heimspeki við Háskóla Íslands var varin í febrúar 2012, fjörtíu árum frá stofnun deildarinnar.

Heimspekikennsla með börnum

Á níunda áratug síðustu aldar fóru sögur af barnaheimspeki að berast til Íslands. Ásgeir Beinteinsson kennari í Háteigsskóla og Arnór Hannibalsson heimspekingur voru meðal þeirra fyrstu sem kynntu sér verk og kennsluaðferðir Matthew Lipman sem hafði þá komið upp stofnun um barnaheimspeki við Montclair State háskólann í New Jersey. Upphaf heimspekikennslu með börnum á Íslandi má einnig rekja til heimspekiskóla Hreins Pálssonar. Hreinn stofnaði og var skólastjóri við skólann frá árinu 1987 þar til skólinn hætti starfsemi um aldamótin 2000. Hreinn lauk Ba-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 1980. Í framhaldsnámi sínu í Bandaríkjunum kynntist hann hugmyndafræði Matthew Lipmans en að loknu meistaranámi í vísindasögu forn- og miðalda frá Catholic University of America varð hann nemandi Matthew Lipmans við Montclaire State College og lauk þar M.A.T. námi eða Master of Arts in Teaching Philosophy for Children árið 1984. Árið 1987 lauk Hreinn doktorsnámi við Michigan State University. Heiti doktorsritgerðar hans var Doing Philosophy with Children in Iceland en hægt er að nálgast upplýsingar um ritgerðina á leitarvefnum Gegni. Hreinn hélt nánu sambandi við Lipman og samstarfsmenn hans og tók þátt í stofnun alþjóðasamtaka barnaheimspekinga (ICPIC) árið 1985.

Heimspekiskólinn

Á starfsárum skólans var nemendafjöldi og aldursdreifing nemenda breytileg frá einu ári til annars. Tíðasta aldurbil nemenda var 8-14 ára en breiðast var aldursbilið 5-16 ára. Hugmyndafræði Lipmans var kjarninn í starfi skólans og unnið var eftir aðferðafræði hans og námsefni. Jafnframt prófuðu kennarar skólans sig áfram með annað námsefni hannað fyrir heimspekikennslu, til dæmis efni úr smiðju Ron Reed og Ann Sharp, en einnig með almennar skáldsögur og ævintýri fyrir börn líkt og ævintýrið Galdrakarlinn í Oz. Hvert námskeið var 12 vikur, einu sinnum í viku og tvær kennslustundir í senn. [6]

 

Skólinn var einöngu rekinn á skólagjöldum og var hann víðsvegar til húsa í gegnum árin, til að mynda í húsnæði Háskóla Íslands og í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi.[7] Ýmsir kennara komu að starfi skólans, ásamt Hreini, á ólíkum tímum og í mislangan tíma. Þar má nefna Sigurð Björnsson, Drífu Thorstensen, Kolbrúnu Pálsdóttir, Kristínu Harðardóttir, Brynhildi Sigurðardóttur, Ólaf Pál Jónsson, Hrannar Baldursson, Hauk Inga Jónasson og Guðrúnu Evu Mínevrudóttur.[8] Mikið frumkvöðlastarf var unnið í skólanum á starfsárum hans en eins og sjá má á heimasíðu skólans þá var unnið nokkuð nákvæmlega eftir hugmyndafræði Lipmans og hafa aðstandendur hans því að geyma reynslu af notkun þess efnis og hvaða ávinning það hefur, kosti þess og galla ásamt heimspekistarfi með börnum almennt. Í þessu fréttabroti frá 1988 segir Hreinn frá starfi heimspekiskólans og framtíðarsýn.

 

Heimspekikennsla á Íslandi

Háskólar

Á Íslandi er heimspeki eingöngu að finna sem heilstæða námsbraut við Háskóla Íslands. Eingöngu þar er hægt að ljúka háskólgráðu (Ba, Ma og Phd.) í heimspeki þó að heimspeki hafi orðið hluti af öðru námi innan annarra háskóla á Íslandi. Dæmi um það er HHS námið, eða heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði, við Háskólann við Bifröst.[10] Heimspekikennsla birtist þá einnig í námskeiðum í siðfræði eða heimspeki menntunar innan heimspekikennslu eða annarra fræðigreina.

Framhaldsskólar

Í sögulegu samhengi færist heimspekin af háskólastigi og verður að námsgrein á framhaldsskólastigi eins og við þekkjum það í dag. Heimspeki er yfirleitt kennd á sem hluti af félagsvísindabraut og í flestum tilvikum eru í boði 1-3 áfanga, og þá sem val. Fyrir vikið er breytilegt ár frá ári hversu mikil heimspeki er kennd. Þá má einnig finna heimspekikennslu í námskeiðum í starfstengdri siðfræði (sbr. sjúkraliðanám) og sem hluta af lífsleiknikennslu. Heimspekikennsla hefur fest sig í sessi í nokkrum framhaldsskólum á Íslandi þar sem námskeiðin eru þá kennd ár eftir ár við góðar undirtektir. Sem dæmi um það má nefna framhaldsskólann í Mosfellsbæ og Verslunarskóla Íslands.

Grunnskólar

Heimspeki er kennd sem námsgrein í hinum ýmsu grunnskólum landsins, sbr. Garðaskóli í Garðabæ og Landakotsskóli og Réttarholtsskóli í Reykjavík.[11] Samkvæmt athugun sem var gerð á skólanámskrám íslenskra grunnskóla vorið 2012 er heimspeki kennd í um 6% grunnskóla landsins.[12] Í umfjöllun um athugunina kemur þá fram að í ljósi eðli hennar sé hlutfallið mögulega eitthvað hærra eða jafnvel lægra. Í ljósi þess að heimspeki varð fyrst hluti af viðfangsefni Aðalnámskrá grunnskóla árið 2011, þó í óeiginlegri mynd sem hluti af siðfræðikennslu, þá hefur það eingöngu verið af frumkvæði skólanna sjálfra eða einstakra kennara, að heimspeki sé kennd á tilteknum stað. Í þeim skólum þar sem heimspekin er kennd er hún ýmist kennd sem val eða skyldugrein og þá yfirleitt á unglingastigi.

Leikskólar

Í ljósi eðli leikskólastarfs er heimspeki ekki að finna sem „námsgrein“ í leikskólum. Heimspekina er þá öllu heldur að finna í svonefndum heimspekismiðjum eða í notkun heimspekilegrar samræðu í starfi. Nokkrir leikskólar á Íslandi hafa unnið markvisst með heimspeki í starfi sínu. Þar ber að nefna Lundarsel á Akureyri, leikskóla Hjallastefnunnar, Aðalþing í Kópavogi og Vallasel Akranesi. Ýmis heimspekileg markmið er hægt að finna í Aðalnámskrá leikskóla líkt og í Aðalnámskrá grunnskóla, sbr. efling gagnrýninnar hugsunar og siðferðisþroska.[13]

 

Vorið 2012 var send fyrirspurn á alla leikskóla landsins um hvort þeir nýttu heimspeki markvisst í sínu skólastarfi í tengslum við meistararitgerð í heimspeki við Háskóla Íslands.[14] 38,8% svöruðu fyrirspurninni og af þeim voru um 10% sem svöruðu fyrirspurninni játandi. Þá voru þó 30% þeirra sem svöruðu neitandi sem tóku fram að þeir hefðu á einhverjum tímapunkti unnið með heimspeki og/eða að þeir hefðu áhuga á að vinna með heimspeki í sínu starfi.

 

[1] https://heimspeki.hi.is/?page_id=25

[2] Gunnar Harðarson og Stefán Snævarr. 1982. Heimspekirit á Íslandi fram til 1900. Félag áhugamanna um heimspeki: 7.

[3] Gottskálk Jensson. 2010.

[4] Gottskálk Jensson. 2010.

[5] Sjá nánar: http://www.bifrost.is/islenska/namsleidir/hhs-heimspeki-hagfraedi-og-stjornmalafraedi-ba/.

[6] Hreinn Pálsson. Prófstjóri Háskóla Íslands og skólastjóri Heimspekiskólans 1987-2000. Viðtal 14. nóvember 2011.

[7] „Heimspekinámskeið fyrir börn“. 1987. Morgunblaðið, 13. september, bls. B11.

[8] Hreinn Pálsson.

[10] Sjá nánar: http://www.bifrost.is/islenska/namsleidir/hhs-heimspeki-hagfraedi-og-stjornmalafraedi-ba/.

[11] Sjá til dæmis Garðaskóli: http://www2.gardaskoli.is/heimspeki/index.html og Landakotsskóli: http://www.landakotsskoli.is/index.php?option=com_content&view=article&id=12&Itemid=27.

[12] Sjá nánar: Elsa Haraldsdóttir. 2013. Gagnrýnin hugsun: Einkenni hennar og hlutverk: http://hdl.handle.net/1946/13776.

[13] Aðalnámskrá leikskóla. 2011: 19.

[14] Sjá nánar: Elsa Haraldsdóttir. 2013.