„Heimspekikennarinn“

eftir Elsu Haraldsdóttur

Erindi flutt á málþingi helgað Jóni Thoroddsen, 2. nóvember 2024, kl. 10–14:30 í Auðarsal í Veröld – húsi Vigdísar

Fyrir mörgum árum, þegar ég var að vinna að lokaritgerð í heimspeki, rakst ég á grein eftir kennara í Grandaskóla. Greinin fjallaði um heimspekilega samræðu í menntun, þar sem kennarinn lýsti því hvernig það að leggja stund á heimspekilega samræðu með nemendum varð til þess að nemendurnir sátu eftir undrandi. Ég skildi ekki alveg hvað kennarinn átti við, ég skildi ekki hvernig það gat verið markmið menntunar að vekja nemendur til undrunar, hvað gat undrunin ein og sér skilið eftir sig? Gat það verið markmið menntunar að vekja nemendur til undrunar? Til hvers? Undrunin ein og sér virtist skilja eftir sig lítið annað en ósvaraðar spurningar, eða óvissu.

Í mínum huga ætti samræðan að skilja eitthvað meira, eða eitthvað annað, eftir sig. Samræðan ætti að vekja nemandann til umhugsunar, jafnvel svara einhverjum spurningum, auka skilning þeirra – hún ætti að hafa skýrt og skilmerkilegt markmið sem stuðlaði að menntun nemandans og þroska. Þá fannst mér undrunin svo endasleppt og ómarkviss – þegar að allt þurfi að hafa tilgang og markmið. Sér í lagi í menntun, þar sem markmið hennar eru skýrt skilgreind og þurfa að hafa einhvern skýran tilgang sem hægt er að skilgreina aðferðir og markmið útfrá. Í því samhengi virtist mér undrunin tilgangslaus.

En þegar ég lít til baka hafði þessi grein mun meiri áhrif á framvindu rannsókna minna á hlutverki heimspeki í menntun, á heimspekikennslu og menntaheimspeki, en ég gerði mér grein fyrir. Hún sat í mér, stuðaði mig og var eitthvað sem ég á einhvern hátt, var eilíft að svara.

Allar mínar rannsóknir í kjölfarið sneru um að sýna fram á hvernig og hvers vegna, heimspeki væri mikilvægur og órjúfanlegur þáttur menntunar. Og þá sneri það að mörgu leiti um að sýna fram á áhrif samræðunnar á nemendur, hvernig hún gerði þá klárari og flinkari í að hugsa fyrir sig sjálfa og ekki síst, betur undirbúnir fyrir hlutverk sitt í lýðræðissamfélagi framtíðarinnar.

Á þessum tíma las ég um rannsókn á heimspekikennslu í skólum í Svíþjóð þar sem nemendur gagnrýndu tilgangsleysi samræðunnar, að hún skildi ekkert eftir sig og að kennararnir „gætu ekki einu sinni svarað eigin spurningum“.[1] Það var greinilega ekkert verra en tilgangsleysið og hvað þá þegar færa ætti rök fyrir gildi heimspekilegrar samræðu í menntun. Heimspeki hafði jú orð á sér fyrir að vera svolítil hringavitleysa, spyrði endalausra spurninga en hefði engin endaleg, né rétt, svör.

En þá rakst ég á rannsókn frá Englandi sem sýndi fram á að nemendur sem fengju þjálfun í heimspekikennslu yrðu miklu flinkari í stærðfræði.[2] Það var orsakasamhengi sem eitthvað vit var í. Svona mælanlegt og skýrt og skilmerkilegt, eitthvað sem væri hægt að kynna fyrir þeim sem öllu stýra í menntamálum og þannig efla veg heimspekikennslu á Íslandi. Það þýddi alls ekki að skilja nemendur bara eftir „undrandi“ í lok kennslustundar.

Ég hélt áfram að pæla, lesa og rannsaka þetta efni – alltaf með óljósan punkt á því að leysa þetta markmið, það er: að færa rök fyrir gildi heimspekilegrar samræðu á sannfærandi og hagnýtan hátt. Með tímanum féll þó þoka á þennan hagnýta og mælanlega þátt – og gildi heimspekinnar og þá jafnvel hugvísinda í heild sinni varð mér meira hugleikin. Ég var þá eitthvað farin að efast um að stærðfræðirannsóknin í Englandi væri rétta leiðin, hún gæti aldrei fyllilega varpað ljósi á gildi heimspekilegar samræðu í menntun. En ég var hins vegar ekki tilbúin til að samþykkja þessi „óljósu“ eða endaslepptu markmið heimspekikennarans úr Grandaskóla.

Það var svo mörgum árum seinna, að ég var að kenna stutt sumarnámskeið um heimspekilega samræðu. Þegar ég las yfir nemendalistann sá ég nafn kennarans sem skrifað hafði greinina, Jón Thoroddsen. Mér varð við. Hvað gæti ég kennt honum um heimspekilega samræðu? Hann var miklu fróðari en ég um þessi mál. Þó ég hafi verið ósammála atriðum greinarinnar um árið, þá var þarna um miklu reyndar kennari og heimspekikennari. Þekkti einn ef ekki frægasta frumkvöðul heimspekilegrar samræðu í menntun, Matthew Lipman, og hafði þar af auki skrifað bók um viðfangsefni námskeiðsins.[3] Það örlaði þá svolítið á stressi fyrir fyrsta tímann, að ég myndi vonandi standa mig nógu vel, og ekki segja einhverja vitleysu – kannski myndi hann þurfa að leiðrétta mig í sífellu.

En það kemur viðstöddum eflaust ekki á óvart að hann var bæði áhugasamasti og örlátasti nemandi sem ég hafði kynnst. Hann lyfti kennslustundunum á annað plan, þannig að aðrir nemendur hefðu fengið langtum minna úr námskeiðinu ef hann hefði ekki verið þar. Ég naut þess að fjalla um þetta efni sem mér var enn svo hugleikið – og ræða það við Jón. Eftir eina af kennslustundunum, þegar við vorum að ræða viðfangsefnið á leið út, komum við inn á málefni sem ég hélt að hann yrði mér mögulega ekki sammála um, svo og ég gerði lítið úr afstöðu minni.

En þá gerðist svolítið undarlegt. Það er erfitt að lýsa því í orðum en það má reyna: Það er eins og að, í samræðunni, þar sem hann stóð á móti mér – gerði hann sig svo lítinn, að hann varð bara agnarsmár – og á sama tíma stækkaði ég og varð sá merkilegi, sem hafi eitthvað segja og hugsaði svo fallega og gáfulega. Maður tekur ekki eftir því í augnablikinu – en með því að gera sig svo smáan hefur hann þannig skapað vettvang og skjól fyrir þig til að hugsa og vera til. Páll Skúlason heimspekingur sagði á einum stað að hlutverk menntastofnanna væri að vera skjól fyrir nemandann til að hugsa og þroskast og dafna.[4] Skilgreining sem mér hefur fundist mjög mikilvæg þegar kemur að eflingu sjálfstæðrar hugsunar og í nútímasamfélgi, þar sem stöðugt áreiti og áróður er daglegt líf. En þarna varð Jón sjálfur skjólið – og jafnvel skjöldurinn. Kennarinn sjálfur, en ekki stofnunin sem slík.

Á sama tíma og Jón deildi visku sinni og fróðleik, fylgdi því hógværð og lítillæti. Og ég lærði að það er lítillætið sem gerir menn stóra. Það felst jú ákveðið örlæti í því að gera sig lítinn, fyrir aðra. Að maður geri sig svo lítinn að maður búi til pláss fyrir aðra til að vera til … á eigin forsendum. Og þannig kennari var Jón – kennari sem gerir öðrum kleift að hugsa og vera til, á sinn kostnað, með því að leggja sjálfið til hliðar. Hann þurfti þá ekki að vita allt best, þó hann hafi vitað margt um meira en ég, en hann vildi hlusta, vildi heyra hvað aðrir höfðu að segja. Hugsunin sjálf var svo mikilvæg og dýrmæt – og þá allar hliðar hugsunarinnar, líka undrunin.

En þá komum við aftur að upphafi þessara hugleiðinga. Ég hef nefnilega lært ýmislegt síðan þarna um árið – þegar ég sat á lesstofunni og las greinina hans Jóns – og hafði miklar áhyggjur af tilgangsleysi samræðunnar. Jón var nefnilega löngu búin að uppgötva eitthvað sem vísindamenn rannsaka nú af miklum móð í dag, þar á meðal ég. Það felst í því að nálgast hugsunina ekki bara sem vélræna aðferð við að svara spurningum, leysa gátur og afla þekkingar. Hugsunin er öllu heldur margslungið samspil upplifunar og reynslu – og þá reynslu og upplifunar sem er ekki síður líkamleg en hugræn.[5]

Í undruninni, býr þannig upplifun, upplifun sem getur skilur eitthvað eftir sig, kannski ekki skilning eða svar, en hún skilur sig tilfinningu – og ef vel er að gáð, er hægt að hugsa sig í gegnum þessa tilfinningu – og með því, öðlast dýpri skilning á sjálfum sér, öðrum og veruleikanum, en án hennar. Tilfinningin hefur þannig ríkan og gildan tilgang í samræðunni, hún er á vissan hátt bæði aflvaki hennar og afleiðing. En hér get ég einnig vitnað í Jón sjálfan þar sem hann segir frá kennslunni í Grandaskóla:

„Svo rakst ég á bókina Heimspeki og börn … . Þar sé ég þessa spurningu: Hvernig getum við verið viss um að allt er ekki draumur? og ég ákvað að prófa hana. Og börnin urðu eiginlega algerlega heilluð af þessari spurningu. Og eftir það varð ekki aftur snúið …“.[6]

Tilfinningin er einnig órjúfanlegur hluti tilveru okkar, eitthvað sem gefur manneskjunni aukinn skilning á sjálfum sér og veruleikanum. Skilning sem hefur ekki mikið verið í hávegum hafður en vísindamenn hafa margir áttað sig á gildi hans, ekki síst sem leið til að kljást við krefjandi áskoranir samtímans. Það mælanlega og augljóslega hagnýta, er ekki það eina sem hefur gildi þegar kemur að menntun.

Þessar hugleiðingar hafa þá verið tilraun til að gera grein fyrir áhrifum Jóns á mína eigin hugsun en það má segja að við lestur þessarar greinar frá 2003 og bar heitið: „Heimspeki með börnum: tilraun í Grandaskóla, Reykjavík“ hafi hafist heilmikið heimspekiferðalag. En Jón var þá fyrir mig, bæði hin Sókratíska gaddaskata og ljósmóðir: hann stuðaði mig með orðum sínum, sem fékk mig til að hugsa og vilja vita meira, en hann sýndi mér einnig hvernig lítillætið geymir umhyggjuna – og fyrir það verð ég honum ævinlega þakklát.


Eftirmálsgreinar

[1] Bo Malmhäster og Ragnar Ohlsson, 1999, Filosofi med barn: reflektioner över ett försök på lågstadiet, Stockholm: Carlsons.

[2] Jenny Anderson, „Teaching kids philosophy makes them smarter in math and English“, Quartz, 9. mars 2016: https://qz.com/635002/teaching-kids-philosophy-makes-them-smarter-in-math-and-english.

[3] Jón Thoroddsen, 2016, Gagnrýni og gaman: Samræður og spurningalist, Reykjavík: IÐNÚ.

[4] Páll Skúlason, 1987, „Hugsun og menntun“, Pælingar, Reykjavík: ERGO.

[5] Elsa Haraldsdóttir, Donata Schoelle, Guðbjörg R. Jóhannesdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir, „Hvernig má hugsa gagnrýnið og glæða skilninginn? Hvarfið að líkama og reynslu í þjálfun gagnrýninnar hugsunar“, Hugur 33/2022-23.

[6] Ingvar Sigurgeirsson, „Nemendur þurfa að finna að þeir séu teknir alvarlega sem vitsmunaverur: Viðtal við Jón Thoroddsen, kennara í Laugarlækarskóla, um nýja bók hans Gagnrýni og gaman: Samræður og spurningalist“, Skólaþræðir, 6. desember 2016: https://skolathraedir.is/2016/12/06/nemendur-thurfa-ad-finna-ad-thau-seu-tekin-alvarlega-sem-vitsmunaverur/.