Gagnrýni og gaman – Samræður um spurningalist. Jón Thoroddsen tekinn til skoðunar

eftir Ólaf Pál Jónsson

Erindi flutt á málþingi helgað Jóni Thoroddsen, 2. nóvember 2024, kl. 10–14:30 í Auðarsal í Veröld – húsi Vigdísar

I

Þegar nefnt var við mig að tala á málþingi helguðu Jóni Thoroddsen fannst mér liggja beinast við að segja eitthvað um bók hans, Gagnrýni og gaman. Ég hugsaði mér að þetta yrði skemmtilegt verkefni þar eð með því einu að halda mig nálægt bókinni, og kannski vitna oft í hana, þá færi ekki hjá því að erindið yrði skemmtilegt. Sennilega bráðskemmtilegt. Og reyndar hugsaði ég líka að það yrði frekar létt, því um þessa bók væri hægt að tala lengi. En þegar ég fór að fletta bókinni til að undirbúa þetta erindi færðist ég smátt og smátt frá þessari hugmynd. Bókin er hérna, þið eigið hana öll, og hún er vel skrifuð, skemmtileg, skýr, skipuleg, og stendur alveg fyrir sínu. Það sem ég myndi segja um bókina yrði líklega ekki annað en dauf skuggamynd af bókinni sjálfri og bætti litlu við.

Það sem olli þessum sinnaskiptum var ekki bara sannfæring mín um að orð mín yrðu lítið annað en litlaus endursögn, heldur líka hitt að ég kom auga á annað í bókinni sem ég held að sé enn áhugaverðara en bókin sjálf – nefnilega Jón sjálfan. Þegar við lesum bókina fer varla fram hjá okkur að hún er nokkuð persónuleg – og að því leyti fremur óvenjuleg sem bók um kennslufræði eða kennsluaðferðir. Það eru nefnilega ekki bara aðferðirnar og hugmyndirnar sem lýst er í bókinni sem skipta máli, heldur það hvernig Jón lýsir því hvernig hann fær hugmyndirnar og hvernig hann vinnur úr þeim.

Það er vel þekkt að Platon hafði takmarkaða trú á að stunda heimspeki í rituðu máli því ritmálið væri of svifaseint, of aftengt dýnamík rökræðunnar, of langt frá hinni lifandi leit að sannleika. Þess vegna setti hann líka sína heimspeki fram sem lifandi rökræður, ólíkt Aristótelesi sem sá ekkert að því að skrifa skipulega heimspeki og fella ólíkar vangaveltur í margvísleg kerfi. Platon var trúr læriföður sínum, Sókratesi, í því að sjá heimspekina sem virkni, lifandi iðju þar sem ólíkir hugar mætast í leit að sannleika – stundum reyndar með dálitlum pirringi og stælum, en það er önnur saga. Þannig er nú einu sinni mannssálin. Í bókinni Gagnrýni og gaman finnst mér Jón halda aðdáunarlega í þessa platónsku afstöðu.

Þegar ég las bókina á sínum tíma var ég svo upptekinn af aðferðunum, dæmunum, spurningunum og sjálfri heimspekinni að ég tók ekki eftir Jóni sjálfum. Eða öllu heldur, ég horfði fram hjá honum og taldi mér trú um – ómeðvitað vissulega – að þetta væri bók um aðferðir til að nota heimspeki í kennslu. En þetta var einföldun og í þessu erindi vonast ég til að geta gefið ykkur smá hugboð um hvers vegna mér virðist að þetta hafi verið einföldun, eða jafnvel afbökun.

Kannski er ég sá eini sem var svona skammsýnn við fyrsta lestur. Jón var náttúrulega ekki að reyna að fela sjálfan sig þegar hann skrifaði bókin. Kafli 1 hefst beinlínis á þessum orðum:

Þegar ég fór að stunda heimspeki með börnum og unglingum öðlaðist hún fyrst líf fyrir mér. (bls. 13)

Fyrsti kaflinn heitir vissulega „Persónuleg saga með dæmum“ og þar segir Jón okkur heilmikið af sjálfum sér, ekki síst námi sínu í heimspeki sem „gerði veruleikann gráan“. Hann segir okkur líka að eflaust hafi hann tekið „fagið aðeins of alvarlega“ svo það hafði áhrif á lífsgleðina, ekki til upplyftingar heldur þvert á móti. Þetta kom mér reyndar mjög á óvart við lestur bókarinnar, enda man ég varla eftir lífsglaðari manni en Jóni. Mér finnst ég varla hafa hitt mann sem fannst heimurinn jafn heillandi og skemmtilegur. Honum fannst svo margt fyndið. En ég kynntist honum vissulega ekki fyrr en hann hafði unnið við að kenna börnum og unglingum heimspeki um nokkra hríð og lært að taka heimspekina ekki of alvarlega.

II

Sá Jón sem birtist okkur í upphafi bókarinnar er í svolitlum vandræðum með heimspekina, og kannski sjálfan sig líka. Hann vinnur í Grandaskóla og er að prófa sig áfram með heimspeki fyrir börn, notar efni frá Matthew Lipman en „Það gekk nú heldur brösuglega þegar á heildina er litið og sumir brugðust ókvæða við þessu,“ (bls. 14) segir hann. Þarna var samt einn strákur, 9 ára að aldri, sem tók heimspekinni fagnandi. Jón hugsaði: „Já, heimspeki er líklega bara fyrir fáa“ (bls. 15).

En þarna, í þessu sem virðist hafa verið hálfgerður vandræðagangur, birtist einmitt eiginleiki sem ég sé aftur og aftur í bók Jóns. Nefnilega að taka börn alvarlega, treysta þeim og treysta innsæi þeirra. Þrem árum síðar, þegar Jón hafði snúið aftur til kennslu í Grandaskóla eftir að hafa búið erlendis í tvö ár, var það þessi sami nemandi sem kom honum á sporið. Ég ætla ekki að rekja þessi fyrstu skref Jóns í heimspekikennslunni – hann gerir það sjálfur í bókinni. En mig langar að undirstrika þennan eiginleika sem ég var að nefna og ég held að sé mjög mikilvægur: Að taka börn alvarlega og treysta á innsæi þeirra.

Þessi eiginleiki er ekki aðferð, en án þessa eiginleika falla allar þær aðferðir sem Jón lýsir í bókinni dauðar til jarðar. Þarna sjáum við Jón sjálfan, eða öllu heldur, við sjáum einni hlið á honum bregða fyrir.

Ég sagði áðan að mér virtist að Jóni fyndist heimurinn heillandi og skemmti-legur. Hér myndi ég vilja bæta við: og fallegur. Þegar Jón rakst inn á skrifstofuna í Skipholti þar sem við Atli Harðarson sátum og vorum eitthvað að stússa, þá breytti skrifstofan umsvifalaust um yfirbragð og þá stundina virtist mér heimurinn einmitt heillandi, skemmtilegur og fallegur. Þetta er annar eiginleiki sem skín víða í gegn. Undir lok fyrsta kafla lýsir Jón stuttlega aðferð sem hann hafði þróað en segir svo:

Þessi nýja aðferð reyndist vel til að auka á sjálfstraust og leikgleði nemenda. Þarna sköpuðust ótrúlega líflegar umræður og ég gat dregið mig til baka og notið þess að hlusta. (bls. 30–31)

Það er ekki bara að Jón geti dregið sig til baka, því nemendur vinni sjálfstætt og þurfi ekki stöðuga örvun. Þetta er í senn tími leikgleði og tími til að njóta. Þarna birtist heimur sem er heillandi, skemmtilegur og fagur – það er hægt að njóta þess að hlusta.

Skynfærið sem er lykillinn að því að nema þessa fegurð heimsins, er ekki bara sjón og heyrn heldur einkum hlustun. Heyrn er ekki það sama og hlustun. Heyrn getur numið hljóð, en það þarf hlustun til að nema fegurðina sem birtist í leikgleði nemenda.

Án þess eiginleika að geta hlustað eftir leikgleði nemenda og skynjað aukið sjálfstraust þeirra í glímunni við ólíkar spurningar – og í glímunni við tungu-málið og sjálf sig – hefði Jón tæpast enst í starfi. Aftur og aftur í bókinni birtist þessi sýn, þessi skynjun. Í kafla um töflukennslu, sem Jón lýsir sem viðleitni til að hugsa saman (bls. 34), segir hann á einum stað.

Nú mætti halda að umræðan væri komin í þrot … (bls. 37)

Jón er að lýsa umræðu um hvað hugsun sé og hvernig hún tengist ímyndunar-aflinu. Umræðan virðist ekki hafa neina skýra stefnu og kannski erfitt að sjá skýra framvindu í henni. Þess vegna mætti halda að hún væri komin í þrot. En Jón heldur áfram:

… en hver sem hefur horft í augu fjörmikilla ungmenna ætti að vita betur. (bls. 37)

Hér sjáum við kennara sem er tilbúinn að treysta innsæi nemenda og nokkrum línum síðar dregur Jón saman lærdóminn af samræðunni:

Eins og sjá má eru fangbrögð hinna ungu nemenda hin skemmtilegustu, en alls staðar leiftrar þessi skýra hugsun og meitlaðar staðhæfingar sem nálgast það oft að vera ljóðlínur eða spakmæli. (bls. 37)

Til að nema fegurðina í því sem nemendur segja, til að upplifa tal þeirra sem „meitlaðar staðhæfingar“ sem séu á köflum líkastar ljóðlínum eða spakmælum, þá er ekki nóg að snúa eyra að nemendahópnum og leyfa tali þeirra að dynja á hljóðhimnunni. Sú hlustun sem Jón lýsir er eitthvað miklu meira, hún er skynjun á merkingu, blæbrigðum tungumáls, leikgleði nemenda og áreynslu þeirra við að takast á við viðfangsefni sem hefur fangað athygli þeirra.

III

Ég hef nefnt tvo eiginleika sem oft bregður fyrir í bókinni, eða öllu heldur, sem sjá má þegar Jóni sjálfum bregður fyrir í bókinni. Þriðji eiginleikinn sem ég held að sé ekki síður mikilvægur er örlæti sem birtist með tvennum hætti. Í dæmigerðri sókratískri rökræðu veltur mikið á því að rökræðendur séu örlátir á hugsanir sínar. Um leið og hugsun hefur verið orðuð er hún sameign þeirra sem taka þátt í rökræðunni. Enginn getur sagt: „Nei, þú mátt ekki halda þessu fram, þetta er mín hugsun.“ Höfundarréttur að hugsunum getur aldrei orðið annað en fótakefli heimspekilegrar rökræðu.

Þegar Jón lýsir umræðuhring þar sem talprik var látið ganga á meðan rætt var um neikvæðni og gagnrýni, segir hann á einum stað:

Oft verða nemendur fyrir vonbrigðum í slíkum umræðum þegar einhver orðar hugsun sem þeim sjálfum hafði dottið í hug og finnst þeir missa af tækifærinu. (bls. 43)

Athugasemdin kemur á eftir kafla þar sem samræða er skráð orð fyrir orð eftir upptöku í tíma. Umræðan dýpkar og auðgast smátt og smátt en það eru margir krakkar í bekknum, einungis einn getur talað í einu og þegar einhver kemst ekki að með sína eigin hugsun, eða þegar einn nemandi orðar það sem annar vildi líka segja, má búast við vonbrigðum. Ef krökkunum finnst umræðan skipta máli verða slík vonbrigði nánast óhjákvæmileg. En þegar nemendur verða fyrir slíkum vonbrigðum segir Jón að gott sé að minna þá á

… að vera ekki eigingjörn á hugsanir, að það skipti ekki máli jafnvel þótt einhver annar segi það sem manni býr í brjósti. Það er mikilvægt að við hugsum saman þó að við séum ekki endilega sammála. (bls. 43)

Þegar fólk hugsar saman þá gengur það inn í lífrænt ferli þar sem hin lifandi hugsun vex af margvíslegri næringu og þeim skilyrðum sem henni eru búin. Hugsunin er eins og planta sem vex smátt og smátt, en enginn getur bent á einhvern hluta plöntunnar sem orðið hefur til – hvort sem hún líkist meira tré eða rísómi – og sagt: „Þetta er það sem ég lagði til.“ Það sem fólk leggur til umbreytist í hugsunarferlinu, nærist á því sem áður er komið fram og verður næring fyrir það sem á eftir kemur.

Það getur verið gott og gilt að eiga höfundarrétt að texta, en fráleitt er að eiga höfundarrétt að hugsun þannig að aðrir hafi ekki leyfi til að nota hana – byggja á henni, skilja hana, misskilja eða bara skilja á sinn hátt, hafna henni eða jafnvel afbaka hana. Örlæti í þessum skilningi er forsenda heimspekinnar, og hún er að sama marki forsenda kennarastarfsins.

IV

En hvert er eiginlega hlutverk Jóns í þessu öllu saman, fyrir utan að koma með nokkrar vel valdar spurningar og kannski gæta þess að nokkrum vel völdum reglum sé fylgt? Ég hef nefnt þrenns konar eiginleika sem sýna Jón sjálfan í bókinni Gagnrýni og gaman.

  1. Að taka börn alvarlega og treysta á innsæi þeirra.
  2. Að hlusta eftir fegurðinni í leikgleði nemenda.
  3. Að vera örlátur á eigin hugsun.

Nú langar mig að fikra mig í átt að fjórða eiginleikanum. Það er ekki alveg auðvelt að lýsa honum en mig langar að segja að hann sé að veita hæfilegt viðnám.

  1. Að veita nemendum hæfilegt viðnám.

Gamla glóðaperan lýsir vegna þess að vírinn í henni veitir hæfilegt viðnám. Án viðnáms myndi rafstraumurinn flæða eftir vírnum án þess að hita hann uns hann glóði. Ef viðnámið er of mikið nær straumurinn ekki að flæða um vírinn sem þá hitnar ekki og glóir ekki heldur. Einungis ef viðnámið er hæfilega mikið – vírinn af réttu tagi og kringumstæður hans ákjósanlegar – glóir hann og veitir ljósi í allar áttir. Þannig er heimspekin líka, og þannig er góð kennsla. Aftur og aftur lýsir Jón því hvernig hann reynir að tryggja hæfilegt viðnám í rökræðunni svo hugsunin glói – svo kvikni á perunni. Ef viðnámið er of mikið, ef spurningarnar eru of óárennilegar eða ósvaranlegar, þá gerist ekkert. Í kafla 3 sem heitir hvorki meira né minna en „Spurningalist“ segir Jón:

Segja má að heimspeki með börnum og unglingum krefjist þess að kennari leggi sig eftir tvenns konar listformi: list samræðunnar og list spurninganna. List samræðunnar felst í að vega og meta athugasemdir nemenda og athuga hvort þær tengist spurningum. (bls. 49)

Stuttu síðar segir hann svo:

List spurninganna liggur þessu til grundvallar, leiðsögn samræðunnar fer fram í gegnum spurningarnar. (bls. 49)

Mikilvægt er að taka bókstaflega það sem Jón segir hér: Þessi tvenns konar listform eru einmitt það, listform. Þetta eru ekki aðferðir, þetta er ekki tækni, og þótt hægt sé að læra ýmislegt í þessum efnum og öðlast reynslu sem gerir mann færari þá, eins og Jón segir, „getur [þetta] verið býsna snúið“ (bls. 49).

Þessi kafli er kannski kjarninn í bókinni, enda fjallar hann beint um þær tvær listgreinar sem allt efnið byggir á. Jón segir: „spurningarnar verða að vera opnar sem þýðir að kennari getur ekki beðið um eitt rétt svar við þeim, en það þarf líka að vera mögulegt að svara þeim“ (bls. 49). Jón nefnir nokkur dæmi máli sínu til útskýringar.

Dæmigerðar heimspekilegar spurningar eins og „Hvað er tími?“ eða „Hver er tilgangur lífsins?“ leiða okkur ekki neitt, efnið smýgur okkur um fingur áður en við fáum hönd á fest. (bls. 49)

Jón heldur síðan áfram og segir að hjálplegt sé „að þekkja innviði spurningar“. Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki hvað hann var að fara þegar ég las þetta fyrst. Hvað eru innviðir spurninga? Nú er sífellt verið að tala um innviði sem aðallega eru vegir, orkumannvirki og annað sem áður var kallað mannvirki. En hvað á Jón við með innviðum spurninga? Til að útskýra mál sitt tekur Jón frábært dæmi, nefnilega þessa spurningu:

Hver er munurinn á að vera og sýnast? (bls. 50)

Þetta er frekar hversdagsleg spurning og, eins og Jón bendir á, þá finnur lesandi að það er auðvelt að svara henni. Spurningin er opin en um leið svaranleg. Jón heldur svo áfram og bendir á að þessi spurning er á sinn hátt eins og hinir efnislegu innviðir, t.d. vegakerfið, sem getur leitt fólk í ólíkar áttir.

Þegar hugtökunum [að vera og að sýnast] er stillt saman er hægt að leiða umræðu um spurninguna í aðskiljanlegar áttir, eins og til dæmis að fjalla um hégómagirnd eða þörf fyrir að vera sjálfum sér trúr, fái hún að standa eins og hún er. Umræðan verður þá siðferðileg og ætti að geta runnið nokkuð snurðulaust. Nemendur vita vel um hvað verið er að tala. (bls. 50–51)

Jón heldur svo áfram:

En sé spurningin aftur á móti hlutuð í sundur, vandast málið. Þá koma upp spurningarnar: Hvað er að vera sýnast? og Hvað er að vera? Ef fyrri spurningin er skoðuðu felur hún í sér samanburð, þótt hún standi ein og sér. Að sýnast felur í sér að sá sem það gerir er með látalæti, villir á sér heimildir. Spurningin felur í sér samanburð við hið sanna í málinu (hvað sem það nún er). Ef spurningin er aftur á móti: Hvað er að vera? vefst okkur tunga um tönn. Í samanburði við að sýnast felur það að vera í sér skírskotun til sannleikans. En ein og sér er merking sagnarinnar að vera allt að því loftkennd. (bls. 51)

Þessi einfaldi samanburður á spurningunum er lærdómsríkur. Spurning eins og „Hvað er að vera?“ leiðir ekki neitt. Jafnvel þótt kennari reyni að hleypa straumi á, þá kemur allt fyrir ekki. Spurningin um að sýnast – eða um muninn á því að sýnast og að vera – gefur aftur á móti tilefni til samræðu þar sem tefla má saman ólíkum sjónarmiðum, þar sem margvísleg atriði – bæði siðferðileg og frumspekileg – koma upp og knýja samræðuna áfram. Hér erum við með dæmi um tvenns konar innviði spurninga. Annars vegar eru innviðir spurningarinnar „Hvað er að vera?“ sem eru þungir fyrir, veita of mikið viðnám og eru ekki til þess fallnir að kveikja líflegar samræður. Hins vegar innviðir spurningarinnar „Hvað er að sýnast?“ sem opna leiðir í ólíkar áttir.

Kennarinn getur þurft að veita samræðunni hæfilegt viðnám, en þegar vel tekst til sjá nemendur um það sjálfir og kennarinn getur dregið sig í hlé og notið þess að hlýða á nemendur sem pæla í djúpum, heimspekilegum málum af gagnrýninni leikgleði.

Það er sumsé þessi maður, Jón Thoroddsen, sem birtist í bókinni Gagnrýni og gaman sem mig langaði að tala um. Þessi maður sem reyndi að taka börn alvarlega og treysta á innsæi þeirra, sem hlustaði eftir fegurðinni í leikgleði nemenda sinna, var örlátur á eigin hugsun og leitaðist við að kenna nemendum að vera það líka, og sem reyndi að veita nemendum hæfilegt viðnám við hugsun sinni svo það myndi kvikna á perunni.