Aðalfundi frestað

Vegna ófyrirséðra aðstæðna hefur aðalfundi Félags heimspekikennara, sem halda átti janúar 2025, verið frestað. Von er á nýju fundarboði eftir helgi.

Fyrir hönd stjórnar, Guðmundur Arnar, formaður félags heimspekikennara

Aðalfundur Félags heimspekikennara, 18. janúar 2025

HVAR: Hlutverkasetri, Borgartúni 1, 105 Reykjavík (gengið inn sjávarmegin)

HVENÆR: laugardaginn 18. janúar, kl. 13-15

Aðalfundur Félags heimspekikennara verður haldinn laugardaginn 18. janúar, kl. 13 í Hlutverkasetri, Borgartúni 1.

Dagskrá:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Reikningar félagsins.
3. Kosning stjórnar: formanns og annarra stjórnarmeðlima.
4. Heimspekitorg: Framtíð heimasíðunnar.
5. Önnur mál.

fyrir hönd stjórnar / Guðmundur Arnar Sigurðsson / formaður Félags heimspekikennara

Í eftirfarandi tengli er hægt að merkja sig við viðburðinn: https://www.facebook.com/events/562675356614628

Hvað megnar samkennd í nútímalífi? – Heimspekikaffihús

HVAR: á Torginu í Borgarbókasafninu Grófinni, Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík

HVENÆR: sunnudaginn 12. janúar, kl. 14-16

Hvað megnar samkennd í nútímalífi?

Gestir verða beðnir um að rifja upp atvik þar sem samkennd kemur við sögu.

Spurningin kom upp í síðasta heimspekikaffihúsi þegar rætt var um hvað heldur samfélagi saman.

Í eftirfarandi tengli er hægt að merkja sig við viðburðinn: https://www.facebook.com/events/1149331643509606


Um árabil starfrækti heimspekingurinn og kennarinn Skúli Pálsson heimspekikaffihús í Reykjavík. Nú hefur þráðurinn aftur verið tekinn upp og er ráðgert að hittast á Torginu í Borgarbókasafninu Grófinni.

Ætlað er að hittast annan sunnudag hvers mánaðar.

Heimspekikaffihúsið hefur aftur göngu sína

HVAR: á Torginu í Borgarbókasafninu Grófinni, Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík

HVENÆR: sunnudaginn 15. desember, kl. 14-16

Hvað heldur samfélagi saman?

Um árabil starfrækti heimspekingurinn og kennarinn Skúli Pálsson heimspekikaffihús í Reykjavík. Nú verður þráðurinn aftur tekinn upp og er ráðgert að hittast á Torginu í Borgarbókasafninu Grófinni.

Ætlað er að hittast annan sunnudag hvers mánaðar.

Í eftirfarandi tengli er hægt að merkja sig við fyrsta viðburðinn: https://www.facebook.com/events/1095915565372639

Sögur af Nasreddin Hodja

Atli Harðarson þýddi úr grísku

Erindi flutt á málþingi helgað Jóni Thoroddsen, 2. nóvember 2024, kl. 10–14:30 í Auðarsal í Veröld – húsi Vigdísar


Sögur herma að Nasreddin hafi verið uppi á þrettándu öld og hann er gjarna tengdur við þorpið Hortu í miðri Litlu-Asíu, vestan við Ankara og suðaustan við Istanbul. Nafn hans er ritað á marga ólíka vegu. Oft er hann titlaður Hodja en það viðurnefni merkir kennari eða meistari og er eins og nafnið stafsett á marga vegu.
            Þótt Nasreddin hafi að líkindum fæðst og lifað í Tyrklandi eru sögur um hann ekki nærri því allar tyrkneskar að uppruna. Öldum saman hafa þær kviknað víða í löndum múslíma frá Kína í austri til Miðjarðarhafslanda í vestri og eru enn að verða til. Þær eru hluti af fjölþjóðlegri og lifandi sagnahefð. Sögurnar hverfast samt allar um hjartahreinan og góðviljaðan speking sem er í senn barnslegur og glöggskyggn á það broslega í tilverunni. Þessi einkenni fylgja honum jafnaframt því sem á hann hlaðast minningar frá ólíkum tímum og mörgum löndum. Nasreddin hefur því allt í senn svip af fornum heimspekingum, helgum mönnum og margs konar vitringum. Að einhverju marki hefur hann líka runnið saman við aðrar þjóðsagna­persón­ur á seinni öldum.
            Sterkust eru tengsl Nasreddins við súfistana sem voru andlega þenkjandi skáld, dulspekingar og hugsuðir innan íslam. Ég hygg að Vesturlandabúar þekki súfisma helst af ljóðum Rumi og fleiri skálda. Ég læt það liggja milli hluta hvort rétt er án fyrirvara að kalla Nasreddin súfista.
            Hér fara á eftir kaflar úr safni Nasreddinsagna sem Stelios Pelasgos (Στέλιος Πελασγός) skráði á grísku og kom út á bók árið 2022.[1] Hann kveðst hafa kynnst Nasreddin af sögum afa síns sem var frá borginni Smyrnu. Hún heitir nú Izmir.

Týndur í mannfjöldanum

Eitt sinn þurfti Nasreddin að fara til borgarinnar. Hann hafði heyrt um mannhafið þar og óx í augum að þurfa að ganga um markaðinn og kaupa allt sem konan hans bað hann að koma með heim. Þorpið sitt þekkti hann og vissi þar deili á hverjum manni en borgin var honum framandi.
        Einn nágranna hans úr þorpinu reyndi að stríða honum og sagði: „Vertu óhræddur herra minn. Þú ert stór maður og ekkert barn og engin hætta á að þú týnist í mannfjöldanum.“
        „En þetta er ekkert spaug“ svaraði Nasreddin „hvað ef ég týnist nú samt?“
        „Hægt er að forðast það“ sagði nágranninn þá „við getum bundið kút úr graskeri við mittislinda þinn. Enginn annar hefur slíkan björgunarbúnað í mannhafinu.“
        „Þetta er þjóðráð“ svaraði Nasreddin „ég þekkist þá úr og týnist ekki.“
        Hélt hann nú áhyggjulaus til borgarinnar með kútinn við lindann. Þegar þangað kom starði hann opineygur á öll þau undur sem fyrir bar. Við og við fannst honum mannhafið samt ætla að færa sig í kaf þegar hann barst áfram með fjöldanum. Þá þreifaði hann um klæði sín, greip í kútinn góða og varpaði öndinni léttar.
        „Ó, já. Ég er Nasreddin, eiginmaður Æsu og faðir Smælis“ og svo rifjaði hann upp í huganum hvað foreldrar hans hétu, afar og ömmur, vinir og sveitungar allir.
        Bar nú að tvo óknyttastráka. Þeir læddust aftan að honum, skáru á lindann og stálu kútnum. Annar þeirra batt hann við belti sitt og svo biðu þeir eftir viðbrögðum Nasreddins.
        Ekki þurftu þeir lengi að bíða. Þegar næsta bylgja mannhafsins greip hann með sér þá þreifaði hann eftir kútnum og greip í tómt.
        Nasreddin var mjög brugðið, tók að skima um mannfjöldann, sá ungling með kútinn við mittið, skundaði til hans og sagði „salam alekúm, ekki ert þú Nasreddin?“
        „Alekúm salam“ svaraði þjófurinn.
        „Herra minn góður, við þurfum að tala saman. Fórst þú að heiman í morgun með graskerskút við mittislindann til að þekkja sjálfan þig úr í mannhafinu?“
        „Rétt er það. Ég er Nasreddin“ svaraði skálkurinn og glotti.
        „Þá verð ég að spyrja þig að einu herra minn góður. Ef þú ert Nasreddin hver er þá ég?“

Þetta var ekki í eina skiptið sem Nasreddin þurfti að fara á markaðinn í borginni. Tíminn leið, hann safnaði kjarki, tók við nýjum pöntunarlista og hélt af stað. Hann einsetti sér að týnast ekki og ákvað að dvelja á sama gististað og í fyrri ferð. Hann kannaðist orðið við fólkið þar og gæti skroppið þaðan í fjölmennið á markaðnum. Á gististaðnum yrði líka annast um asnann hans og þar yrði öruggt skjól fyrir þá báða.
        Allt gekk vel. Nasreddin fékk að eta og drekka á gististaðnum og svaf um nóttina. Morgunninn eftir fór hann með stóran sekk á markaðinn og fyllti hann af vörum en þar kom eins og fyrri daginn að hann vissi ekki hvar hann var staddur í mannhafinu og týndist þar í annað sinn.
        Þvílíkur fjöldi. Þvílík iðandi kös. Hver var hann sjálfur í öllum þessum grúa, ungur eða gamall, karl eða kona? Honum var öllum lokið.
        Skelfingu lostinn gekk hann inn í næstu búð. Þar var fyrir smiður sem seldi gripi úr tré.
        „Heill og sæll herra minn“ sagði smiðurinn „hvað get ég gert fyrir yður?“
        Nasreddin starði á hann með hjartað í buxunum og augun stóðu á stilkum.
        „Þarftu stól eða koll? Ég smíða líka ljómandi falleg borð eftir máli.“
        „Nei“ greip Nasreddin fram í „það sem ég þarf er að vita hvort þú sást mig koma inn í búðina.“
        „Já, herra minn. Ég sá þig koma hér inn.“
        „Eins gott“ stundi Nasreddin og var heldur enn ekki létt „og hefur þú séð mig áður?“
        „Nei, herra minn. Þetta er í fyrsta sinn sem þú kemur fyrir mín augu.“
        „Hvernig í ósköpunum veistu þá að þetta er ég?“

Þessi saga virðist ef til vill tómt grín en hún ýjar samt að heimspekilegri ráðgátu um fyrstu persónu í heimi sem er lýst hlutlægt. Fullkomin lýsing á efnisheiminum segir allt um hvernig hlutir hreyfast og breytast en hún segir hvorki hvað af öllu því sem á jörð hrærist og um jörð skríður er ég né heldur hvaða staður er hér og hvaða augnablik er nú.
            Næsta saga er líka um meira alvörumál en virðast kann við fyrstu sýn því að í Litlu-Asíu tíðkaðist, eftir því sem sögur herma, að smána sakamenn og þá sem voru upp á kant við húsbændur og yfirvöld með því að binda þá, setja öfugt á asna og flytja þannig til hirtingar eða á aftökustað. Sagan kallast á við ummæli Krists um að sá sem upphefur sjálfan sig muni lítillækkaður verða og sá sem lítillækkar sjálfan sig muni upphafinn verða og þekktasta myndin af Nasreddin tengist þessari sögu. Hún er af manni sem situr á baki asna og snýr aftur.

Öfugur á asnanum

Eitt sinn var múlla Nasreddin með söfnuði sínum. Hann sat á asnanum og fór fyrir en þeir trúuðu fylgdu á eftir fótgangandi. Nasreddin horfði ekki fram á veginn því hann sneri öfugt á asnanum og horfði á sitt guðrækna fólk. Asninn þekkti leiðina og húsbóndi hans treysti dýrinu betur en sjálfum sér til að rata réttan veg.
        „Hví situr þú öfugur á asnanum“ spurði einn hinna guðræknu.
        „Af virðingu við ykkur kæru bræður“ svaraði Nasreddin. „Ef ég fer á undan og sit rétt þá sný ég við ykkur baki og það ber ekki vott um mikla virðingu. Ef þið hins vegar gangið á undan og ég elti þá snúið þið baki við mér. Aðeins með því að ég snúi öfugt getum við allir sýnt hver öðrum þá virðingu sem ber.“

Tvær síðustu sögurnar, sem hér fara á eftir, eru dæmigerðar fyrir Nasreddin. Hann er spekingur með barnshjarta sem talar og starfar af góðum hug jafnframt því sem hann gerir grín að alls konar vitleysu í fólki sem telur sig skynsamt og hafið yfir kjánaskap.

Kistan með steinvölunum

Okurkarl og nirfill sem var nágranni Nasreddins átti kistu úr járni. Hún var veggföst og rammlega læst. Þar geymdi hann lírur sínar. Eftir föstudagsbænir í moskunni opnaði hann jafnan kistuna, taldi lírurnar og læsti henni svo aftur. Stundum bauð hann Nasreddin til sín og lét hann sitja frammi meðan hann fór inn þar sem kistan var og taldi fé sitt.
        Hann heyrðist telja: „Lírurnar mínar, nú tel ég ykkur eina af annarri. Ein líra, tvær lírur, þrjár lírur, fjórar …“
        Nasreddin keypti sér líka fjárhirslu með lás en lét sér duga ódýran kassa úr tini. Ofan í hann lét hann hvítar steinvölur. Einn föstudaginn bauð hann auðmanninum nágranna sínum heim eftir að þeir komu úr moskunni. Þegar þeir höfðu drukkið kaffi og talað saman sagði Nasreddin: „Afsakaðu mig æruverðugi herra. Ég þarf að bregða mér inn í næsta herbergi og gera dálítið. Það tekur enga stund svo ég kem fljótt aftur.“
        Okrarinn heyrði kunnugleg hljóð, hljóð sem hann þekkti vel, þegar lykli var snúið í skrá og marraði í hjörum. Hann færði sig nær dyrunum að herberginu og heyrði Nasreddin telja: „Ein, tvær, þrjár, …“
        Rifa var milli stafs og hurðar og hann gægðist inn og sá að Nasreddin hafi tekið steinvölur úr kassanum.
        Nú stóðst hann ekki mátið og kallaði: „Ekki ertu að telja steinvölur? Ertu orðinn galinn?“
        „Ég geri eins og þú, æruverðugi herra.“
        „En ég tel lírur sem eru verðmæti og fjármunir.“
        „Og ég tel steinvölurnar mínar. Þær eru mér jafn dýrmætar og lírurnar eru þér og koma mér að sömu notum. Það eina sem þú gerir við peningana er að telja þá því þú eyðir aldrei neinu. Það er eins með steinvölurnar. Ég hef þær til að telja og hreykja mér af.“

Hver hefur lög að mæla?

Eitt sinn komu tveir menn til Nasreddins og báðu hann að dæma í málum sínum.
        Sá sem fyrr tók til máls sagði: „Kæri herra. Ég á asna og í fyrradag var hann horfinn. Ég leitaði daglangt og fann hann hvergi. Þegar kvölda tók sá ég hann sveittan að bera timbur í byggingu hjá manninum sem er hérna með mér. Þá hafði hann rogast með byrðar, fjörutíu ferðir. Ég krafðist þess að fá borgun fyrir að láta asnann minn erfiða svona. Hef ég ekki réttinn mín megin?
        Nasreddin hugsaði sig um og svaraði svo: „Rétt er það. Þú hefur lög að mæla.“
        Þá tók hinn maðurinn til máls og sagði: „Herra minn. Hann sagði ekki alla söguna. Hann hafði svelt skepnuna og látið ganga lausa. Asninn sótti því í útihús manna og stal þar fóðri. Stundum át hann líka kúrbít frá öðrum og eitt sinn kom hann í garðholu mína og hámaði í sig erturnar. Það sem meira er og verra, hann eyðilagi baunaplöntur sem stóðu í beinum röðum og lásu sig upp greinar sem ég hafði rekið ofan í moldina. Þegar ég rakst á asnaskömmina þá sagði ég, þarna ertu og nú skaltu vinna fyrir mat þínum. Ég hlóð svo á hann timbrinu og lét hann bera það. Hef ég ekki réttinn mín megin?“
        Nasreddin hugsaði sig um og svaraði svo: „Rétt er það. Þú hefur lög að mæla.“
        Nú spratt fram maður sem hugði að Nasreddin væri galinn og vildi losna við hann úr bænum.
        „Þetta stenst ekki“ sagði hann. „Hvers konar dómari ert þú eiginlega sem segir báðum að þeir hafi rétt fyrir sér? Það getur alls ekki verið að báðir hafi réttinn sín megin?“
        „Rétt er það“ svaraði Nasreddin. „Þú hefur svo sannarlega lög að mæla.“


Eftirmálsgrein

[1] Bókin heitir Νασρεντίν Χότζας, το γέλιο της Μικρασίας (Útgefandi: Πρώτη ύλη. www.pibooks.gr). Sögurnar í bókinni eru tölusettar og þær sem hér fara á eftir eru númer 1.3.1, 1.3.2, 1.4.1, 6.1 og 10.4. Þær tvær fyrstu eru þýddar sem ein saga. Ég hafði samband við Stelios Pelasgos og hann veitti leyfi til að birta þýðingarnar.

Heimspeki í praxis

eftir Skúla Pálsson

Erindi flutt á málþingi helgað Jóni Thoroddsen, 2. nóvember 2024, kl. 10–14:30 í Auðarsal í Veröld – húsi Vigdísar

..1 Kynni mín af Jóni í heimspekinámi

Ég kynntist Jóni fyrst haustið 1982 í heimspekinámi hér við Háskóla Íslands. Við sátum þar í inngangsnámskeiðum þar sem farið var yfir heimspekisöguna: Forn-Grikki, Descartes, Hume, Kant o.s.frv. Svo var inngangur að siðfræði og inngangur að frumspeki og fleira.

Við vorum dálítill hópur sem fylgdist að í gegn um grunnnámið. Í fyrirlestrum voru ekki tómar einræður kennara heldur var líka tími fyrir spurningar og umræðu. Umræður héldu áfram á kaffistofunni og stundum í partíum á kvöldin. Þarna var Jón með opin augu og undrunar og spurnarsvip og sinn dillandi hlátur og hafði við hvert tilefni á hraðbergi spaklegar tilvitnanir í heimsbókmenntir.

Þetta var góður tími fyrir mig, heimspeki var mér opinberun. Áður hafði ég lært íslensku og bókmenntir í næsta húsi á háskólalóðinni. Bókmenntir voru skemmtilegar en heimspeki reif upp allar gáttir. Heimspekinni var ekkert óviðkomandi: tilfinningar, réttlæti, samfélag, efnið, andi, guð. Opinberun mín var að sjá hvernig mætti fást við þetta allt með skynsamlegri rökræðu, að ná utan um það með með skiljanlegum hugtökum, að til væri aðferð til að komast að sannari hugsun um allt. Heimspeki lýsti upp  tilveruna, gerði allt skýrara, alla liti bjartari. Þetta var sérstök gleði: gleði yfir hugtökum, gleðin af að uppgötva, yfir skilningi. Þessi logi hefur haldið mér gangandi minn í heimspekikennslu.

Þótt við yrðum samferða þennan spöl – við sátum sömu tíma, lásum sömu bækurnar – þá upplifði Jón heimspekinámið allt öðruvísi en ég eftir því sem hann segir í bókinni sinni:

Þegar ég var að læra heimspeki á sínum tíma fann ég að námið gerði veruleikann gráan. Hvað olli vanlíðan minni í náminu er erfitt að segja til um með vissu. Þó býst ég við að ég hafi lesið veruleikan fullmikið með þeim gleraugum sem heimspekingarnir settu á nefið á mér. Líklega tók ég fagið aðe3ins of alvarlega. Ég las af ástríðu það sem ég átti að lesa af yfirvegun. Það hefur sjálfsagt haft áhrif á tilfinningalífið sem var stöðugt sett undir sjóngler sundurgreinandi hugsunar. Og það hafði áhrif á lífsgleiðina. Oft þótt mér eins og skortur á hugmyndaflugi væri innbyggður í fagið, eins og rökhugsun fæli í sér þá viðurkenningu að flatneskjan væri það eina sem samfæmdist mannlegri skynsemi. Hugmyndaflug og lífsgleði veittu aftur á móti lífsgleði. (Gagnrýni og gaman 2016, bls. 13)

Þessi gerólíka upplifun okkar er mér dálítil ráðgáta.

..2 Sókrates sem fyrirmynd

Upphaf vestrænnar heimspeki í Grikklandi er tengt nafni Sókratesar. Hann er frægasti heimspekingurinn og oft talað um hann sem einhverskonar frummynd heimspekings. Líf hans og dauði er tengt ákveðinni hugsjón um heimspeki: að rannsókn skipti mestu máli, að órannsakað líf sé ekki þess virði að lifa því, að nauðsynlegt sé að þekkja sjálfan sig; að sannleikur sé nátengdur hinu góða og hinu fagra, að illska stafi af vanþekkingu og enginn muni gera illt ef hann sannarlega þekkir hið góða.

Sókrates talar um rannsókn, heimspeki hans er skipuleg leit að skilningi. Hann hefur tækni eða aðferð í rannsókn sinni sem hefur verið kölluð sókratísk aðferð og felst í samræðu með sérstökum aga þar sem einn spyr og annar svarar. Spyrjandinn leitar að mótsögnum og misræmi og því sem er óljóst. Markmið samtalsins er meira samræmi og meira ljós. Orðalagið „sókratísk samræða“ hefur verið notuð um ýmislegt, þar á meðal stefnulaust spjall en best er að láta orðið tákna samtal með aðferð.

Sókrates sagði í málsvörninni að best af öllu fyrir okkur sé „að iðka daglega samræður um dyggðina (38a/66). Þetta er hugsjón þeirrar stefnu sem kennir sig við heimspekipraxis, að praktisera heimspeki, að stunda heimspeki með samræðu eða, eins og Sókrates segir, að iðka daglega samræður um dyggðina. Með þessu hefur hann og aðferð hans orðið fyrirmynd fyrir ýmsa heimspeki sem stunduð er fyrir utan háskóla og hefur verið kölluð einu nafni heimspekipraxis. (Sjá Róbert Jack, Hversdagsheimspeki, Reykjavík, 2006). Jón Thoroddsen er ekki hrifinn af Sókratesi, hann hreinlega varar við að fara að fordæmi Sókratesar (Gagnrýni og gaman, bls. 132). Hann þróaði sína eigin aðferð við að stunda heimspeki.

..3 Aðferðir í heimspekipraxis

Matthew Lipman (1923–2010) virðist hafa byrjað á barnaheimspeki af svipuðum hvötum og Jón. Hann var prófessor í heimspeki en lýsti því að hann hafi verið orðinn þreyttur og leiður á háskólaheimspekinni sem hann var að kenna og honum fannst að stúdentar sem komu til hans í tíma hefðu ekki forvitnina sem honum fannst nauðsynleg. Hann komst að þeirri niðurstöðu að til að rækta forvitnina, heimspekilega spurn, þá þyrfti að byrja snemma helst á barnsaldri.

Lipman mótaði aðferð og samdi námsefni til að vinna eftir henni: lestrarbækur sem voru sögur handa börnum en heimspekilegar spurningar sífellt rétt undir yfirborðinu. Sögunum fylgdu umfangsmiklar handbækur fyrir kennara. Heimspekitími í anda Lipmans fer þannig fram að nemendur sitja í hring og lesa saman texta úr sögunn. Svo segir kennarinn: Getið þið komið með spurningar um það sem við vorum að lesa? Spurninar nemenda eru skráðar á töflu og síðan valin ein til að rannsaka. Kennarinn hefur þá ákveðnar spurningar til að leiða umræðuna áfram: Af hverju? Hvað er það? Geturðu komið með rök? Eru þetta góð rök? Geturðu komið með dæmi? Hver er andstæðan við það?

Hreinn Pálsson kom með barnaheimsepkina til Íslands. Hann lærði hjá Lipman og varð mikilvægur frumkvöðull á Íslandi: þýddi bækur Lipmans, stofnaði Heimspekiskólann, hélt námskeið fyrir kennara og var yfirleitt óþreytandi talsmaður barnaheimspeki. Aðferð Lipmans er í anda Sókratesar, samtal þar sem skiptast á spurningar og svör og snýst um að rannsaka hugtök. Þessi aðferð býður upp á frelsi en hefur samt aga.

Barnaheimspeki er ein aðferð til að ástunda heimspeki, eða praktisera heimspeki, en það eru fleiri leiðir. Heimspekikaffihús er orðið að hefð í mörgum löndum þar sem opnir hópar hittast á kaffihúsum og umræða fer fram eftir ákveðnu skipulagi.

Guro Hansen-Helskog frá Noregi, sem haldið hefur námskeið á Íslandi, hefur þróað aðferð þar sem gengið er út frá persónulegum reynslusögum til að kafa í grundvallarspurningar lífsins eins og hún lýsir í bók sinni Philosophising the Dialogos Way towards Wisdom in Education (Routledge, London/New York, 2019). Þá verður að minnast á Oscar Brennifier og Isabelle Millon frá Frakklandi. Þau hafa oft komið hingað til Íslands og haldið námskeið og Íslendingar hafa líka sótt námskeið þeirra í Frakklandi. Þeirra aðferð einkennist af miklu strangari aga en hinar. Hjá þeim gilda aðeins rök: Rökin ráða. Þau gæta vandlega að mótsögnum, tvíræðni og öllum aðferðum sem fólk hefur til að komast hjá að færa rök fyrir máli sínu. Starfi þeirra má kynnast á heimsasíðu þeirra: http://www.pratiques-philosophiques.fr/en/welcome/.

..4 Sundurgreining og hugmyndaflug

Í öllum þessum aðferðum í heimspekipraxis fer fram rannsókn á hugtökum sem felur í sér greiningu þeirra en Jón er ekki hrifinn af sundurgreiningu. Stefna hans eða aðferð kemur fram í tveimur punktum:

(1) Að hlúa að vaxtarbroddum frekar en ganga hart að nemendum.

(2) Gefa gaum að flæði hugsunar og hugarflugi frekar en nákvæmni og smásmygli. (Gagnrýni og gaman, bls. 107)

Í lýsingum hans á umræðum kemur fram hvað það er sem hann metur mikils. Orð sem hann notar til að lýsa því sem hann sækist eftir eru til dæmis: Ímyndunarafl, hugmyndaflug, flæði, lífsgleði, hugarflug, andrík tilsvör, dýpt og að kafa.

Annars skilgreinir hann ekki almennilega hvað hann meinar með ímyndunarafli og útskýrir ekki af hverju honum finnst það svona mikilvægt. Ég vil reyna að setja á mig sundurgreinandi gleraugu og greina hugtakið ímyndunarafl og reyna að átta mig á hvert Jón var að fara með því. Þetta á ekki að vera tæmandi greining heldur lítil tilraun til að nálgast Jón.

Þá þarf að gera greinarmun því orðið „ímyndunarafl“ hefur mismunandi merkingu.

(1) Ímyndunarafl sem fantasía. Ein tegund af ímyndunarafli er það sem líka er kallað fantasía og birtist til dæmis í ævintýralegum bókum eins og bókum Tolkiens eða Harry Potter og bíómyndum eins og Stjörnutríðsmyndunum. Í þessum bókum og bíómyndum er búinn til ævintýraheimur. Þar er flest öðruvísi en í alvöru heiminum, þar búa álfar og dvergar og risar og drekar og óteljandi aðrar furðuverur. Samt er margt kunnuglegt í heimi fantasíubóka. Eftir því sem færra kunnuglegt er að finna í fantasíubókunum verða þær furðulegri; stundum kallað súrrealískar.

Þó að bækur eða kvikmyndir séu það sem kallað er raunsæjar þá er samt marg tilbúið í þeim. Höfundar þeirra nota ímyndunaraflið til að hugsa sér persónur, aðstæður og sögur.

(2) Ímyndunarafl í skynjun. Í sögu heimspekinnar hafa nokkrir heimspekingar fjallað um ímyndunarafl í sambandi við skynjun og reynslu. Þegar Hume reynir að útskýra hvernig hinar sundurlausu skynjanir sem hann gerir ráð fyrir geti gefið okkur samhangandi mynd af heiminum gerir hann ráð fyrir að ímyndunarafl eigi þátt í því. Ef við horfum á tening til dæmis sjáum við mest þrjár hliðar á honum samtímis en við vitum af hinum þremur og skynjum teninginn sem þrívíðan hlut. Þar er ímyndunarafl að verki samkvæmt Hume.

Kant þróar hugmynd Humes um hlutverk ímyndunarafls í skynjun enn frekar og það leikur lykilhlutverk í einni mikilvægustu röksemdafærslunni í öllu kerfi hans þar sem hann reynir að sýna að orsakalögmálið hljóti að vera nauðsynlega satt þó að það sé ekki rökfræðilega nauðsynlegt. Jón minnist á þennan kafla hjá Kant þegar hann fer yfir heimspekisöguna í bók sinni og sér í honum réttlætingu fyrir áherslu sinni á ímyndunarafl (Gagnrýni og gaman, bls. 141).

(3) Ímyndunarafl er nauðsynlegt í stjórnmálum: Við verðum að geta ímyndað okkur réttlátt þjóðfélag til að geta unnið gegn óréttlæti. Nafn Friðarsúlunnar í Viðey minnir á þetta: Imagine Peace Tower. Við verðum að geta ímyndað okkur frið til að vinna gegn stríði. Í pólitísku umróti sem kennt er við árið 1968 var eitt slagorð mótmælenda „Ímyndunaraflið til valda!“

(4) Í raunvísindum er ímyndunarafl að verki. Við sjáum það til dæmis í útskýringum jarðvísindamanna á umbrotunum Reykjanesskaga. Þeir nota mælingar til að búa til mynd af því sem gerist djúpt í jörðinni; við sjáum það ekki heldur verðum við að ímynda okkur það. Út úr mælunum koma bara tölur en til að breyta tölunum í myndir af því sem gerist neðanjarðar þarf ímyndunarafl. Niels Bohr þurfti ímyndunarafl til að sjá fyrir sér atómið þegar hann setti fram módel sitt af atómi. Hugsið ykkur Alfred Wegener sem setti fram og rökstuddi landrekskenninguna áður en hægt var að sanna hana en hann gat ímyndað sér að meginlöndin hreyfðust. Hugsið ykkur líka Charles Darwin á hnattsiglingu að brjóta heilann um ýmis mynstur í lífríkinu sem hann tekur eftir. Hann þurfti ímyndunarafl til að hugsa sér hvernig þróun tegundanna útskýrði það allt.

Hér nálgumst við það ímyndunarafl sem Jón óskaði sér: Það er hæfileiki til að sjá mynstur og tengingar. Því stærra samhengi sem hægt er að setja hvert efni í því betra. Jón vill setja hugtök í víðara samhengi – aðrir vilja sundurgreina hugtök.

..5 Hugarflug og rómantík

Dæmi um hvernig Jón tekur stórt samhengi og nýjar tengingar fram yfir greiningu er í bókinni hans (Gagnrýni og gaman, bls. 87): Nemandi kemur með spurningu: Hvað er tíska? Þetta er spurning um skilgreiningu. Hún hefur sama form og spurningar Sókratesar og byrjar „hvað er“. En í staðinn fyrir að taka fyrir spurningu nemandans þá breytir hann henni og tekur fyrir annað efni sem honum finnst áhugavert af því að hann sér „dýpri möguleika“ og hann tekur upp umræðu um „persónuleg áhrif tískunnarׅ“ annars vegar og hins vegar „áhrif tísku á viðskiptalífið“.

Þetta sem Jón talar um sem ímyndunarafl er ekki fantasía heldur frekar það sem á íslensku heitir andríki og að vera andríkur: Að geta talað um fjölbreytt efni og haft skoðanir á þeim, að varpa fram tilgátum og fella ólíka hluti undir eitt hugtak, að sjá líkindi með ólíkum hlutum. Á ensku er þetta kallað wit. „Svona útskýrir orðabókin mín wit: „the ability to relate seemingly disparate things so as to illuminate or amuse“ (Merriam-Webster). Á þýsku er þetta kallað Witz. Bæði enska og þýska orðið geta líka þýtt hnyttni, fyndni eða brandari. Þessi viðleitni til að sjá stórt samhengi og leita að hærri sjónarhóli er rík í verkum höfunda sem við flokkum í rómantíska stefnu. Jón er rómantíker í þessu.

Kant fjallar ítarlega um hæfileika hugans, eða hugarkrafta eins og hann segir, í Mannfræðinni. Svona skilgreinir hann andríki eða Witz: „Andríki er að para saman óskyldar hugmyndir sem að oft eru langt frá hver annarri eftir lögmáli ímyndunar (venslum).“ (Anthropologie in pragmatischer Hinsicht, grein 54). Samkvæmt þessu er andríki gott fyrir heimspekilega hugsun til að fá yfirsýn, sjá samhengi, til að safna efni sem gagnrýnin hugsun rannsakar.

Á næstu blaðsíðu segir hann:

Það er þægilegt, vinsælt og upplífgandi að finna líkindi með óskyldum hlutum […] Dómgreind þar á móti, sem afmarkar hugtök og miðar frekar að því að leiðrétta hugtök en að útvíkka þau, er að vísu heiðruð í orði kveðnu og hvarvetna mælt með henni en hún er alvarleg og ströng og takmarkandi við hliðina á frelsinu til að hugsa og þessvegna óvinsæl. Andríkið sem ber saman er leikur en dómgreindin vinna. Andríki er blómstur æskunnar en dómgreind ávöxtur fullorðinsaldurs. (Anthropologie, gr. 54)

Kant sér dómgreind sem mótvægi við andríki: andríki útvíkkar – dómgreind afmarkar. Í bók Jóns  kemur fram að hann gerir sér grein fyrir að ímyndunaraflið sem leiðir hann þarf aðhald. Hann veltir fyrir sér hvernig megi finna jafnvægi þar sem vegast á „ímyndunarafl“ eða „flæði“ og hins vegar „gagnrýnin hugsun“ sem „heldur umræðu í vissum farvegi“ (Gagnrýni og gaman, bls. 132). Þessa jafnvægislist hafa flestir heimspekikennarar þurft að tileinka sér.

..6 Vinsældir Jóns

Jón var vinsæll kennari, um það vitna nemendur hans, foreldrar þeirra, samstarfsfólk og samferðamenn allir. Kennsla er að nokkru leyti fag sem hægt er að læra með því að tileinka sér tækni. Að nokkru leyti er þó kennsla list sem lærist af reynslu á löngum tíma og erfitt er að skilgreina. Hér er samt mín tilraun til að sundurgreina ástæðuna fyrir vinsældum Jóns.

    1. Frjálst svæði. Hann bjó til svigrúm fyrir umræða, tók frá tíma og vettvang fyrir umræðu. Bjó til dálítið frísvæði í hinu stranga skipulagi skólans fyrir frjálsa umræðu.
    2. Kveikjur. Hann kom með spurningar sínar inn í þetta rými, lagði til kveikjur.
    3. Vera með. Hann var með í ævintýrinu. Inni í skólastofu var hann í ákveðinni valdastöðu sem kennari og stjórnandi samræðunnar en um leið var hann þátttakandi í umræðu, hann var sjálfur að fílósófera, stundum jafn áttavilltur og nemendurnir.
    4. Jafningi. Hann talaði við unglinga eins og jafningja, hann kom fram við þá sem vitsmunaverur, hann spurði nemendur sína samsvarandi spurninga og hann spurði vini sína.
    5. Gleði. Hann var glaður og hláturmildur. Hann hafði smitandi hlátur og gleði breiddist út í kring um hann.

Þetta virðist mér vera helstu kostir Jóns sem kennara.

Heimildaskrá

Helskog, Guro Hansen. (2019). Philosophising the Dialogos Way towards Wisdom in Education: Between Critical Thinking and Spiritual Contemplation. Routledge, London-New York.

Kant, Immanuel. (1798). Anthropologie in pragmatischer Hinsicht. Nicolovius, Königsberg. [Ýmsar útgáfur]

Jón Thoroddsen. (2016). Gagnrýni og gaman: Samræður og spurningalist. IÐNÚ, Reykjavík.

Platon. (1983). Málsvörn Sókratesar. Í Síðustu dagar Sókratesar. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.

Róbert Jack. (2006). Hversdagsheimspeki. Háskólaútgáfan, Reykjavík.

„Heimspekikennarinn“

eftir Elsu Haraldsdóttur

Erindi flutt á málþingi helgað Jóni Thoroddsen, 2. nóvember 2024, kl. 10–14:30 í Auðarsal í Veröld – húsi Vigdísar

Fyrir mörgum árum, þegar ég var að vinna að lokaritgerð í heimspeki, rakst ég á grein eftir kennara í Grandaskóla. Greinin fjallaði um heimspekilega samræðu í menntun, þar sem kennarinn lýsti því hvernig það að leggja stund á heimspekilega samræðu með nemendum varð til þess að nemendurnir sátu eftir undrandi. Ég skildi ekki alveg hvað kennarinn átti við, ég skildi ekki hvernig það gat verið markmið menntunar að vekja nemendur til undrunar, hvað gat undrunin ein og sér skilið eftir sig? Gat það verið markmið menntunar að vekja nemendur til undrunar? Til hvers? Undrunin ein og sér virtist skilja eftir sig lítið annað en ósvaraðar spurningar, eða óvissu.

Í mínum huga ætti samræðan að skilja eitthvað meira, eða eitthvað annað, eftir sig. Samræðan ætti að vekja nemandann til umhugsunar, jafnvel svara einhverjum spurningum, auka skilning þeirra – hún ætti að hafa skýrt og skilmerkilegt markmið sem stuðlaði að menntun nemandans og þroska. Þá fannst mér undrunin svo endasleppt og ómarkviss – þegar að allt þurfi að hafa tilgang og markmið. Sér í lagi í menntun, þar sem markmið hennar eru skýrt skilgreind og þurfa að hafa einhvern skýran tilgang sem hægt er að skilgreina aðferðir og markmið útfrá. Í því samhengi virtist mér undrunin tilgangslaus.

En þegar ég lít til baka hafði þessi grein mun meiri áhrif á framvindu rannsókna minna á hlutverki heimspeki í menntun, á heimspekikennslu og menntaheimspeki, en ég gerði mér grein fyrir. Hún sat í mér, stuðaði mig og var eitthvað sem ég á einhvern hátt, var eilíft að svara.

Allar mínar rannsóknir í kjölfarið sneru um að sýna fram á hvernig og hvers vegna, heimspeki væri mikilvægur og órjúfanlegur þáttur menntunar. Og þá sneri það að mörgu leiti um að sýna fram á áhrif samræðunnar á nemendur, hvernig hún gerði þá klárari og flinkari í að hugsa fyrir sig sjálfa og ekki síst, betur undirbúnir fyrir hlutverk sitt í lýðræðissamfélagi framtíðarinnar.

Á þessum tíma las ég um rannsókn á heimspekikennslu í skólum í Svíþjóð þar sem nemendur gagnrýndu tilgangsleysi samræðunnar, að hún skildi ekkert eftir sig og að kennararnir „gætu ekki einu sinni svarað eigin spurningum“.[1] Það var greinilega ekkert verra en tilgangsleysið og hvað þá þegar færa ætti rök fyrir gildi heimspekilegrar samræðu í menntun. Heimspeki hafði jú orð á sér fyrir að vera svolítil hringavitleysa, spyrði endalausra spurninga en hefði engin endaleg, né rétt, svör.

En þá rakst ég á rannsókn frá Englandi sem sýndi fram á að nemendur sem fengju þjálfun í heimspekikennslu yrðu miklu flinkari í stærðfræði.[2] Það var orsakasamhengi sem eitthvað vit var í. Svona mælanlegt og skýrt og skilmerkilegt, eitthvað sem væri hægt að kynna fyrir þeim sem öllu stýra í menntamálum og þannig efla veg heimspekikennslu á Íslandi. Það þýddi alls ekki að skilja nemendur bara eftir „undrandi“ í lok kennslustundar.

Ég hélt áfram að pæla, lesa og rannsaka þetta efni – alltaf með óljósan punkt á því að leysa þetta markmið, það er: að færa rök fyrir gildi heimspekilegrar samræðu á sannfærandi og hagnýtan hátt. Með tímanum féll þó þoka á þennan hagnýta og mælanlega þátt – og gildi heimspekinnar og þá jafnvel hugvísinda í heild sinni varð mér meira hugleikin. Ég var þá eitthvað farin að efast um að stærðfræðirannsóknin í Englandi væri rétta leiðin, hún gæti aldrei fyllilega varpað ljósi á gildi heimspekilegar samræðu í menntun. En ég var hins vegar ekki tilbúin til að samþykkja þessi „óljósu“ eða endaslepptu markmið heimspekikennarans úr Grandaskóla.

Það var svo mörgum árum seinna, að ég var að kenna stutt sumarnámskeið um heimspekilega samræðu. Þegar ég las yfir nemendalistann sá ég nafn kennarans sem skrifað hafði greinina, Jón Thoroddsen. Mér varð við. Hvað gæti ég kennt honum um heimspekilega samræðu? Hann var miklu fróðari en ég um þessi mál. Þó ég hafi verið ósammála atriðum greinarinnar um árið, þá var þarna um miklu reyndar kennari og heimspekikennari. Þekkti einn ef ekki frægasta frumkvöðul heimspekilegrar samræðu í menntun, Matthew Lipman, og hafði þar af auki skrifað bók um viðfangsefni námskeiðsins.[3] Það örlaði þá svolítið á stressi fyrir fyrsta tímann, að ég myndi vonandi standa mig nógu vel, og ekki segja einhverja vitleysu – kannski myndi hann þurfa að leiðrétta mig í sífellu.

En það kemur viðstöddum eflaust ekki á óvart að hann var bæði áhugasamasti og örlátasti nemandi sem ég hafði kynnst. Hann lyfti kennslustundunum á annað plan, þannig að aðrir nemendur hefðu fengið langtum minna úr námskeiðinu ef hann hefði ekki verið þar. Ég naut þess að fjalla um þetta efni sem mér var enn svo hugleikið – og ræða það við Jón. Eftir eina af kennslustundunum, þegar við vorum að ræða viðfangsefnið á leið út, komum við inn á málefni sem ég hélt að hann yrði mér mögulega ekki sammála um, svo og ég gerði lítið úr afstöðu minni.

En þá gerðist svolítið undarlegt. Það er erfitt að lýsa því í orðum en það má reyna: Það er eins og að, í samræðunni, þar sem hann stóð á móti mér – gerði hann sig svo lítinn, að hann varð bara agnarsmár – og á sama tíma stækkaði ég og varð sá merkilegi, sem hafi eitthvað segja og hugsaði svo fallega og gáfulega. Maður tekur ekki eftir því í augnablikinu – en með því að gera sig svo smáan hefur hann þannig skapað vettvang og skjól fyrir þig til að hugsa og vera til. Páll Skúlason heimspekingur sagði á einum stað að hlutverk menntastofnanna væri að vera skjól fyrir nemandann til að hugsa og þroskast og dafna.[4] Skilgreining sem mér hefur fundist mjög mikilvæg þegar kemur að eflingu sjálfstæðrar hugsunar og í nútímasamfélgi, þar sem stöðugt áreiti og áróður er daglegt líf. En þarna varð Jón sjálfur skjólið – og jafnvel skjöldurinn. Kennarinn sjálfur, en ekki stofnunin sem slík.

Á sama tíma og Jón deildi visku sinni og fróðleik, fylgdi því hógværð og lítillæti. Og ég lærði að það er lítillætið sem gerir menn stóra. Það felst jú ákveðið örlæti í því að gera sig lítinn, fyrir aðra. Að maður geri sig svo lítinn að maður búi til pláss fyrir aðra til að vera til … á eigin forsendum. Og þannig kennari var Jón – kennari sem gerir öðrum kleift að hugsa og vera til, á sinn kostnað, með því að leggja sjálfið til hliðar. Hann þurfti þá ekki að vita allt best, þó hann hafi vitað margt um meira en ég, en hann vildi hlusta, vildi heyra hvað aðrir höfðu að segja. Hugsunin sjálf var svo mikilvæg og dýrmæt – og þá allar hliðar hugsunarinnar, líka undrunin.

En þá komum við aftur að upphafi þessara hugleiðinga. Ég hef nefnilega lært ýmislegt síðan þarna um árið – þegar ég sat á lesstofunni og las greinina hans Jóns – og hafði miklar áhyggjur af tilgangsleysi samræðunnar. Jón var nefnilega löngu búin að uppgötva eitthvað sem vísindamenn rannsaka nú af miklum móð í dag, þar á meðal ég. Það felst í því að nálgast hugsunina ekki bara sem vélræna aðferð við að svara spurningum, leysa gátur og afla þekkingar. Hugsunin er öllu heldur margslungið samspil upplifunar og reynslu – og þá reynslu og upplifunar sem er ekki síður líkamleg en hugræn.[5]

Í undruninni, býr þannig upplifun, upplifun sem getur skilur eitthvað eftir sig, kannski ekki skilning eða svar, en hún skilur sig tilfinningu – og ef vel er að gáð, er hægt að hugsa sig í gegnum þessa tilfinningu – og með því, öðlast dýpri skilning á sjálfum sér, öðrum og veruleikanum, en án hennar. Tilfinningin hefur þannig ríkan og gildan tilgang í samræðunni, hún er á vissan hátt bæði aflvaki hennar og afleiðing. En hér get ég einnig vitnað í Jón sjálfan þar sem hann segir frá kennslunni í Grandaskóla:

„Svo rakst ég á bókina Heimspeki og börn … . Þar sé ég þessa spurningu: Hvernig getum við verið viss um að allt er ekki draumur? og ég ákvað að prófa hana. Og börnin urðu eiginlega algerlega heilluð af þessari spurningu. Og eftir það varð ekki aftur snúið …“.[6]

Tilfinningin er einnig órjúfanlegur hluti tilveru okkar, eitthvað sem gefur manneskjunni aukinn skilning á sjálfum sér og veruleikanum. Skilning sem hefur ekki mikið verið í hávegum hafður en vísindamenn hafa margir áttað sig á gildi hans, ekki síst sem leið til að kljást við krefjandi áskoranir samtímans. Það mælanlega og augljóslega hagnýta, er ekki það eina sem hefur gildi þegar kemur að menntun.

Þessar hugleiðingar hafa þá verið tilraun til að gera grein fyrir áhrifum Jóns á mína eigin hugsun en það má segja að við lestur þessarar greinar frá 2003 og bar heitið: „Heimspeki með börnum: tilraun í Grandaskóla, Reykjavík“ hafi hafist heilmikið heimspekiferðalag. En Jón var þá fyrir mig, bæði hin Sókratíska gaddaskata og ljósmóðir: hann stuðaði mig með orðum sínum, sem fékk mig til að hugsa og vilja vita meira, en hann sýndi mér einnig hvernig lítillætið geymir umhyggjuna – og fyrir það verð ég honum ævinlega þakklát.


Eftirmálsgreinar

[1] Bo Malmhäster og Ragnar Ohlsson, 1999, Filosofi med barn: reflektioner över ett försök på lågstadiet, Stockholm: Carlsons.

[2] Jenny Anderson, „Teaching kids philosophy makes them smarter in math and English“, Quartz, 9. mars 2016: https://qz.com/635002/teaching-kids-philosophy-makes-them-smarter-in-math-and-english.

[3] Jón Thoroddsen, 2016, Gagnrýni og gaman: Samræður og spurningalist, Reykjavík: IÐNÚ.

[4] Páll Skúlason, 1987, „Hugsun og menntun“, Pælingar, Reykjavík: ERGO.

[5] Elsa Haraldsdóttir, Donata Schoelle, Guðbjörg R. Jóhannesdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir, „Hvernig má hugsa gagnrýnið og glæða skilninginn? Hvarfið að líkama og reynslu í þjálfun gagnrýninnar hugsunar“, Hugur 33/2022-23.

[6] Ingvar Sigurgeirsson, „Nemendur þurfa að finna að þeir séu teknir alvarlega sem vitsmunaverur: Viðtal við Jón Thoroddsen, kennara í Laugarlækarskóla, um nýja bók hans Gagnrýni og gaman: Samræður og spurningalist“, Skólaþræðir, 6. desember 2016: https://skolathraedir.is/2016/12/06/nemendur-thurfa-ad-finna-ad-thau-seu-tekin-alvarlega-sem-vitsmunaverur/.

Gagnrýni og gaman – Samræður um spurningalist. Jón Thoroddsen tekinn til skoðunar

eftir Ólaf Pál Jónsson

Erindi flutt á málþingi helgað Jóni Thoroddsen, 2. nóvember 2024, kl. 10–14:30 í Auðarsal í Veröld – húsi Vigdísar

I

Þegar nefnt var við mig að tala á málþingi helguðu Jóni Thoroddsen fannst mér liggja beinast við að segja eitthvað um bók hans, Gagnrýni og gaman. Ég hugsaði mér að þetta yrði skemmtilegt verkefni þar eð með því einu að halda mig nálægt bókinni, og kannski vitna oft í hana, þá færi ekki hjá því að erindið yrði skemmtilegt. Sennilega bráðskemmtilegt. Og reyndar hugsaði ég líka að það yrði frekar létt, því um þessa bók væri hægt að tala lengi. En þegar ég fór að fletta bókinni til að undirbúa þetta erindi færðist ég smátt og smátt frá þessari hugmynd. Bókin er hérna, þið eigið hana öll, og hún er vel skrifuð, skemmtileg, skýr, skipuleg, og stendur alveg fyrir sínu. Það sem ég myndi segja um bókina yrði líklega ekki annað en dauf skuggamynd af bókinni sjálfri og bætti litlu við.

Það sem olli þessum sinnaskiptum var ekki bara sannfæring mín um að orð mín yrðu lítið annað en litlaus endursögn, heldur líka hitt að ég kom auga á annað í bókinni sem ég held að sé enn áhugaverðara en bókin sjálf – nefnilega Jón sjálfan. Þegar við lesum bókina fer varla fram hjá okkur að hún er nokkuð persónuleg – og að því leyti fremur óvenjuleg sem bók um kennslufræði eða kennsluaðferðir. Það eru nefnilega ekki bara aðferðirnar og hugmyndirnar sem lýst er í bókinni sem skipta máli, heldur það hvernig Jón lýsir því hvernig hann fær hugmyndirnar og hvernig hann vinnur úr þeim.

Það er vel þekkt að Platon hafði takmarkaða trú á að stunda heimspeki í rituðu máli því ritmálið væri of svifaseint, of aftengt dýnamík rökræðunnar, of langt frá hinni lifandi leit að sannleika. Þess vegna setti hann líka sína heimspeki fram sem lifandi rökræður, ólíkt Aristótelesi sem sá ekkert að því að skrifa skipulega heimspeki og fella ólíkar vangaveltur í margvísleg kerfi. Platon var trúr læriföður sínum, Sókratesi, í því að sjá heimspekina sem virkni, lifandi iðju þar sem ólíkir hugar mætast í leit að sannleika – stundum reyndar með dálitlum pirringi og stælum, en það er önnur saga. Þannig er nú einu sinni mannssálin. Í bókinni Gagnrýni og gaman finnst mér Jón halda aðdáunarlega í þessa platónsku afstöðu.

Þegar ég las bókina á sínum tíma var ég svo upptekinn af aðferðunum, dæmunum, spurningunum og sjálfri heimspekinni að ég tók ekki eftir Jóni sjálfum. Eða öllu heldur, ég horfði fram hjá honum og taldi mér trú um – ómeðvitað vissulega – að þetta væri bók um aðferðir til að nota heimspeki í kennslu. En þetta var einföldun og í þessu erindi vonast ég til að geta gefið ykkur smá hugboð um hvers vegna mér virðist að þetta hafi verið einföldun, eða jafnvel afbökun.

Kannski er ég sá eini sem var svona skammsýnn við fyrsta lestur. Jón var náttúrulega ekki að reyna að fela sjálfan sig þegar hann skrifaði bókin. Kafli 1 hefst beinlínis á þessum orðum:

Þegar ég fór að stunda heimspeki með börnum og unglingum öðlaðist hún fyrst líf fyrir mér. (bls. 13)

Fyrsti kaflinn heitir vissulega „Persónuleg saga með dæmum“ og þar segir Jón okkur heilmikið af sjálfum sér, ekki síst námi sínu í heimspeki sem „gerði veruleikann gráan“. Hann segir okkur líka að eflaust hafi hann tekið „fagið aðeins of alvarlega“ svo það hafði áhrif á lífsgleðina, ekki til upplyftingar heldur þvert á móti. Þetta kom mér reyndar mjög á óvart við lestur bókarinnar, enda man ég varla eftir lífsglaðari manni en Jóni. Mér finnst ég varla hafa hitt mann sem fannst heimurinn jafn heillandi og skemmtilegur. Honum fannst svo margt fyndið. En ég kynntist honum vissulega ekki fyrr en hann hafði unnið við að kenna börnum og unglingum heimspeki um nokkra hríð og lært að taka heimspekina ekki of alvarlega.

II

Sá Jón sem birtist okkur í upphafi bókarinnar er í svolitlum vandræðum með heimspekina, og kannski sjálfan sig líka. Hann vinnur í Grandaskóla og er að prófa sig áfram með heimspeki fyrir börn, notar efni frá Matthew Lipman en „Það gekk nú heldur brösuglega þegar á heildina er litið og sumir brugðust ókvæða við þessu,“ (bls. 14) segir hann. Þarna var samt einn strákur, 9 ára að aldri, sem tók heimspekinni fagnandi. Jón hugsaði: „Já, heimspeki er líklega bara fyrir fáa“ (bls. 15).

En þarna, í þessu sem virðist hafa verið hálfgerður vandræðagangur, birtist einmitt eiginleiki sem ég sé aftur og aftur í bók Jóns. Nefnilega að taka börn alvarlega, treysta þeim og treysta innsæi þeirra. Þrem árum síðar, þegar Jón hafði snúið aftur til kennslu í Grandaskóla eftir að hafa búið erlendis í tvö ár, var það þessi sami nemandi sem kom honum á sporið. Ég ætla ekki að rekja þessi fyrstu skref Jóns í heimspekikennslunni – hann gerir það sjálfur í bókinni. En mig langar að undirstrika þennan eiginleika sem ég var að nefna og ég held að sé mjög mikilvægur: Að taka börn alvarlega og treysta á innsæi þeirra.

Þessi eiginleiki er ekki aðferð, en án þessa eiginleika falla allar þær aðferðir sem Jón lýsir í bókinni dauðar til jarðar. Þarna sjáum við Jón sjálfan, eða öllu heldur, við sjáum einni hlið á honum bregða fyrir.

Ég sagði áðan að mér virtist að Jóni fyndist heimurinn heillandi og skemmti-legur. Hér myndi ég vilja bæta við: og fallegur. Þegar Jón rakst inn á skrifstofuna í Skipholti þar sem við Atli Harðarson sátum og vorum eitthvað að stússa, þá breytti skrifstofan umsvifalaust um yfirbragð og þá stundina virtist mér heimurinn einmitt heillandi, skemmtilegur og fallegur. Þetta er annar eiginleiki sem skín víða í gegn. Undir lok fyrsta kafla lýsir Jón stuttlega aðferð sem hann hafði þróað en segir svo:

Þessi nýja aðferð reyndist vel til að auka á sjálfstraust og leikgleði nemenda. Þarna sköpuðust ótrúlega líflegar umræður og ég gat dregið mig til baka og notið þess að hlusta. (bls. 30–31)

Það er ekki bara að Jón geti dregið sig til baka, því nemendur vinni sjálfstætt og þurfi ekki stöðuga örvun. Þetta er í senn tími leikgleði og tími til að njóta. Þarna birtist heimur sem er heillandi, skemmtilegur og fagur – það er hægt að njóta þess að hlusta.

Skynfærið sem er lykillinn að því að nema þessa fegurð heimsins, er ekki bara sjón og heyrn heldur einkum hlustun. Heyrn er ekki það sama og hlustun. Heyrn getur numið hljóð, en það þarf hlustun til að nema fegurðina sem birtist í leikgleði nemenda.

Án þess eiginleika að geta hlustað eftir leikgleði nemenda og skynjað aukið sjálfstraust þeirra í glímunni við ólíkar spurningar – og í glímunni við tungu-málið og sjálf sig – hefði Jón tæpast enst í starfi. Aftur og aftur í bókinni birtist þessi sýn, þessi skynjun. Í kafla um töflukennslu, sem Jón lýsir sem viðleitni til að hugsa saman (bls. 34), segir hann á einum stað.

Nú mætti halda að umræðan væri komin í þrot … (bls. 37)

Jón er að lýsa umræðu um hvað hugsun sé og hvernig hún tengist ímyndunar-aflinu. Umræðan virðist ekki hafa neina skýra stefnu og kannski erfitt að sjá skýra framvindu í henni. Þess vegna mætti halda að hún væri komin í þrot. En Jón heldur áfram:

… en hver sem hefur horft í augu fjörmikilla ungmenna ætti að vita betur. (bls. 37)

Hér sjáum við kennara sem er tilbúinn að treysta innsæi nemenda og nokkrum línum síðar dregur Jón saman lærdóminn af samræðunni:

Eins og sjá má eru fangbrögð hinna ungu nemenda hin skemmtilegustu, en alls staðar leiftrar þessi skýra hugsun og meitlaðar staðhæfingar sem nálgast það oft að vera ljóðlínur eða spakmæli. (bls. 37)

Til að nema fegurðina í því sem nemendur segja, til að upplifa tal þeirra sem „meitlaðar staðhæfingar“ sem séu á köflum líkastar ljóðlínum eða spakmælum, þá er ekki nóg að snúa eyra að nemendahópnum og leyfa tali þeirra að dynja á hljóðhimnunni. Sú hlustun sem Jón lýsir er eitthvað miklu meira, hún er skynjun á merkingu, blæbrigðum tungumáls, leikgleði nemenda og áreynslu þeirra við að takast á við viðfangsefni sem hefur fangað athygli þeirra.

III

Ég hef nefnt tvo eiginleika sem oft bregður fyrir í bókinni, eða öllu heldur, sem sjá má þegar Jóni sjálfum bregður fyrir í bókinni. Þriðji eiginleikinn sem ég held að sé ekki síður mikilvægur er örlæti sem birtist með tvennum hætti. Í dæmigerðri sókratískri rökræðu veltur mikið á því að rökræðendur séu örlátir á hugsanir sínar. Um leið og hugsun hefur verið orðuð er hún sameign þeirra sem taka þátt í rökræðunni. Enginn getur sagt: „Nei, þú mátt ekki halda þessu fram, þetta er mín hugsun.“ Höfundarréttur að hugsunum getur aldrei orðið annað en fótakefli heimspekilegrar rökræðu.

Þegar Jón lýsir umræðuhring þar sem talprik var látið ganga á meðan rætt var um neikvæðni og gagnrýni, segir hann á einum stað:

Oft verða nemendur fyrir vonbrigðum í slíkum umræðum þegar einhver orðar hugsun sem þeim sjálfum hafði dottið í hug og finnst þeir missa af tækifærinu. (bls. 43)

Athugasemdin kemur á eftir kafla þar sem samræða er skráð orð fyrir orð eftir upptöku í tíma. Umræðan dýpkar og auðgast smátt og smátt en það eru margir krakkar í bekknum, einungis einn getur talað í einu og þegar einhver kemst ekki að með sína eigin hugsun, eða þegar einn nemandi orðar það sem annar vildi líka segja, má búast við vonbrigðum. Ef krökkunum finnst umræðan skipta máli verða slík vonbrigði nánast óhjákvæmileg. En þegar nemendur verða fyrir slíkum vonbrigðum segir Jón að gott sé að minna þá á

… að vera ekki eigingjörn á hugsanir, að það skipti ekki máli jafnvel þótt einhver annar segi það sem manni býr í brjósti. Það er mikilvægt að við hugsum saman þó að við séum ekki endilega sammála. (bls. 43)

Þegar fólk hugsar saman þá gengur það inn í lífrænt ferli þar sem hin lifandi hugsun vex af margvíslegri næringu og þeim skilyrðum sem henni eru búin. Hugsunin er eins og planta sem vex smátt og smátt, en enginn getur bent á einhvern hluta plöntunnar sem orðið hefur til – hvort sem hún líkist meira tré eða rísómi – og sagt: „Þetta er það sem ég lagði til.“ Það sem fólk leggur til umbreytist í hugsunarferlinu, nærist á því sem áður er komið fram og verður næring fyrir það sem á eftir kemur.

Það getur verið gott og gilt að eiga höfundarrétt að texta, en fráleitt er að eiga höfundarrétt að hugsun þannig að aðrir hafi ekki leyfi til að nota hana – byggja á henni, skilja hana, misskilja eða bara skilja á sinn hátt, hafna henni eða jafnvel afbaka hana. Örlæti í þessum skilningi er forsenda heimspekinnar, og hún er að sama marki forsenda kennarastarfsins.

IV

En hvert er eiginlega hlutverk Jóns í þessu öllu saman, fyrir utan að koma með nokkrar vel valdar spurningar og kannski gæta þess að nokkrum vel völdum reglum sé fylgt? Ég hef nefnt þrenns konar eiginleika sem sýna Jón sjálfan í bókinni Gagnrýni og gaman.

  1. Að taka börn alvarlega og treysta á innsæi þeirra.
  2. Að hlusta eftir fegurðinni í leikgleði nemenda.
  3. Að vera örlátur á eigin hugsun.

Nú langar mig að fikra mig í átt að fjórða eiginleikanum. Það er ekki alveg auðvelt að lýsa honum en mig langar að segja að hann sé að veita hæfilegt viðnám.

  1. Að veita nemendum hæfilegt viðnám.

Gamla glóðaperan lýsir vegna þess að vírinn í henni veitir hæfilegt viðnám. Án viðnáms myndi rafstraumurinn flæða eftir vírnum án þess að hita hann uns hann glóði. Ef viðnámið er of mikið nær straumurinn ekki að flæða um vírinn sem þá hitnar ekki og glóir ekki heldur. Einungis ef viðnámið er hæfilega mikið – vírinn af réttu tagi og kringumstæður hans ákjósanlegar – glóir hann og veitir ljósi í allar áttir. Þannig er heimspekin líka, og þannig er góð kennsla. Aftur og aftur lýsir Jón því hvernig hann reynir að tryggja hæfilegt viðnám í rökræðunni svo hugsunin glói – svo kvikni á perunni. Ef viðnámið er of mikið, ef spurningarnar eru of óárennilegar eða ósvaranlegar, þá gerist ekkert. Í kafla 3 sem heitir hvorki meira né minna en „Spurningalist“ segir Jón:

Segja má að heimspeki með börnum og unglingum krefjist þess að kennari leggi sig eftir tvenns konar listformi: list samræðunnar og list spurninganna. List samræðunnar felst í að vega og meta athugasemdir nemenda og athuga hvort þær tengist spurningum. (bls. 49)

Stuttu síðar segir hann svo:

List spurninganna liggur þessu til grundvallar, leiðsögn samræðunnar fer fram í gegnum spurningarnar. (bls. 49)

Mikilvægt er að taka bókstaflega það sem Jón segir hér: Þessi tvenns konar listform eru einmitt það, listform. Þetta eru ekki aðferðir, þetta er ekki tækni, og þótt hægt sé að læra ýmislegt í þessum efnum og öðlast reynslu sem gerir mann færari þá, eins og Jón segir, „getur [þetta] verið býsna snúið“ (bls. 49).

Þessi kafli er kannski kjarninn í bókinni, enda fjallar hann beint um þær tvær listgreinar sem allt efnið byggir á. Jón segir: „spurningarnar verða að vera opnar sem þýðir að kennari getur ekki beðið um eitt rétt svar við þeim, en það þarf líka að vera mögulegt að svara þeim“ (bls. 49). Jón nefnir nokkur dæmi máli sínu til útskýringar.

Dæmigerðar heimspekilegar spurningar eins og „Hvað er tími?“ eða „Hver er tilgangur lífsins?“ leiða okkur ekki neitt, efnið smýgur okkur um fingur áður en við fáum hönd á fest. (bls. 49)

Jón heldur síðan áfram og segir að hjálplegt sé „að þekkja innviði spurningar“. Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki hvað hann var að fara þegar ég las þetta fyrst. Hvað eru innviðir spurninga? Nú er sífellt verið að tala um innviði sem aðallega eru vegir, orkumannvirki og annað sem áður var kallað mannvirki. En hvað á Jón við með innviðum spurninga? Til að útskýra mál sitt tekur Jón frábært dæmi, nefnilega þessa spurningu:

Hver er munurinn á að vera og sýnast? (bls. 50)

Þetta er frekar hversdagsleg spurning og, eins og Jón bendir á, þá finnur lesandi að það er auðvelt að svara henni. Spurningin er opin en um leið svaranleg. Jón heldur svo áfram og bendir á að þessi spurning er á sinn hátt eins og hinir efnislegu innviðir, t.d. vegakerfið, sem getur leitt fólk í ólíkar áttir.

Þegar hugtökunum [að vera og að sýnast] er stillt saman er hægt að leiða umræðu um spurninguna í aðskiljanlegar áttir, eins og til dæmis að fjalla um hégómagirnd eða þörf fyrir að vera sjálfum sér trúr, fái hún að standa eins og hún er. Umræðan verður þá siðferðileg og ætti að geta runnið nokkuð snurðulaust. Nemendur vita vel um hvað verið er að tala. (bls. 50–51)

Jón heldur svo áfram:

En sé spurningin aftur á móti hlutuð í sundur, vandast málið. Þá koma upp spurningarnar: Hvað er að vera sýnast? og Hvað er að vera? Ef fyrri spurningin er skoðuðu felur hún í sér samanburð, þótt hún standi ein og sér. Að sýnast felur í sér að sá sem það gerir er með látalæti, villir á sér heimildir. Spurningin felur í sér samanburð við hið sanna í málinu (hvað sem það nún er). Ef spurningin er aftur á móti: Hvað er að vera? vefst okkur tunga um tönn. Í samanburði við að sýnast felur það að vera í sér skírskotun til sannleikans. En ein og sér er merking sagnarinnar að vera allt að því loftkennd. (bls. 51)

Þessi einfaldi samanburður á spurningunum er lærdómsríkur. Spurning eins og „Hvað er að vera?“ leiðir ekki neitt. Jafnvel þótt kennari reyni að hleypa straumi á, þá kemur allt fyrir ekki. Spurningin um að sýnast – eða um muninn á því að sýnast og að vera – gefur aftur á móti tilefni til samræðu þar sem tefla má saman ólíkum sjónarmiðum, þar sem margvísleg atriði – bæði siðferðileg og frumspekileg – koma upp og knýja samræðuna áfram. Hér erum við með dæmi um tvenns konar innviði spurninga. Annars vegar eru innviðir spurningarinnar „Hvað er að vera?“ sem eru þungir fyrir, veita of mikið viðnám og eru ekki til þess fallnir að kveikja líflegar samræður. Hins vegar innviðir spurningarinnar „Hvað er að sýnast?“ sem opna leiðir í ólíkar áttir.

Kennarinn getur þurft að veita samræðunni hæfilegt viðnám, en þegar vel tekst til sjá nemendur um það sjálfir og kennarinn getur dregið sig í hlé og notið þess að hlýða á nemendur sem pæla í djúpum, heimspekilegum málum af gagnrýninni leikgleði.

Það er sumsé þessi maður, Jón Thoroddsen, sem birtist í bókinni Gagnrýni og gaman sem mig langaði að tala um. Þessi maður sem reyndi að taka börn alvarlega og treysta á innsæi þeirra, sem hlustaði eftir fegurðinni í leikgleði nemenda sinna, var örlátur á eigin hugsun og leitaðist við að kenna nemendum að vera það líka, og sem reyndi að veita nemendum hæfilegt viðnám við hugsun sinni svo það myndi kvikna á perunni.

Minningarmálþing um Jón Thoroddsen, 2. nóvember 2024, í Veröld – húsi Vigdísar: Dagskrá

HVAR: í Veröld – hús Vigdísar, Brynjólfsgötu 1, 107 Reykjavík, Auðarsal (fyrirlestrarsal 023)

HVENÆR: laugardaginn 2. nóvember, kl. 10-15


Jón Thoroddsen var farsæll kennari sem stundaði heimspekilegar samræður með nemendum sínum í Grandaskóla og Laugalækjarskóla. Listir og menning voru oft tekin til skoðunar og honum var mikilvægt að leggja rækt við íslenska tungu því þannig „gætum við skilið og haldið áfram að rækta samfélagið við stórskáldin, lesið handritin og fornbókmenntirnar“. Jón skrifaði bókina Gagnrýni og gaman – Samræður og spurningalist sem kom út árið 2016 sem verður m.a. til umfjöllunar á málþinginu.

Boðið verður upp á léttar veitingar.

Kristian Guttesen er fundarstjóri.

Dagskrá

  • 10:00-10:30 Jóhann Björnsson: Heimspekilegar samræður, lífsskoðun og skólastarf – Um spurningalist við mótun skólastefnu, eins og Jón Thoroddsen reifar í lokakafla bókarinnar Gagnrýni og gaman – Samræður og spurningalist
  • 10:30-11:00 Skúli Pálsson: Heimspeki í praxis – Hvernig sér Jón hlutverk ímyndunaraflsins í heimspeki?
  • 11:00-11:30 Guðrún Hólmgeirsdóttir: Heimspeki í MH – Aðferðir og hugmyndafræði
  • 11:30-12:00 Arnar Elísson: Kvikmyndin Ex Machina og persónuhugtakið

Stutt hlé 12-12:30

  • 12:30-13:00 Ólafur Páll Jónsson: Gagnrýni og gaman – Samræður og spurningalist tekin til skoðunar
  • 13:00-13:30 Atli Harðarson: Dæmisögur af Nasreddin, þjóðsagnapersóna frá múslimaheiminum á 13. öld
  • 13:30-14:00 Elsa Haraldsdóttir: „Heimspekikennarinn“ – Viðhorf heimspekikennarans og hugmyndin um sjálfið
  • 14:00-14:30 Jón Ásgeir Kalmansson: Leikurinn sem þroskahugsjón
  • 14:30-15:00 Orðið er laust

Verið hjartanlega velkomin!

Sjá nánar: https://fb.me/e/alfqMEOyC

Félag heimspekikennara & Menntavísindasvið Háskóla Íslands