Heimspeki í praxis

eftir Skúla Pálsson

Erindi flutt á málþingi helgað Jóni Thoroddsen, 2. nóvember 2024, kl. 10–14:30 í Auðarsal í Veröld – húsi Vigdísar

..1 Kynni mín af Jóni í heimspekinámi

Ég kynntist Jóni fyrst haustið 1982 í heimspekinámi hér við Háskóla Íslands. Við sátum þar í inngangsnámskeiðum þar sem farið var yfir heimspekisöguna: Forn-Grikki, Descartes, Hume, Kant o.s.frv. Svo var inngangur að siðfræði og inngangur að frumspeki og fleira.

Við vorum dálítill hópur sem fylgdist að í gegn um grunnnámið. Í fyrirlestrum voru ekki tómar einræður kennara heldur var líka tími fyrir spurningar og umræðu. Umræður héldu áfram á kaffistofunni og stundum í partíum á kvöldin. Þarna var Jón með opin augu og undrunar og spurnarsvip og sinn dillandi hlátur og hafði við hvert tilefni á hraðbergi spaklegar tilvitnanir í heimsbókmenntir.

Þetta var góður tími fyrir mig, heimspeki var mér opinberun. Áður hafði ég lært íslensku og bókmenntir í næsta húsi á háskólalóðinni. Bókmenntir voru skemmtilegar en heimspeki reif upp allar gáttir. Heimspekinni var ekkert óviðkomandi: tilfinningar, réttlæti, samfélag, efnið, andi, guð. Opinberun mín var að sjá hvernig mætti fást við þetta allt með skynsamlegri rökræðu, að ná utan um það með með skiljanlegum hugtökum, að til væri aðferð til að komast að sannari hugsun um allt. Heimspeki lýsti upp  tilveruna, gerði allt skýrara, alla liti bjartari. Þetta var sérstök gleði: gleði yfir hugtökum, gleðin af að uppgötva, yfir skilningi. Þessi logi hefur haldið mér gangandi minn í heimspekikennslu.

Þótt við yrðum samferða þennan spöl – við sátum sömu tíma, lásum sömu bækurnar – þá upplifði Jón heimspekinámið allt öðruvísi en ég eftir því sem hann segir í bókinni sinni:

Þegar ég var að læra heimspeki á sínum tíma fann ég að námið gerði veruleikann gráan. Hvað olli vanlíðan minni í náminu er erfitt að segja til um með vissu. Þó býst ég við að ég hafi lesið veruleikan fullmikið með þeim gleraugum sem heimspekingarnir settu á nefið á mér. Líklega tók ég fagið aðe3ins of alvarlega. Ég las af ástríðu það sem ég átti að lesa af yfirvegun. Það hefur sjálfsagt haft áhrif á tilfinningalífið sem var stöðugt sett undir sjóngler sundurgreinandi hugsunar. Og það hafði áhrif á lífsgleiðina. Oft þótt mér eins og skortur á hugmyndaflugi væri innbyggður í fagið, eins og rökhugsun fæli í sér þá viðurkenningu að flatneskjan væri það eina sem samfæmdist mannlegri skynsemi. Hugmyndaflug og lífsgleði veittu aftur á móti lífsgleði. (Gagnrýni og gaman 2016, bls. 13)

Þessi gerólíka upplifun okkar er mér dálítil ráðgáta.

..2 Sókrates sem fyrirmynd

Upphaf vestrænnar heimspeki í Grikklandi er tengt nafni Sókratesar. Hann er frægasti heimspekingurinn og oft talað um hann sem einhverskonar frummynd heimspekings. Líf hans og dauði er tengt ákveðinni hugsjón um heimspeki: að rannsókn skipti mestu máli, að órannsakað líf sé ekki þess virði að lifa því, að nauðsynlegt sé að þekkja sjálfan sig; að sannleikur sé nátengdur hinu góða og hinu fagra, að illska stafi af vanþekkingu og enginn muni gera illt ef hann sannarlega þekkir hið góða.

Sókrates talar um rannsókn, heimspeki hans er skipuleg leit að skilningi. Hann hefur tækni eða aðferð í rannsókn sinni sem hefur verið kölluð sókratísk aðferð og felst í samræðu með sérstökum aga þar sem einn spyr og annar svarar. Spyrjandinn leitar að mótsögnum og misræmi og því sem er óljóst. Markmið samtalsins er meira samræmi og meira ljós. Orðalagið „sókratísk samræða“ hefur verið notuð um ýmislegt, þar á meðal stefnulaust spjall en best er að láta orðið tákna samtal með aðferð.

Sókrates sagði í málsvörninni að best af öllu fyrir okkur sé „að iðka daglega samræður um dyggðina (38a/66). Þetta er hugsjón þeirrar stefnu sem kennir sig við heimspekipraxis, að praktisera heimspeki, að stunda heimspeki með samræðu eða, eins og Sókrates segir, að iðka daglega samræður um dyggðina. Með þessu hefur hann og aðferð hans orðið fyrirmynd fyrir ýmsa heimspeki sem stunduð er fyrir utan háskóla og hefur verið kölluð einu nafni heimspekipraxis. (Sjá Róbert Jack, Hversdagsheimspeki, Reykjavík, 2006). Jón Thoroddsen er ekki hrifinn af Sókratesi, hann hreinlega varar við að fara að fordæmi Sókratesar (Gagnrýni og gaman, bls. 132). Hann þróaði sína eigin aðferð við að stunda heimspeki.

..3 Aðferðir í heimspekipraxis

Matthew Lipman (1923–2010) virðist hafa byrjað á barnaheimspeki af svipuðum hvötum og Jón. Hann var prófessor í heimspeki en lýsti því að hann hafi verið orðinn þreyttur og leiður á háskólaheimspekinni sem hann var að kenna og honum fannst að stúdentar sem komu til hans í tíma hefðu ekki forvitnina sem honum fannst nauðsynleg. Hann komst að þeirri niðurstöðu að til að rækta forvitnina, heimspekilega spurn, þá þyrfti að byrja snemma helst á barnsaldri.

Lipman mótaði aðferð og samdi námsefni til að vinna eftir henni: lestrarbækur sem voru sögur handa börnum en heimspekilegar spurningar sífellt rétt undir yfirborðinu. Sögunum fylgdu umfangsmiklar handbækur fyrir kennara. Heimspekitími í anda Lipmans fer þannig fram að nemendur sitja í hring og lesa saman texta úr sögunn. Svo segir kennarinn: Getið þið komið með spurningar um það sem við vorum að lesa? Spurninar nemenda eru skráðar á töflu og síðan valin ein til að rannsaka. Kennarinn hefur þá ákveðnar spurningar til að leiða umræðuna áfram: Af hverju? Hvað er það? Geturðu komið með rök? Eru þetta góð rök? Geturðu komið með dæmi? Hver er andstæðan við það?

Hreinn Pálsson kom með barnaheimsepkina til Íslands. Hann lærði hjá Lipman og varð mikilvægur frumkvöðull á Íslandi: þýddi bækur Lipmans, stofnaði Heimspekiskólann, hélt námskeið fyrir kennara og var yfirleitt óþreytandi talsmaður barnaheimspeki. Aðferð Lipmans er í anda Sókratesar, samtal þar sem skiptast á spurningar og svör og snýst um að rannsaka hugtök. Þessi aðferð býður upp á frelsi en hefur samt aga.

Barnaheimspeki er ein aðferð til að ástunda heimspeki, eða praktisera heimspeki, en það eru fleiri leiðir. Heimspekikaffihús er orðið að hefð í mörgum löndum þar sem opnir hópar hittast á kaffihúsum og umræða fer fram eftir ákveðnu skipulagi.

Guro Hansen-Helskog frá Noregi, sem haldið hefur námskeið á Íslandi, hefur þróað aðferð þar sem gengið er út frá persónulegum reynslusögum til að kafa í grundvallarspurningar lífsins eins og hún lýsir í bók sinni Philosophising the Dialogos Way towards Wisdom in Education (Routledge, London/New York, 2019). Þá verður að minnast á Oscar Brennifier og Isabelle Millon frá Frakklandi. Þau hafa oft komið hingað til Íslands og haldið námskeið og Íslendingar hafa líka sótt námskeið þeirra í Frakklandi. Þeirra aðferð einkennist af miklu strangari aga en hinar. Hjá þeim gilda aðeins rök: Rökin ráða. Þau gæta vandlega að mótsögnum, tvíræðni og öllum aðferðum sem fólk hefur til að komast hjá að færa rök fyrir máli sínu. Starfi þeirra má kynnast á heimsasíðu þeirra: http://www.pratiques-philosophiques.fr/en/welcome/.

..4 Sundurgreining og hugmyndaflug

Í öllum þessum aðferðum í heimspekipraxis fer fram rannsókn á hugtökum sem felur í sér greiningu þeirra en Jón er ekki hrifinn af sundurgreiningu. Stefna hans eða aðferð kemur fram í tveimur punktum:

(1) Að hlúa að vaxtarbroddum frekar en ganga hart að nemendum.

(2) Gefa gaum að flæði hugsunar og hugarflugi frekar en nákvæmni og smásmygli. (Gagnrýni og gaman, bls. 107)

Í lýsingum hans á umræðum kemur fram hvað það er sem hann metur mikils. Orð sem hann notar til að lýsa því sem hann sækist eftir eru til dæmis: Ímyndunarafl, hugmyndaflug, flæði, lífsgleði, hugarflug, andrík tilsvör, dýpt og að kafa.

Annars skilgreinir hann ekki almennilega hvað hann meinar með ímyndunarafli og útskýrir ekki af hverju honum finnst það svona mikilvægt. Ég vil reyna að setja á mig sundurgreinandi gleraugu og greina hugtakið ímyndunarafl og reyna að átta mig á hvert Jón var að fara með því. Þetta á ekki að vera tæmandi greining heldur lítil tilraun til að nálgast Jón.

Þá þarf að gera greinarmun því orðið „ímyndunarafl“ hefur mismunandi merkingu.

(1) Ímyndunarafl sem fantasía. Ein tegund af ímyndunarafli er það sem líka er kallað fantasía og birtist til dæmis í ævintýralegum bókum eins og bókum Tolkiens eða Harry Potter og bíómyndum eins og Stjörnutríðsmyndunum. Í þessum bókum og bíómyndum er búinn til ævintýraheimur. Þar er flest öðruvísi en í alvöru heiminum, þar búa álfar og dvergar og risar og drekar og óteljandi aðrar furðuverur. Samt er margt kunnuglegt í heimi fantasíubóka. Eftir því sem færra kunnuglegt er að finna í fantasíubókunum verða þær furðulegri; stundum kallað súrrealískar.

Þó að bækur eða kvikmyndir séu það sem kallað er raunsæjar þá er samt marg tilbúið í þeim. Höfundar þeirra nota ímyndunaraflið til að hugsa sér persónur, aðstæður og sögur.

(2) Ímyndunarafl í skynjun. Í sögu heimspekinnar hafa nokkrir heimspekingar fjallað um ímyndunarafl í sambandi við skynjun og reynslu. Þegar Hume reynir að útskýra hvernig hinar sundurlausu skynjanir sem hann gerir ráð fyrir geti gefið okkur samhangandi mynd af heiminum gerir hann ráð fyrir að ímyndunarafl eigi þátt í því. Ef við horfum á tening til dæmis sjáum við mest þrjár hliðar á honum samtímis en við vitum af hinum þremur og skynjum teninginn sem þrívíðan hlut. Þar er ímyndunarafl að verki samkvæmt Hume.

Kant þróar hugmynd Humes um hlutverk ímyndunarafls í skynjun enn frekar og það leikur lykilhlutverk í einni mikilvægustu röksemdafærslunni í öllu kerfi hans þar sem hann reynir að sýna að orsakalögmálið hljóti að vera nauðsynlega satt þó að það sé ekki rökfræðilega nauðsynlegt. Jón minnist á þennan kafla hjá Kant þegar hann fer yfir heimspekisöguna í bók sinni og sér í honum réttlætingu fyrir áherslu sinni á ímyndunarafl (Gagnrýni og gaman, bls. 141).

(3) Ímyndunarafl er nauðsynlegt í stjórnmálum: Við verðum að geta ímyndað okkur réttlátt þjóðfélag til að geta unnið gegn óréttlæti. Nafn Friðarsúlunnar í Viðey minnir á þetta: Imagine Peace Tower. Við verðum að geta ímyndað okkur frið til að vinna gegn stríði. Í pólitísku umróti sem kennt er við árið 1968 var eitt slagorð mótmælenda „Ímyndunaraflið til valda!“

(4) Í raunvísindum er ímyndunarafl að verki. Við sjáum það til dæmis í útskýringum jarðvísindamanna á umbrotunum Reykjanesskaga. Þeir nota mælingar til að búa til mynd af því sem gerist djúpt í jörðinni; við sjáum það ekki heldur verðum við að ímynda okkur það. Út úr mælunum koma bara tölur en til að breyta tölunum í myndir af því sem gerist neðanjarðar þarf ímyndunarafl. Niels Bohr þurfti ímyndunarafl til að sjá fyrir sér atómið þegar hann setti fram módel sitt af atómi. Hugsið ykkur Alfred Wegener sem setti fram og rökstuddi landrekskenninguna áður en hægt var að sanna hana en hann gat ímyndað sér að meginlöndin hreyfðust. Hugsið ykkur líka Charles Darwin á hnattsiglingu að brjóta heilann um ýmis mynstur í lífríkinu sem hann tekur eftir. Hann þurfti ímyndunarafl til að hugsa sér hvernig þróun tegundanna útskýrði það allt.

Hér nálgumst við það ímyndunarafl sem Jón óskaði sér: Það er hæfileiki til að sjá mynstur og tengingar. Því stærra samhengi sem hægt er að setja hvert efni í því betra. Jón vill setja hugtök í víðara samhengi – aðrir vilja sundurgreina hugtök.

..5 Hugarflug og rómantík

Dæmi um hvernig Jón tekur stórt samhengi og nýjar tengingar fram yfir greiningu er í bókinni hans (Gagnrýni og gaman, bls. 87): Nemandi kemur með spurningu: Hvað er tíska? Þetta er spurning um skilgreiningu. Hún hefur sama form og spurningar Sókratesar og byrjar „hvað er“. En í staðinn fyrir að taka fyrir spurningu nemandans þá breytir hann henni og tekur fyrir annað efni sem honum finnst áhugavert af því að hann sér „dýpri möguleika“ og hann tekur upp umræðu um „persónuleg áhrif tískunnarׅ“ annars vegar og hins vegar „áhrif tísku á viðskiptalífið“.

Þetta sem Jón talar um sem ímyndunarafl er ekki fantasía heldur frekar það sem á íslensku heitir andríki og að vera andríkur: Að geta talað um fjölbreytt efni og haft skoðanir á þeim, að varpa fram tilgátum og fella ólíka hluti undir eitt hugtak, að sjá líkindi með ólíkum hlutum. Á ensku er þetta kallað wit. „Svona útskýrir orðabókin mín wit: „the ability to relate seemingly disparate things so as to illuminate or amuse“ (Merriam-Webster). Á þýsku er þetta kallað Witz. Bæði enska og þýska orðið geta líka þýtt hnyttni, fyndni eða brandari. Þessi viðleitni til að sjá stórt samhengi og leita að hærri sjónarhóli er rík í verkum höfunda sem við flokkum í rómantíska stefnu. Jón er rómantíker í þessu.

Kant fjallar ítarlega um hæfileika hugans, eða hugarkrafta eins og hann segir, í Mannfræðinni. Svona skilgreinir hann andríki eða Witz: „Andríki er að para saman óskyldar hugmyndir sem að oft eru langt frá hver annarri eftir lögmáli ímyndunar (venslum).“ (Anthropologie in pragmatischer Hinsicht, grein 54). Samkvæmt þessu er andríki gott fyrir heimspekilega hugsun til að fá yfirsýn, sjá samhengi, til að safna efni sem gagnrýnin hugsun rannsakar.

Á næstu blaðsíðu segir hann:

Það er þægilegt, vinsælt og upplífgandi að finna líkindi með óskyldum hlutum […] Dómgreind þar á móti, sem afmarkar hugtök og miðar frekar að því að leiðrétta hugtök en að útvíkka þau, er að vísu heiðruð í orði kveðnu og hvarvetna mælt með henni en hún er alvarleg og ströng og takmarkandi við hliðina á frelsinu til að hugsa og þessvegna óvinsæl. Andríkið sem ber saman er leikur en dómgreindin vinna. Andríki er blómstur æskunnar en dómgreind ávöxtur fullorðinsaldurs. (Anthropologie, gr. 54)

Kant sér dómgreind sem mótvægi við andríki: andríki útvíkkar – dómgreind afmarkar. Í bók Jóns  kemur fram að hann gerir sér grein fyrir að ímyndunaraflið sem leiðir hann þarf aðhald. Hann veltir fyrir sér hvernig megi finna jafnvægi þar sem vegast á „ímyndunarafl“ eða „flæði“ og hins vegar „gagnrýnin hugsun“ sem „heldur umræðu í vissum farvegi“ (Gagnrýni og gaman, bls. 132). Þessa jafnvægislist hafa flestir heimspekikennarar þurft að tileinka sér.

..6 Vinsældir Jóns

Jón var vinsæll kennari, um það vitna nemendur hans, foreldrar þeirra, samstarfsfólk og samferðamenn allir. Kennsla er að nokkru leyti fag sem hægt er að læra með því að tileinka sér tækni. Að nokkru leyti er þó kennsla list sem lærist af reynslu á löngum tíma og erfitt er að skilgreina. Hér er samt mín tilraun til að sundurgreina ástæðuna fyrir vinsældum Jóns.

    1. Frjálst svæði. Hann bjó til svigrúm fyrir umræða, tók frá tíma og vettvang fyrir umræðu. Bjó til dálítið frísvæði í hinu stranga skipulagi skólans fyrir frjálsa umræðu.
    2. Kveikjur. Hann kom með spurningar sínar inn í þetta rými, lagði til kveikjur.
    3. Vera með. Hann var með í ævintýrinu. Inni í skólastofu var hann í ákveðinni valdastöðu sem kennari og stjórnandi samræðunnar en um leið var hann þátttakandi í umræðu, hann var sjálfur að fílósófera, stundum jafn áttavilltur og nemendurnir.
    4. Jafningi. Hann talaði við unglinga eins og jafningja, hann kom fram við þá sem vitsmunaverur, hann spurði nemendur sína samsvarandi spurninga og hann spurði vini sína.
    5. Gleði. Hann var glaður og hláturmildur. Hann hafði smitandi hlátur og gleði breiddist út í kring um hann.

Þetta virðist mér vera helstu kostir Jóns sem kennara.

Heimildaskrá

Helskog, Guro Hansen. (2019). Philosophising the Dialogos Way towards Wisdom in Education: Between Critical Thinking and Spiritual Contemplation. Routledge, London-New York.

Kant, Immanuel. (1798). Anthropologie in pragmatischer Hinsicht. Nicolovius, Königsberg. [Ýmsar útgáfur]

Jón Thoroddsen. (2016). Gagnrýni og gaman: Samræður og spurningalist. IÐNÚ, Reykjavík.

Platon. (1983). Málsvörn Sókratesar. Í Síðustu dagar Sókratesar. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.

Róbert Jack. (2006). Hversdagsheimspeki. Háskólaútgáfan, Reykjavík.