Viðfangsefni og markmið

Viðfangsefni og markmið heimspekikennslu

Viðfangsefni

Viðfangsefni heimspekikennslu er fyrst og fremst heimspekin sjálf. Hvert markmið kennslunnar er endurspeglar hins vegar efnistökin. Ef markmið kennslunnar er að kenna nemendum um heimspeki og gefa þeim innsýn í heimspeksöguna þá er viðfangsefnið heimspekisagan sjálf. Þá geta kennsluhættirnir einnig verið fjölbreyttir en eru þó ávallt með það markmið að miðla upplýsingum og þekkingu. Ef viðfangsefni heimspekikennslu er hins vegar að efla ákveðna þætti hugsunar eða rökleikni, svo eitthvað sé nefnt, er hins vegar lögð meiri áhersla á aðferðafræði kennslunnar en minni á miðlun upplýsinga eða þekkingar. Aðferðafræðin byggir þá á hugmyndafræði heimspekinnar um hugsun og veruleika. Til að fá betur innsýn inn í þessar tvær ólíku nálganir er vert að skoða nánar viðfangsefni heimspeki almennt.

 

Þegar spurt er um viðfangsefni heimspekinnar er viðkvæðið oftar en ekki að henni sé fátt óviðkomandi. En viðfangsefni heimspekinnar birtist einna helst í aðferðafræði hennar, það er að segja, í viðleitni heimspekingsins til að rannsaka, fjalla um og skýra veruleikann. Það má þá umorða sem svo: með því að beita heimspekilegri hugsun sinni á veruleikann, eða að „fílósófera“. En hvað eigum við með því? Gottskálk Jensson, bókmenntafræðingur, bendir á að merking forngríska hugtaksins fílósófía sem hugtakið heimspeki byggir á, hefur, líkt og önnur mennigarsögulega mikilvæg orð, þróast og breyst í gegnum aldirnar.[1] Algeng skilgreining á hugtakinu er fengin frá Sókrates úr ritum Platons þar sem hugtakið er skilgreint sem „ást á speki“, eða „viskuást“.[2]

 

Í grein sinni „Af merkingarusla í heitum háskólagreina“ fjallar Gottskálk einnig um skilgreininguna á íslenska hugtakinu heimspeki. Þar kemur fram að upprunaleg merking orðsins „heimspeki“ er ekki „mesta-speki-í-heimi“ eða „speki-um-allt-í-heiminum“ eins og það er oft skilið í dag. Íslenska orðið heimspeki varð til sem tökuþýðing úr þýsku (welteisheit) eða dönsku (den verldslige visdom) og merkir „veraldarviska“ til aðgreiningar frá andans visku (sem á rætur sínar í guði).[3] Sú aðgreining á rætur sínar í kristni þar sem „veraldarviska“ er sérstakt heiti sem Páll postuli smíðaði um vísindi heiðingja, forkristinna spekinga. Heimspeki má því skilja sem veraldsarvisku, „speki-heims-þessa“ eða „þessa-heims-speki“. Viðfangsefni heimspekinnar er þannig veruleikinn sjálfur og heimspekingurinn er sá sem hefur yndi á (hvers konar) vísindum.[4]

 

Á þeim tíma, þegar heimspeki varð í fyrsta sinn að sérstakri námsgrein innan Háskóla Íslands, var orðið „heimspeki“ jafnframt notað í mun víðari skilningi en í dag. Fram yfir miðja 20. öld merkti orðið „heimspeki“ „almenn vísindi önnur en guðfræði, læknisfræði og lögfræði“[5] en með tímanum breyttist merking orðsins, í daglegu sem fræðilegu tali, og afmarkaðist við heiti einnar hugvísindagreinar, heimspeki.[6] Þannig eiga allar námsgreinar sem fjalla um „þessa-heims-speki“ eins og við þekkjum þær í dag, rætur í heimspekinni og því er hægt að fjalla um hvaða námsefni sem er með heimspekilegum hætti, allt frá myndlist, bókmenntum og stærðfræði til íþrótta. Þannig er hægt að fjalla um allar hliðar veruleikans, ólíkar námsgreinar, heimspekilega. Heimspekileg nálgun felur í sér ákveðið viðhorf til veruleikans. Viðfangsefni heimspekikennslu sem fjallar um heimspeki er fyrst og fremst heimspekin sjálf; saga hennar, heimspekingarnir sjálfir og textar þeirra. Viðfangsefni heimspekikennslu sem hefur það fyrst og fremst að markmiði að leggja stund á heimspeki (í heimspekilegri samræðu) er efling (gagnrýninnar / sjálfstæðrar / skynsamlegrar) hugsunar. Þar getur viðfangsefni heimspekinnar einnig verið að efla siðferðisvitund einstaklingsins.[7]

Markmið

Það að leggja stund á heimspeki er viðleitni til að skilja betur veruleikann, lífið og tilveruna. Heimspekileg hugsun er þá ákveðin leið til að hugsa um veruleikann. Markmið heimspekilegrar ástundunar yfir höfuð væri til dæmis í anda Platon að nálgast hið sanna, hið fagra og hið góða. Markmið heimspekilegrar ástundunar í forngrískri heimspeki, hvort sem hjá börnum eða fullorðnum, var að efla lífsgæði einstaklingins og að nálgast sannleikann, skilja veruleikan, tilveruna og lífið sjálft. Þannig eru almenn markmið heimspekinnar háleit og oft á tíðum fjarlæg eða jafnvel „ómeðhöndlanleg“. En heimspeki er fyrst og fremst ákveðin aðferð við að hugsa, að hugsa um og nálgast veruleikann með tilteknum hætti. Í heimspekikennslu eru hin háleitu markmið heimspekinnar oftar en ekki einfaldlega bundin við það að efla getu nemenda við að hugsa, hugsa á gagnrýnin, skapandi og krefjandi hátt.

 

Markmið heimspekikennslu af mörgum talið efling gagnrýninnar hugsunar og siðferðisvitundar einstaklingsins. Ef til að mynda litið er til hugmyndafræðinnar um markmið heimspekikennslu, eða heimspekilegrar ástundunar, eins og þau birtast í ritum Matthew Lipman þá eru þau fyrst og fremst þau að efla getu nemenda til að hugsa og beita hugsun sinni.[8] Það markmið mætti segja að væri sameiginlegt yfirmarkmið allrar heimspekikennslu. Nánari markmið heimspekikennslu eru hins vegar bundin viðfangsefni hennar. Hægt er að velja viðfangsefnið út frá markmiðum kennslunnar en markmið og viðfangsefni eru þannig órjúfanleg eining. rs________________________________________

Þekking og leikni

Í Aðalanámskrá grunnskóla frá árinu 2011 er heimspeki ekki að finna sem eiginlega námsgrein líkt og ensku, stærðfræði eða myndmennt. Heimspeki er hins vegar tilgreind sem hluti af siðfræðikennslu í umfjöllun um námsgreinina samfélagsfræði.[9] Þannig tilheyra markmið heimspekikennslu markmiðum samfélagsfræðikennslu. Ef litið er til markmiðslýsinga almennrar menntunar í Aðalnámskrá grunnskóla er markmið menntunar skilgreint út frá „þekkingu“, „leikni“ og „hæfni“ nemandans. Hér á eftir verða markmið heimspekikennslu skilgreind með tvennskonar hætti, útfrá þekkingu eða útfrá leikni. Þekking og leikni sameinast svo í því sem skilgreint er sem hæfni.

 

Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla er þekking „safn staðreynda, lögmála, kenninga og aðferða“ og er bæði fræðileg og hagnýt.[10] Þá er þekkingar aflað „með því að horfa, lesa, hlusta á, ræða eða með upplifun“, hún er greind með því að „ræða, flokka og bera saman“ og að lokum er þekkingu miðlað með „fjölbreyttum tjáningarformum svo sem munnlega, skriflega eða verklega“.[11] Markmið heimspekikennslu getur þannig verið að öðlast þekkingu á sögu heimspekinnar, eiginleikum hennar, hlutverki og aðferðafræði heimspekinnar, á heimspekingum og heimspekikenningum. Þannig er markmið þekkingarinnar að öðlast þekkingu á viðfangsefni heimspekinnar sem eru kenningar hennar og saga. Fyrir hvern sem ætlar sér að leggja stund á heimspeki sem fræðigrein er þessi þekking nauðsynlegur þáttur. Með þekkingaröfluninni, með því að læra að þekkja heimspekikenningar, kynnist nemandinn aðferðafræði heimspekinnar. Með því að tileinka sér aðferðafræði hennar, sbr. rökfræði, og greinandi hugsun, öðlast nemandinn leikni í beitingu heimspekilegrar aðferðafræði á viðfangsefni hennar, veruleikann, lífið sjálft.

 

Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla er leikni skilgreind sem bæði vitsmunarleg og verkleg og felur í sér að „geta beitt aðferðum, verklagi og rökréttri hugsun“.[12] Þá er leikni aflað „með notkun á aðferðum og þjálfun í verklagi“ og felur í sér greiningu „með vali milli aðferða og skipulagi verkferla“.[13] Að lokum er leikni miðlað „með því að beita vinnubrögðum, verkfærum og aðferðum mismunandi tjáningarforma“.[14] Ein leið til að þjálfa leikni nemanda er í heimspekilegri samræðu. Þekking á heimspeki er ekki nauðsynleg til þess að taka þátt í heimspekilegri samræðu. Það fer þó allt eftir eðli og markmiði samræðunnar. Heimspekileg samræða getur þannig lagað átt sér stað án þess að þátttakendur hennar beri endilega kennsl á að um heimspekilega samræðu sé að ræða. En þegar heimspekilegri samræðu er beitt sem aðferðafræði í almennri menntun þarf leiðbeinandi samræðunnar að hafa þekkingu á heimspeki til að geta borið kennsl á samræðuna sem heimspekilega og til að geta framfylgt markmiðum samræðunnar. Hvert markmið samræðunnar er fer eftir aðferðafræði hennar. Hafa verður í huga að heimspekileg samræða verður ávallt að hafa skýrt skilgreind markmið að hálfu leiðbeinanda hennar ef beita á henni sem aðferðafræði, hvort sem í heimspekikennslu eða annarri kennslu. Markmið heimspekilegrar samræðu geta meðal annars verið að þjálfa hæfni einstaklingsins til að hlusta á það sem aðrir segja, leggja merkingu í orð þeirra, tjá tilfinningar, skoðanir og hugmyndir, bera ábyrgð á orðum sínum og endurmeta tilfinningar okkar, skoðanir og hugmyndir. Einnig, að taka tillit til annarra, tilfinninga þeirra, skoðana og hugmynda, að þjálfa gagnrýna hugsun. (Sjá nánar umfjöllun um heimspekilega samræðu í Aðferðafræði heimspekikennslu)

Hæfni

Þekking og leikni sameinast í hæfni þar sem hæfni er samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla skilgreind sem sá þáttur sem felur í sér „yfirsýn og getu til að hagnýta þekkingu og leikni“.[15] Samkvæmt námskránni gerir hæfni kröfu um „ábyrðgartilfinningu, virðingu, víðsýni, sköpunarmátt, siðferðisvitund og skilning einstaklingsins á eigin getu. Einnig skiptir sjálfstraust í vinnubrögðum máli.“[16] Þá felur hæfni í sér „greiningu nemandans á eigin þekkingu og leikni með því að bera saman, finna samband, einfalda, draga ályktanir og rökstyðja. Hæfni til að greina byggist á gagnrýninni hugsun og faglegri ígrundun.“[17] Að lokum er hæfni miðlað „með margvíslegum tjáningarformum þar sem vitsmunalegri, listrænni og verklegri þekkingu og leikni er fléttað saman við siðferðilegt og samfélagslegt viðhorf einstaklingins“ og þá gefur hæfni kröfu um „sköpunarmátt, ábyrgð og virkni“.[18] Hæfni snýst þá um að leggja stund á og þjálfa hæfileika sína til víðsýni, sköpunar og siðferðistvitundar, osfrv.. Þessa hæfni má þjálfa í heimspekilegri samræðu, sérstaklega þá sem snýr að „greiningu nemandans á eigin þekkingu og leikni með því að bera saman, finna samband, einfalda, draga ályktanir og rökstyðja. Hæfni til að greina byggist á gagnrýninni hugsun og faglegri ígrundun“. Ástæðuna fyrir því er að finna í markmiðum og eiginleikum samræðunnar.

Markmið heimspekikennslu útfrá greinanámskrá grunnskóla 2013

Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla er heimspeki, eða siðfræði ásamt heimspeki, hluti af samfélagsgreinum grunnskóla.[19] Hæfniviðmið samfélagsgreina eru skilgreind út frá þrennskonar viðmiðum, það er að segja, „reynsluheimi“, „hugarheimi“ og „félagsheimi“. Reynsluheimur fjallar um „umhverfi, sögu og menningu“ og snýr að hæfni nemenda til að skilja veruleikann. Hugarheimur fjallar um „sjálfsmynd“ einstaklingsins og snýr að hæfni nemenda til að átta sig á sjálfum sér og öðrum. Að lokum fjallar Félagsheimur um „samskipti“ og snýr að hæfni nemenda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra.

 

Ef markmið heimspekikennslu eru skoðuð útfrá hæfniviðmiðum samfélagsfræðigreina þá kemur í ljós að fjölmörg markmiðanna eru heimspekilegs eðlis, þá sérstaklega þau er snúa að „hugarheimi“ nemenda. Þau markmið sem eru „heimspekilegs eðlis“ eru þannig gerð að auðvelt er að fjalla um þau með heimspekilegum hætti, með beitingu gagnrýninnar hugsunar[20], í heimspekilegri samræðu. Af þeim markmiðum sem tilheyra reynsluheimi má nefna það að bera kennsl á gildi, likt og að bera „virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, umhyggju og sáttfýsi“ (við lok 4. bekkjar) sem við lok tíunda bekkjar er orðað sem svo að nemandi geti „sýnt fram á skilning á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum, félagslegu réttlæti, jöfnuði og helgi mannlegs lífs“.[21] Það má telja harla ólíklegt að hægt sé að ná fram þessu markmiði án samræðu í heimspekilegum anda. Í hvert sinn sem markmið felur í sér að „átta sig á gildi“ eða „mikilvægi“ einhvers eða að „gera sér grein fyrir“ einhverju þarf að kryfja málefnið og gefa nemendum tækifæri til að tjá sig um efnið.

 

[1] Gottkskálk Jensson. 2010. „Af merkingarusla í heitum háskólagreina: Hugleiðing um sögu 18. aldar nýyrðanna „bókmenntir“ og „heimspeki“.“ Ritið, 10. árg., 3. tlb., s. 7-35: 28.

[2] Gottskálk Jensson. 2010: 28.

[3] Gottkskálk Jensson. 2010: 32.

[4] Gottskálk Jensson. 2010: 32.

[5] Gottskálk Jensson. 2010.

[6] Gottskálk Jensson. 2010.

[7] Sjá nánari umfjöllun um þessar tvær nálganir: Elsa Haraldsdóttir. 2010. Menntun mannsandans: um heimspekileg markmið í Aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla: 5-9. https://heimspekitorg.is/wp-content/uploads/2011/07/Elsa-Haraldsdottir_Heimspeki-i-islenskum-namskram.pdf.

[8] Lipman

[9] Aðalnámskrá grunnskóla 2011: 50.

[10] Aðalnámskrá grunnskóla 2011: 37.

[11] Aðalnámskrá grunnskóla 2011. 37.

[12] Aðalnámskrá grunnskóla 2011. 37.

[13] Aðalnámskrá grunnskóla 2011. 37.

[14] Aðalnámskrá grunnskóla 2011. 37.

[15] Aðalnámskrá grunnskóla 2011. 37.

[16] Aðalnámskrá grunnskóla 2011. 37.

[17] Aðalnámskrá grunnskóla 2011. 37.

[18] Aðalnámskrá grunnskóla 2011. 37.

[19] Aðalnámskrá grunnskóla 2011. 50.

[20] Sjá nánari umfjöllun um hugtakið gagnrýnin hugsun: Elsa Haraldsdóttir. 2013. Gagnrýnin hugsun: Einkenni hennar og hlutverk.

[21] Aðalnámskrá grunnskóla 2013: 198.