Hugmyndafræði
Hvernig vitum við hvort heimspeki eigi erindi í almennri menntun barna og unglinga? Finnski prófessorinn og menntafrömuðrinn Hannu Juuso orðar það vel þegar hann segir: til að geta svarað spurningunni hvort heimspeki eigi eitthvað erindi í almennri menntun einstaklingsins þarf að vera skýr skilningur á því hvað sé átt við með orðunum „heimspeki“, „menntun“ og „einstaklingur“.[1] Það felur í sér að þegar vega á og meta þau rök sem lögð eru fram fyrir gildi heimspeki í almennri menntun einstaklingsins þarf fyrst að sammælast um tiltekin skilning á hugtakinu menntun.
Þýski heimspekingurinn Immanuel Kant vildi meina að menntun (Bildung) fælist í að hlúa, næra og huga að barni og menningu með aga, leiðsögn og siðferðikennslu.[2] Hugmyndir okkar um það hvað felst í menntun byggir á hugmyndum okkar um einstaklinginn, manninn sem líf- og skynsemisveru. Það hvernig við skilgreinum hvað felst í því að vera manneskja afmarkar skilgreiningu okkar á menntun. Almennt er hægt að skilja hugtakið menntun með tvenns konar hætti. Fyrst má skilja það sem það að læra. Þá felst menntunin fyrst og fremst í því að öðlast kunnáttu í og þekkingu á einhverju. Í öðru lagi má skilja menntun sem það að tileinka sér eitthvað, sbr. skilgreiningu Páls Skúlasonar heimspekings á hugtakinu menntun. Menntun í þeim skilningi snýr að viðhorfi og gildum einstaklingsins en eins og Páll orðar það þá felur það í sér að verða „meira“ maður (ekki „meiri“ maður).[3] Þannig er hægt að fjalla um heimspekikennslu í tvennum skilningi: sem námsgrein og sem grunnstoð menntunar [sem er þá einnig grunnstoð farsæls lífs].
Í umfjöllun um heimspeki sem hluta af almennri menntun einstaklingsins þarf að gera greinarmun á tveimur ólíkum nálgunum á viðfangsefnið. Annaðhvort er fjallað um heimspeki sem námsgrein eða sem hluta af menntun í heild sinni. Sem námsgrein er heimspeki á meðal annarra námsgreina, s.s. tungumála, raungreina, verklegra greina osfrv. og oftar en ekki er markmiðið að læra um eitthvað tiltekið eða að öðlast þekkingu á einhverju. Seinni nálgunin er meira gildishlaðin en sú fyrri og felst í því að skilgreina heimspeki sem hluta af menntun í heild sinni, að menntun sé í eðli sínu heimspekileg. Seinni nálgunin skilgreinir hlutverk heimspeki sem nauðsynlegan eða mikilvægan hluta af almennri menntun einstaklingsins. Þá er menntun einstaklingsins skilin sem undirstaða farsældar og eitthvað sem á sér stað innan skóla sem utan.
Viðfangsefni námsgreinarinnar heimspeki er ýmist saga heimspekinnar, heimspekirit, heimspekingar og tengsl heimspekinnar við hinn hversdagslega veruleika. Sem námsgrein geta markmið heimspekikennslu ýmist verið þekking á fyrrgreindum þáttum sem og leikni við að koma þeirri þekkingu á framfæri. Það felur fyrst og fremst í því að þekkja og kunna að beita aðferðafræði heimspekinnar við að koma viðfangsefni sínu á framfæri. Líkt og hjá öðrum fræðigreinum felst aðferðafræði heimspekinnar í öguðum vinnubrögðum, námkvæmni og hlutlægni en þar sem afrakstur heimspekinnar er fyrst og fremst í formi texta felst aðferðafræði hennar í að byggja upp textann með markvissum hætti, sbr. vanda rökfærslur og framsetningu. Þannig getur markmið heimspekikennslu einnig verið að efla ákveðna þætti hugsunarinar eða „hugsunarfærni“ einstaklingsins ef svo mætti segja. Þá er lögð áhersla á verklegar æfingar einna helst í samræðuformi, heimspekilegri samræðu, þar sem nemandinn fær tækifæri til að kljást við viðfangsefni heimspekinnar í samvinnu með öðrum.
Hugmyndin að baki heimspeki með börnum byggir á hugmyndinni um heimspeki menntunar – sem fjallar um þroska mannsins frá vöggu til grafar. Hugmyndin um heimspeki með börnum reynir þannig að svara því hvernig við nálgumst markmið menntunar almennt.
Sögulegt yfirlit
Frá fornöld til nútímans
Hugmyndin um heimspeki með börnum/fyrir börn er ævaforn. Hægt er að finna umfjöllun um mikilvægi heimspeki sem hluta af lífi eða uppeldi barna allt frá fornöld, þar á meðal hjá heimspekingnum Epíkúrosi (341-270 f.kr.)[4] en hann leggur áherslu á að engin er of ungur né of gamall til að stunda heimspeki þar sem hann segir:
Megi enginn draga það að leita viskunnar þegar hann er ungur né vera of þreyttur til að leita hennar í ellinni. Því ekkert aldursár er of lágt né of hátt þegar kemur að heilsu sálarinnar. Og að halda því fram að ekki sé tímabært að leggja stund á heimspeki, eða að það tækifæri sé liðið, er líkt og að leggja til að tíminn fyrir hamingjuna sé ekki kominn eða hann sé liðinn.[5]
Hlutverk heimspekinnar er þá að efla geta einstaklingsins til að hugsa um veruleikann, þroskast og dafna. Þessi hugmynd um tengsl heimspekilegrar hugsunar og menntunar barna er einnig að finna hjá mörgum þekktum fræðimönnum síðustu alda. Þar má nefna franska heimspekinginn Montaigne (1533-1592), sem ritaði meðal annars að við fjögurra, fimm ára aldurinn ættu börn strax mjög auðvelt með að takast á við heimspekileg viðfangsefni, mun auðveldara en að læra að lesa og skrifa.[6] Samkvæmt honum er hlutverk heimspekinnar að efla getu okkar til að lifa innihaldsríku lífi og markmið þess að stunda heimspeki með börnum er að kenna þeim að hugsa sjálfstætt og lifa í nútíðinni.[7] Viðhorf Montaigne og Epikúrosar einkennist þá af því að líta á heimspeki sem frumuppalanda einstaklingsins.
Annað sjónarmið felst í því að líta á markmið heimspekinnar sem það að efla skynsemi og rökhugsun einstaklingsins. Þar má nefna enska heimspekinginn John Locke (1632-1704); ítalska heimspekinginn Giambattista Vico (1668-1744); þýska heimspekinginn Immanuel Kant (1724-1804) og þýska heimspekinginn Leonard Nelson (1882-1927). Þá var fyrsti nútíma heimspekiskólinn fyrir börn stofnaður í Þýskalandi árið 1922 af Nelson og samstarfskonu hans Minnu Specht (1879-1951).[8] Þetta sjónarmið felur í sér að vanmeta ekki getu barna til að hugsa. Locke lagði áherslu á mikilvægi þess að hafa það sjónarmið í huga og að svara spurningum þeirra með þeim hætti að það leiddi til annarra spurninga, og gefa opin svör frekar en lokuð. Locke leggur þannig uppúr viðhorfi okkar til barna, getu þeirra og hæfni. Vico er margt um líkur John Locke í hugmyndafræði sinni um heimspeki sem hluta af uppeldi barna en hann bendir á að börn búi almennt yfir rökhugsun en vanti tækin til að sýna og þjálfa þennan eiginleika. Þá leggur hann áherslu á mikilvægi þess að þjálfa almenna skynsemi (e. common sense) sem sammannlegan eiginleika.[9] Þessa hugmyndafræði má einnig finna hjá bandaríska menntafrömuðnum John Dewey (1859-1952). Dewey er menntavísindafólki vel kunnugur en í umfjöllun um hlutverk almennrar menntunar fjallaði Dewey um mikilvægi þess að þjálfa getu einstaklingins til ígrundandi og skapandi hugsunar.[10]
Samkvæmt Kant er markmið heimspekikennslu ekki að kenna um heimspeki, að öðlast þekkingu á heimspeki, heldur það að læra að hugsa sjálfstætt; að læra að beita heimspekilegri hugsun á veruleikann.[11] Nelson leggur einngi áherslu á að kenna nemendum aðferð við að hugsa. Samkvæmt honum snýst menntun ekki um að rétta fram lausnir/svör heldur að kenna leiðir til að leita lausna/svara.[12] Þriðja nálgunin felst í að horfa til upplifunar einstaklingsins. Þar má nefna danska heimspekinginn Søren Kirkegaard (1813-1855) og þýska heimspekinginn Karl Jaspers (1883-1969). Það felur meðal annars í sér að rannsaka leyndardóma lífsins, virkja ímyndunaraflið og kanna hið óvænta.[13]
Hugmyndin um uppeldislegt hlutverk heimspekinnar er órjúfanlega tengd hugmyndasögu okkar en síðustu árhundruðin hefur hún einkum tengst umfjöllun um mikilvægi upplýsingarinnar og getu mannsins til að þroskast og dafna. Gildi heimspeki með börnum felst í nauðsyn þess að læra að hugsa og þjálfa hugann, hvort sem það er til almennrar skynsemi eða heimspekilegrar hugsunar. Líkt og kom fram í umfjöllun Epíkúrosar er þetta „uppeldislega hlutverk“ heimspekinnar ekki einskorið við uppeldi barna heldur á við á öllum æviskeiðum mannsins.
Nútíminn
Þrátt fyrir að hugmyndin um heimspeki með börnum sé ævaforn er hugmyndin um markvissa ástundun heimspeki fremur nýleg eða aðeins um fjörtíu ára gömul.[14] Síðustu áratugi hefur heimspeki því orðið æ stærri hluti af starfi leik- og grunnskólans víðs vegar um heiminn. Einn helsti og eflaust þekktasti upphafsmaður heimspekikennslu með börnum, eða „barnaheimspeki“ eins og það er stundum kallað, er bandaríkjamaðurinn Matthew Lipman (1922-2010). Lipman heillaðist af heimspeki sem ungur maður í seinni heimstyrjöldinni en á meðan hann sinnti herskyldu las hann mikið af heimspekiritum. Af þeim tíma loknum ákvað hann að fylgja nýfundinni ástríðu sinni eftir og árið 1950 varði hann doktorsritgerð í heimspeki, Problems of Art Inquiry, við Colombia University. Seinna það ár fékk hann styrk til náms við Sorbonne háskóla í Frakklandi og dvaldi Lipman í tvö ár við nám í Evrópu þar sem hann kynnti sér Evrópska heimspeki. Í kjölfarið varð hann heimspekiprófessor við Columbia University og við City College of New York.
Það sem vakti áhuga Lipmans á að spyrna saman heimspeki og menntun var skortur á rökhugsun á meðal nemenda hans, og jafnvel samstarfsmanna, en taldi hann að vandamálið lægi í grunnmenntun einstaklingsins. Í kjölfarið velti Lipman fyrir sér hvort ekki væri mögulegt að efla skynsemi, víðsýni og gagnrýna hugsun hjá börnum.[15] Hugmyndir sínar um menntun sækir Lipman, að eigin sögn, til bandaríska menntafrömuðsins John Dewey. Útfrá kenningum Deweys um menntun og af hans eigin þekkingu á heimspeki taldi Lipman að með því að innleiða heimspekilega aðferðafræði í menntun einstaklingsins væri hægt að efla getu hans til sjálfstæðrar hugsunar.[16] Aðferðafræði Lipmans byggir þá á því að best sé að efla gagnrýna hugsun í heimspekilegri samræðu en lykillinn að samræðunni er einhver ákveðinn aflvaki, líkt og lestur sögu, með heimspekilegu ívafi. Lipman samdi sjálfur þematengdar kennslubækur, sérsniðnar fyrir hvern aldurshóp; fyrir fyrstu ár grunnskólans og fram á unglingsár.
Árið 1974 setti Lipman, ásamt fleirum, á fót stofnunina IAPC eða Institute for the Advancement of Philosophy for Children innan Montclaire University, New Jersey.[17] Sú stofnun ásamt samstarfsfélögum hennar um heim allan hefur frá upphafi verið einn meginaflvaki þess að kynna börn fyrir heimspeki.[18] Lipman starfaði við stofnunina frá stofnun hennar og þar til hann lést árið 2010. Þegar hugmyndafræði Lipmans fór að dreifa sér út fyrri landamæri Bandaríkjanna var ICPIC, eða International Council for Philosophical Inquiry with Children, stofnað. Hlutverk ICPIC var að vera alþjóðleg miðstöð þar sem hver sem er, hvar sem er, gæti sótt sér upplýsingar og fræðslu um heimspeki með börnum.[19] Samtökin voru stofnuð árið 1985 og á sama tíma var haldin fyrsta vinnustofan, utan Bandaríkin, fyrir kennara í heimspeki með börnum í Danmörku.[20] Einn þeirra er kom að stofnun ICPIC var Hreinn Pálsson stofnandi Heimspekiskólans.
Eins og fram kemur í stofnskrá ICPIC þá er markmið stofununarinnar meðal annars að kynna, samhæfa og dreifa rannsóknum; að skipuleggja alþjóðlegar ráðstefnur og sérstök málþing; að koma á tengslum á milli heimspekinga og kennara og annarra sem bera hag vitsmunaþroska barna fyrir brjósti sér; að koma á tengslum milli heimspekinga og kennara sem hafa áhuga og metnað fyrir því að heimspeki verði hluti af grunn- og framhaldsskólum um heim allan; að samhæfa vinnu þeirra sem vinna að innleiðingu heimspeki í námskrám grunn- og framhaldsskóla; að hvetja til stofnunar svæðisbundinna miðstöðva til að aðstoða við hönnun og framkvæmd námskeiða sem fjalla um heimspekilegar samræður með börnum; að hvetja heimspekinga til að helga sig því að viðhalda eflingu bættrar menntunar handa öllum börnum.[21] Alþjóðleg ráðstefna samtakanna hefur verið haldin um heim allan, meðal annars á Íslandi árið 1995 með Hrein Pálsson í fararbroddi.[22]
Allt frá árinu 1974, þegar fyrstu hugmyndirnar um markvissa ástundun heimspeki með börnum fór að láta á sér kræla, hafa verið gerðar ótal rannsóknir á ávinningi þess, kostum og göllum. Rannsóknirnar hafa verið eins fjölbreytilegar og þær eru margar. Töluvert af rannsóknum hafa verið unnar í Bretlandi en þar í landi er að finna margar stofnanir, samtök og einstaklinga er hafa það að markmiði að efla veg heimspekinnar í skólum. Sem dæmi má nefna The Philosophy Shop með Peter Worely heimspeking í fararbroddi. Í Svíþjóð var unnið ítarlegt rannsókn á kostum og göllum heimspekikennslu í grunnskólum á tíunda áratug síðustu aldar. Þar er jafnframt unnið að stofnun grunnskóla, Filosofiska: barnens bildning,[23] sem hefur heimspekilega aðferðafræði að aðalmarkmiði. Í Danmörku hefur verið unnið margvíslegt þróunarstarf með heimspeki í skólum og þá jafnan í tengslum við kirkjustarf. Heimspeki er hluti af almennu skólastarfi í Noregi og í Finnlandi og þar er heimspeki að finna sem hluta í Aðalnámskrá grunnskóla og heimspekileg aðferðafræði því meira og meira orðið hluti af kennaranámi í þeim löndum.[24]
Heimspeki með börnum er einnig vel þekkt í Þýskalandi og en þar hefur Barbara Brüning[25] unnið veigamikið starf í tenglsum við eflingu heimspekikennslu í almennri menntun. Í Frakklandi hefur Oscar Brenifier unnið ötulega að því að kynna heimspeki og heimspekilega samræðu sem aðferðafræði í almennri menntun. Brenifier heldur úti vefsíðu, www.brenifier.com, þar sem hægt er að kynnast hugmyndafræði hans. Hann hefur einnig samið fjöldan allan af kennslubókum sem þýddar hafa verið á fjölmörg tungumál. Þá er ástundun heimspeki með börnum að finna víðsvegar um heiminn. Sem dæmi má benda á fjöldann allan af vefsíðum sem settar hafa verið upp í mörgum löndum, líkt og Austurríki, Nýja Sjáland, Íran og Brasilíu, en einnig á skýrslu UNESCO[26] um hlutverk og stöðu heimspekikennslu frá árinu 2007.
[1] Hannu Juuso. 2007. Child, Philosophy and Education: Discussing the Intelectual Sources of Philosphy for Children. Faculty of Education, Department of Educational Sciences ans Teacher Education, University of Oulu: 25.
[2] Hannu Juuso. 2007: 37.
[3] Páll Skúlason. 1987. „Viðhorf til menntunar.“ Pælingar. Reykavík, ERGO: 305.
[4] Juuso, Hannu. 2007: 29.
[5] Laertius Diogenes II. 1979. Eminent Philosophers. Þýð. R. D. Hicks: 529-677.
[6] Montaigne, Michel Eyguem de. 1958. Essays. Þýð. J. M. Cohen. Harmondsworth: Penguin Books: 70.
[7] Juuso, Hannu. 2007: 30-31.
[8] Juuso, Hannu. 2007: 30-42.
[9] Juuso, Hannu. 2007: 32-33.
[10] John Dewey. 2000. Hugsun og menntun. Þýð. Gunnar Ragnarsson. Reykjavík, Rannsóknarstofun Kennaraháskóla Íslands.
[11] Juuso, Hannu. 2007: 40.
[12] Juuso, Hannu. 2007: 41.
[13] Juuso, Hannu. 2007: 44.
[14] OECD. 2007. Philosophy School of Freedom: 14
[15] Juuso. Hannu. 2007: 18.
[16] Juuso, Hannu. 2007: 21.
[17] Sótt þann 26. júlí 2011 af: http://cehs.montclair.edu/academic/iapc/timeline.shtml.
[18] Sótt þann 26. júli 2011 af: http://cehs.montclair.edu/academic/iapc/index.shtml.
[19] Sótt þann 27. júlí 2011 af: http://www.icpic.org/index.php?option=com_content&task=view&id=6&Itemid=2.
[20] Sótt þann 26. júlí 2011 af: http://cehs.montclair.edu/academic/iapc/timeline.shtml.
[21] Sótt þann 27. júlí 2011 af: http://www.icpic.org/index.php?option=com_content&task=view&id=6&Itemid=2.
[22] Sjá nánar: Philosophy for children on top of the world: proceedings of the eighth International Conference on Philosophy with Children, (ritstj. Hreinn Pálsson, Brynhildur Sigurðardóttir, Barbara B. Nelson). Akureyri, Háskólinn á Akureyri, 1999.
[23] Sjá nánar: www.filosofiska.nu.
[24] Sjá nánari umfjöllun um rannsóknar- og þróunarstarf í skýrslu um eflingu gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í íslenskum skólum: https://gagnryninhugsun.hi.is/wp-content/uploads/Gagnrynin-hugsun-og-sidfraedi_Lokaskyrsla.pdf.
[25] Sjá nánar: http://www.goethe.de/ges/phi/eth/en7233550.htm.
[26] Sjá nánar: http://unesdoc.unesco.org/images/0015/001541/154173e.pdf.