Hvað er heimspekikennsla?

Flutt á fundi Félags heimspekikennara 30. janúar 2013

eftir Pál Skúlason

Byrjum á að brjóta upp spurninguna. Hvað er heimspeki? Hvað er kennsla? Og hvernig tengist þetta tvennt? Kennsla getur augljóslega verið viðfang heimspeki, því heimspekin getur fjallað um hvað sem er og allt í heild sinni. En er víst að heimspeki geti verið viðfang kennslu? Ég hef verið lektor í heimspeki – sá sem les heimspeki fyrir aðra – og prófessor í heimspeki – sá sem játast heimspeki og hefur það hlutverk að breiða hana út. En eru fyrirlesturinn og það að játast faginu – annað hvort eða hvorttveggja – réttnefnd heimspekikennsla?
      Ég hef áður og af öðru tilefni fjallað um sjálfsblekkingar kennarans1 og ætla ekki að endurtaka það nema hvað ég minni ykkur á þann boðskap Martins Heidegger,sem ég legg þar út af, að það sé erfiðara að kenna en að læra. Að kenna merkir að fá fólk til að læra – kenna því að læra að læra. Kennarinn þarf að læra að láta fólk læra að læra. Spurningin er þá þessi: Hvernig má læra að láta fólk læra heimspeki?Eða er það yfirleitt hægt?
      Af því sem ég hef sagt blasir við ákveðin tilgáta: Sá sem vill læra að kenna fólki heimspeki þarf umfram allt að vera sjálfur að læra heimspeki. Ég nefni tvenns konarrök sem fela um leið í sér tvenns konar skýringar á þessu. Fyrri rökineru almenn sannindi um nám: Fólk lærir með því að líkja eftir öðrum; eftirlíkingin er mikilvægasta námsaðferðin sem sögur fara af. Guðmundur Finnbogason, helsti menntaheimspekingur okkar Íslendinga, fjallar ítarlega um þetta í doktorsritgerð sinni Den sympatiske forstaaelse og einnig í Hugur og heimur. Sá sem ætlar sér að kenna verður fyrirmynd nemenda sinna, hvort sem hann kærir sig um það eða ekki. Allt í fari, framkomu, hegðun, athöfnum, ræðu og riti kennarans getur ýmist orðið nemendum til fyrirmyndar – eða víti til varnaðar, ef nemandanum fellur alls ekki við kennarann. Val nemenda á fyrirmyndum er vafalaust að mestu leyti ómeðvitað, það er að segja þeir gera sér takmarkaða grein fyrir því að þeir eru að líkja eftir kennara sínum – hvernig hann reiknar, skrifar, segir frá, ræðir málin, kemur fram við aðra o.s.frv. Nemendur tileinka sér líka, oft án þess að gera sér minnstu grein fyrir því, hugmyndir, skoðanir og dóma sem kennari miðlar (ósjálfrátt eða af ásetningi) til þeirra þegar hann ræðir við þá, hvort heldur í kennslustundum eða utan þeirra. Það blasir því við að vilji einhver kenna heimspeki – fá fólk til að læra heimspeki – þá verður hann sjálfur að vera heppilegur efniviður til eftirlíkingar.
      Síðari rökin fyrir þeirri fullyrðingu minni eða tilgátu að sá sem vill læra að kenna heimspeki þurfi umfram allt að vera sjálfur að læra heimspeki er nátengd fyrri skýringunni. Fólk lærir að vera heimspekikennarar með því að líkja eftir kennurum sínum í heimspeki. En hér komum við að ákveðnum mun á heimspekikennara og heimspekinema. Báðir vilja nema heimspeki, það segir sig sjálft. Báðir eru sífellt að hugsa um hvað máli skipti í heimspeki. Hér er heimspekin eins og hvert annað fag á borð við læknisfræði, lögfræði eða rafmagnsfræði. Það er sama hvert fagið er: Spurningin er ævinlega hvaða aðferðir, hugtök, vinnubrögð og niðurstöður skipta máli, bæði almennt séð í faginu og þegar tekist er á við tiltekið vandamál eða verkefni. En heimspekikennarinn – svo við höldum okkur alveg við hann – verður að gera sér ljóst að hann er nemandum til fyrirmyndar um það hvernig taka skal á efninu. Þess vegna þarf hann að yfirvega vandlega hvernig hann sjálfur hefur lært og lærir heimspeki. Með öðrum orðum, hann þarf að skoða vitandi vits þær fyrirmyndir sem hann sjálfur hefur tekið mið af og hvernig honum hefur tekist að líkja eftir þeim, ef til vill mistekist það eða hugsanlega forðast að gera það.
      Þetta þurfa allir að gera sem ætla sér að sinna heimspekikennslu. Hvaða heimspekikennara hef ég litið á sem verðugar fyrirmyndir, hvers konar heimspekingar voru þeir og hvað lærði ég af þeim? Hefur mér sjálfum eða mér sjálfri tekist að iðka heimspeki í þeim anda sem ég tel að mestu skipti að aðrir temji sér eða er heimspekiiðkun mín kannski ekki nema svipur hjá sjón miðað við það sem ég hefði kosið? Samkvæmt tilgátu minni hlýtur heimspekikennarinn sem sagt að ástunda heimspeki – að öðrum kosti er tómt mál að tala um kennslu í heimspeki. Heimspekin er ákveðið fag eins og læknisfræði eða landafræði, tónlist eða pípulagnir. Hún er vissulega mjög frábrugðin þessum faggreinum vegna þess að viðfangsefni hennar er ekki gefið með sama hætti og þeirra. Ef við tökum orðið „heimspeki“ bókstaflega og segjum að viðfangsefni heimspekinnar sé heimurinn sjálfur, þá vaknar samstundis sú spurning hvað hugtakið heimur merki í þessu sambandi. Og ef við tökum orðið „viskuást“, fílosófía, bókstaflega þá vaknar líka spurningin hvað „viskan“ feli í sér, hvernig beri að skilja það hugtak. Um þetta hafa heimspekingar fjallað frá fyrstu tíð. Þeir þrá öllu öðru fremur að öðlast skilning á merkingu visku og veruleika, réttlætis og ríkis, fegurðar og fjarstæðu, ástar og illsku, náttúru og nauðsynjar, siðferðis og siðspillingar, að ógleymdum ótal öðrum orðum sem hugsun okkar nýtir sér til að nefna tök sín á þeim óskapnaði sem að henni berst gegnum skilningarvit okkar. Elstu spekingar Grikkja voru agndofa yfir margbreytileikanum og óreiðunni – hugsun þeirra beindist öll að því að nema eininguna, heildina sem gerði þeim kleift að ná utan um heiminn í huga sér, verða eitt með veruleikanum sjálfum.
      Heimspekin sem fag snýst um eitt og aðeins eitt: Að hugtaka heiminn, hinn sundraða veruleika í heild sinni. Að þessu leyti er hún frábrugðin læknisfræði eða landafræði, tónlist eða pípulögnum sem allaf beinast með miklu afmarkaðri hætti að tilteknum viðfangsefnum og verkefnum. Það gildir um öll fög og heimspeki líka að þau eiga sér sögu og hefðir sem nemandinn verður að tileinka sér og eftir því sem hann lærir meira og verður meiri kunnáttumaður í greininni þá bryddar hann vafalaust upp á nýjungum og leggur hugsanlega grunn að nýrri hefð sem verður ótal öðrum fagmönnum í greininni til fyrirmyndar. Og kunnáttumaðurinn lærir líka af öðrum, ekki aðeins fyrri frumkvöðlum í greininni, starfsfélögum sínum og jafnvel nemendum (því nemendur verða iðulega til þess að benda kunnáttumanninum á eitthvað nýtt). Hann lærir líka af áhugafólki um fagið sem sér oft hlutina frá allt öðru sjónarhorni og veitir þannig nýja og ferska sýn á úrlausnarefnið. Þetta gildir ekki síst í heimspeki bæði vegna þess að fjöldi fólks sem hefur ekki lagt skipulega stund á heimspeki sem háskólafag tekur oft þátt í heimspekilegum umræðum og ekki síður vegna þess að margir verða snemma á ævinni „náttúrulegir“ heimspekingar og fást við heimspeki án þess að hafa fengið þá þjálfun sem skipulegt nám getur veitt. Ég hef þannig leyft mér aðgreina á milli náttúrulegraheimspekingaog skólaheimspekinga; náttúrulegur heimspekingur fæst við að móta hugmyndir og hugtök um veruleikann af eigin rammleik og getur því hæglega virkað sem sérvitringur á aðra vegna þess að hann lætur hvorki aðra segja sér hvað hann á að hugsa né reiðir hann sig á svokallaða almenna skynsemi. Skólaheimspekingurinn fæst hins vegar fyrst og fremst við hugmyndir og hugtök sem aðrir hafa mótað; og fjöldi þeirra mótar aldrei eigin heimspeki að neinu gagni eða setur fram kenningar eða hugmyndir um heiminn sem sína heimspeki, heldur lætur sér nægja að segja frá eða útskýra kenningar annarra heimspekinga.
      En það er önnur ástæða fyrir því að rétt er að greina heimspeki nokkuð skarplega frá öðrum fögum. Ástæðan er sú að hún sækir að verulegu leyti viðfangsefni sín til annarra greina og sviða mannlífsins þar sem þegar hefur mótast fjölbreytt flóra hugmynda og jafnvel kenninga um hitt og þetta, ákveðin vinnubrögð og aðferðir við að fást við ákveðin mál, og jafnframt alls kyns siðir og líka ósiðir.2 Ég hallast að þeirri afstöðu Hegels að heimspekin komi ævinlega eftirá, yfirvegi þann merkingarheim og þá merkingaróreiðu sem þegar hefur mótast og skapi þar með skilyrði fyrir nýja menningarþróun. Þannig hafa vísindi og listir, trúarbrögð og stjórnmál, heimilishald og fyrirtækjarekstur, átök og deilur í samfélaginu – svo nokkuð sé nefnt – orðið heimspekingum mikilvæg umhugsunarefni og tilefni til að móta hugtök til að ná utan um hinn sundraða sögulega veruleika sem mannkynið hrærist í. Það skortir sannarlega ekki ögrandi efni til heimspekilegra pælinga í samtíma okkar – bæði hvað varðar einstök svið og það sem þar á sér stað, t.a.m. í vísindum og stjórnmálum, eða hvað varðar samspil og átök félagslegra og fjármálalegra afla í heiminum. Hver hugsandi manneskja spyr sig: Hvert stefnir heimurinn eiginlega í dag? Og heimspekingar eiga að vera virkir í því að takast á við þessa spurningu með öðru hugsandi fólki og móta eða endurmóta þau hugtök sem gera okkur kleift að hugsa veruleikann í senn sem varanleika og verðandi – svo vitnað sé til þeirra Parmenídesar og Heraklítosar.
      Stóra spurningin sem við stöndum öll frammi fyrir er sú hvort mannkyninu muni takast að samhæfa þekkingu sína og skilning á veruleikanum og móta þau kerfi sem þarf til að skipuleggja sig í lífsbaráttunni sem framundan er. Heimspekilega séð er spurningin hvaða hugtök og grundvallarhugmyndir eru mannkyninu nauðsynlegar til að takast á við þetta risaverkefni að samhæfa hugsun og hagsmuni allra jarðarbúa svo þeir geti tekist af einhverju viti á við lífsverkefni sín.
      Þetta er verkefnið sem blasir við heimspekinni. Hún á að leitast við að skýra og skerpa þær hugmyndir og þau hugtök sem mannkynið þarf á að halda til að finna sameiginlegar forsendur til að hugsa heiminn og takast á við vandamál sín og sigrast á þeim. Þessar forsendur eru í senn frumspekilegar, þekkingarfræðilega og siðferðilegar – og við vitum í grófum dráttum hverjar þær eru af því að menn hafa fengist við að greina þær öldum saman. Þessar forsendur lúta að hinni andlegu vídd veruleikans þar sem manneskjurnar leitast viðþroskast sem hugsandi verur og öðlast dýpri skilning á sjálfum sér og veröldinni.
      Um þetta snýst iðkun og kennsla heimspekinnar og hefur alla tíð gert, þótt heimurinn hafi tekið mörgum stökkbreytingum rétt eins og stofnfrumurnar í líkama lifandi vera. Og að sjálfsögðu hefur iðkun heimspekinnar tekið breytingum og kennslan þá líka. En rétt eins og heimurinn er sá sami í dag og fyrir 2500 árum og rétt eins og stofnfrumurnar endurnýja sig stöðugt á nokkra vikna fresti, þá er heimspekin líka ein og söm með síbreytilegum tilbrigðum og ófyrirsjáanlegum stökkbreytingum. Sá sem fer að stunda heimspeki rekur sig endalaust á það að aðrir hafa þegar hugsað þær hugsanir sem hann upplifir með sjálfum sér sem óvæntar – og að hann fær nýja hugmynd sem hann finnur svo hjá Platon eða Descartes.
      Ég veit að það hefur verið lenska í ákveðnum hópi fræðimanna og skálda alveg frá dögum þeirra Sókratesar, Platons og Aristótelesar að skopast að viðleitni heimspekinganna. Og hér komum við að merkilegu atriði sem einnig greinir heimspeki frá öðrum fögum, því það skopast fáir að læknisfræði, tónlist eða eðlisfræði. Þetta skop er ekki alltaf saklaus kímni, heldur beinlínis árás á heimspekina einkum og sér í lagi fyrir það að ætla sér eitthvað sem hún getur ekki, nefnilega að færa mannkyni á silfurfati frumspekilegar, þekkingarfræðilegar og siðfræðilegar forsendur fyrir mannlífinu – ekki síst vísindum og listum, stjórnmálum og efnahagskerfum. Heimspekingar hafa alla tíð verið viðkvæmir fyrir þessari gagnrýni, ekki síst vegna þess að hún kemur oft úr þeirra eigin röðum, það er að segja frá fræðimönnum sem hafa numið heimspeki og segjast jafnvel vera að stunda heimspeki – en gera það með því að ráðast gegn heimspekiskrifum og kenningum eldri heimspekinga og telja þá hafa verið á algjörum villigötum.
      Kenningar Sókratesar, Platons og Aristótelesar hafa svo dæmi sé tekið verið allar tættar sundur og saman og afskrifaðar sem öldungis úrelt speki. Samt er það óumdeilt að það eru þessir menn sem lögðu öllum öðrum fremur grunn að þeirri heimspekihefð sem hefur gegnsýrt vestræna menningu og lagt í öllum meginatriðum grunn að því hugmynda- og hugtakakerfi sem hefur haldið utan um veruleikann fyrir okkur í aldanna rás og gerir enn. Vissulega hafa hugmyndir úr heimi Gyðinga, Rómverja og Araba líka haft sín áhrif – og við skulum heldur ekki gleyma því aðhugmyndaheimur Grikkjanna á sér djúpar rætur í menningarheimum Egypta, Persa og Indverja sem blómstruðu löngu áður en forngrísk menning reis með sínum glæsta brag á 4. og 5. öldinni fr. Kr.

Ef við horfum til baka og spyrjum okkur um helstu fyrirmyndir heimspekinga síðustu 2500 árin á Vesturlöndum til þessa dags, þá blasir við öllum að það eru þeir Sókrates, Platon og Aristóteles. Öll iðkun heimspeki og þar með öll heimspekikennsla á miðöldum, á nýöld og síðan á 19. og 20. öld ber vitni um þetta. Öll kennsla í heimspeki í háskólum hvarvetna í heiminum tekur nú á dögum mið af hinni vestrænu heimspekihefð um leið og aðrar fornar hugsanahefðir fá einnig verðskuldaða athygli.
      Þegar við hófum að kenna heimspeki hér við Háskólann árið 1972 þá höfðum við Þorsteinn Gylfason þetta báðir í huga. Við vorum ekki sammála um allt, en um þetta var enginn ágreiningur. Og við vorum líka algjörlega sammála um það að heimspekin væri fag sem hefði hugar-tök okkar á veruleikanum að viðfangsefni. Og þegar við kynntumst Mikael M. Karlssyni ári síðar þá sáum við strax að hann var sama sinnis; og það sem meira var, hann kunni að kenna rökfræði sem við Þorsteinn höfðum hins vegar hvorugur stúderað í því skyni að kenna. Svo bættist Arnór Hannibalsson í hópinn og fleiri og fleiri sem allir voru sammála um mikilvægi hinna þriggja fornu risa í grískri heimspeki. Heimspekikennsla í Háskóla Íslands hefur því byggt á þessum gríska grunni og þeirri hefð sem þróast hefur á Vesturlöndum.
      Þegar við ætlum núna að pæla skipulega í heimspekikennslu á Íslandi – og ekki aðeins í Háskólanum, heldur líka í grunn- og framhaldsskólum, þá eigum við tvímælalaust að rannsaka sérstaklega þessar grunnfyrirmyndir heimspekinnar – Sókrates, Platon og Aristóteles – og hvernig síðari tíma heimspekingar hafa líkt eftir þeim eða hugsanlega reynt að móta hugsun sína beinlínis í andstöðu við þá.
      Og nú gæti komið hér langur kafli í lestrinum þar sem ég myndi rekja söguleg dæmi um það hvernig merkir heimspekingar hafa tekið sér afstöðu þeirra, aðferðir og kenningar beinlínis til fyrirmyndar – og þessi greining gæti ugglaust orðið ykkur heimspekikennurum gagnleg í því skyni að yfirvega ykkar eigin fyrirmyndir og skilja betur hvernig þið sjálf iðkið heimspeki og kennið. – Ég myndi nefna skólana sem mótast beinlínis undir áhrifum frá Sókratesi – stóuskólann, efahyggjuskólann, epikúrlærdómana. Ég minni sérstaklega á heilagan Tómas og Vilhjálm frá Occham. Og svo koma þeir Descartes, Leibniz og Spinoza og til hliðar við þá Berkeley, Locke og Hume – að ógleymdum Hobbes sem er stórkostlegur heimspekikennari á sinn hátt – og svo mætti lengi telja. Og svo eru það allar konurnar sem stunduðu heimspeki og hafa ekki fengið þann sess sem þeim ber í sögunni.

Að iðka heimspeki felur í sér viðleitni til að fá aðra til hugsa heimspekilega með sér – en þar með er ekki sagt að það sem kallast „heimspekikennsla“ sé alltaf eiginleg iðkun heimspeki. Ég minni á það sem ég nefndi í upphafi, að kennsla getur verið viðfang heimspeki – en hitt er annað mál hvort heimspekin geti verið viðfang kennslu. Af því sem ég hef nú sagt blasir við að svo getur ekki verið nema þá að kennslan sjálf feli í sér iðkun heimspeki. Að spyrja hvað sé heimspekikennsla er í raun að spyrja hvað það sé að iðka heimspeki. Og nú erum við loksins farin að nálgast viðfangsefni þessa fyrirlestrar – og látum þá alveg liggja milli hluta hvort hann geti sjálfur flokkast undir heimspekikennslu – það er hvort ég hafi til þessa verið að iðka heimspeki eða ekki. Héðan í frá ætla ég allavega að haga mér eins og ég væri heimspekikennari og leggja fyrir ykkur ákveðið heimaverkefni.

Verkefnið er að yfirvega ykkar eigin heimspeki – heimspekiafstöðu, aðferðir, hugmyndir, kenningar og grundvallarhugtök – og spyrja ykkur sjálf af hverju og til hvers þið leggið stund heimspeki og viljið kenna heimspeki. Heimaverkefnið er í þremur hlutum, en því fylgja nokkrar leiðbeiningar um það hvernig það skuli vinna og ég ætla að ljúka þessum lestri með því að rekja þær.
      Fyrsti hlutinn felst í því að þið ímyndið ykkur að þið séuð Sókrates og iðkið heimspeki í hans anda, síðan að þið séuð Platon og svo loks Aristóteles. Þegar þið eruð búin að gera þetta skuluð þið gera upp við ykkur hverjum þessara þriggja heimspekinga þið viljið helst líkjast og taka ykkur til fyrirmyndar.
      Ég legg til að við stöldrum við og íhugum þennan fyrsta hluta verkefnisins: Hverjir fylgja Sókratesi, hverjir Platon og hverjir Aristótelesi?

Annar hluti verkefnisins felst síðan í því að greina hvað er líkt og ólíkt með heimspekikennslu sem stunduð er í anda hinna þriggja fyrirmynda. Hér þarf að spyrja tveggja spurnings. Að hvaða leyti er heimspeki þeirra frábrugðin? Og að hvaða leyti má segja að það sé í senn togstreita og samfella á milli þeirra?
      Ég er ekki að mælast til þess að þið leggist í heimspekisögulegar rannsóknir (það gæti samt verið gagnlegt!), heldur bið ykkur að kanna hvernig þeir Sókrates, Platon og Aristóteles eru þegar að verki í hugum ykkar sjálfra – hvernig þeir tala til ykkar þegar þið eruð að fást við heimspeki og jafnvel hvernig þeir hugsanlega myndu gagnrýna ykkur eða hrósa ef þið gætuð gefið þeim tækifæri til þess!
      Til að koma ykkur á sporið skal ég segja ykkur örlítið frá því hvernig þeir haga sér í mínum huga þessa dagana. Ég bendi ykkur á að þeir kunna að haga sér með öðrum hætti í ykkar huga, því þeir eiga sér hver fyrir sig margar raddir og tala alls ekki eins til allra og alls ekki alltaf eins til sama mannsins. (Platon hefur t.d. nýlega talað til mín með svo óvæntum hætti að ég hreinlega hrökk við og er ekki samur síðan.)
      Sókrates er í mínum huga sá sem sífellt spyr og efast og gagnrýnir alls kyns losaralegar hugmyndir og kenningar sem haldið er á lofti um hin og þessi efni þar sem skilningur á hugtökunum er það sem skiptir. Hann er hin gagnrýna hugsun holdi klædd sem krefst þess að málin séu brotin til mergjar í samræðum sem hugsanlega leiða ekki til niðurstöðu annarrar en þeirrar að það þurfi að hugsa málin betur, skýra og skerpa hugmyndirnir, fága kenningarnar um það hvað mestu skiptir.3 Hver manneskja er ábyrg fyrir sinni sál og það er beinlínis siðleysi að vanrækja hana með því að hugsa ekki um það sem mestu skiptir, heldur eltast endalaust við veraldargæði – „á vel tyrfðum bundinn bás/ baula eftir töðumeis“, eins og Grímur Thomsen orti.4 Á hinn bóginn er Platon í mínum huga sá sem leitast af alefli við að hugsa veruleikann í heild sinni, fanga alheiminn í orð sem opinbera einingu hans, fegurð og óumræðilegan stórkostleika. Hann stefnir heimspekinni á vit eilífðarinnar og hins varanlega handan glundroðans sem ríkir í mannheimi. Réttlætið og fegurðin, sannleikurinn og samhengi allra hluta – þetta á heimspekin að hug-taka og þetta getur hún höndlað og látið birtast fyrir hugarsjónum okkar, ef og þegar okkur tekst að iðka heimspeki af þeirri einlægni og þeim heilindum sem hún krefst.
      Loks er Aristóteles sá sem heldur öllum hugtökunum til haga, skipuleggur, flokkar og greinir alla hluti og veruleikann sjálfan á kerfisbundinn hátt. Aristóteles vísar stöðugt í reynslu okkar og lífsbaráttu, tekur mið af öllum þeim fróðleik sem aðrir hafa safnað og lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Hann er hinn jarðbundni, raunsæi hugsuður sem ætlar sér ekki um of, heldur byggir á almennum viðhorfum síns tíma um leið og hann leitast við að móta skynsamlega hugsun um tilveruna. Sennilega hefur Aristóteles átt drýgri þátt í að móta heimspekilegar hugmyndir og hugtök síðari tíma en nokkur annar heimspekingar.

Þriðji og síðasti hluti heimaverkefnisins er sá að skrásetja niðurstöður ykkar og senda þær til þess heimspekilega vinar ykkar sem þið treystið best til að hjálpa ykkur til að undirbúa kennslu ykkar næsta vetur. Sjálfur hvet ég ykkur til að yfirvega hverju sinni hvaða heimspekilegu afstöðu þið teljið heppilegasta bæði eftir því hvað þið ætlið að fjalla um og hver nemendahópurinn er á þessu eða hinu námskeiðinu. Þið skuluð heldur aldrei gleyma því að kennsluefni ykkar – það sem þið raunverulega miðlið til nemenda ykkar – eruð þið sjálf: hugsanir ykkar, framkoma, tilfinningar, þekking, kunnátta, siðir, gildi og hugmyndir … allt sem þið eruð sjálf. Þið eruð fyrirmyndirnar sem flestir nemendanna tileinka sér og taka mið af í lífi sínu, námi og starf.

Þið lögðuð fyrir mig ákveðna spurningu: Hvað er heimspekikennsla? Svarið er þetta: Heimspekikennsla er miðlun þeirrar heimspeki sem kennarinn hefur tileinkað sér og endurmótað með eigin hugsun. Kennari kennir ævinlega sjálfan sig – og hugsanlega ekkert annað.

Páll Skúlason

Neðanmálsgreinar

1. „Sjálfsblekkingar kennarans“, í Pælingum II, Reykjavík 1989, bls. 127-137.

2. Aðrar greinar sækja iðulega hugmyndir, aðferðir og jafnvel kenningar til annarra greina en ekki viðfangsefni sín. Og það gerir heimspekin líka að vissu marki. Hitt er ekki síður algengt að menn noti aðferðir sem heimspekin hefur þróað í öðrum greinum. Raunar er það óumdeilt að margar aðrar fræðigreinar eru sprotttnar af heimspekiiðkun – það er hreinni þekkingar- og skilningsleit þar sem athyglinni er beint að ákveðnum hugtökum. Aristóteles er hér hinn mikli lærimeistari: rökfræði, sálarfræði, eðlisfræði, skáldskaparfræði, grasafræðin og fleiri greinar eiga sér rætur í rannsóknum hans og rökræðum við nemendur sína þar sem greining hugtaka situr í fyrirrúmi.

3. Samræðan Lakkes er eitt besta dæmið um þetta.

4. Sjá kvæðið „Fjóstrú“.