Í almennum hluta aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla 2011 er í fyrsta sinn gerð grein fyrir grunnþáttum í íslenskri menntun. Þeir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Á öðrum fræðslufundi Félags heimspekikennara ræddi Erla Karlsdóttir um skýrslu sem hún vann síðastliðið sumar „Um stöðu námsbóka Námsgagnastofnunar gagnvart sex grunnþáttum menntunar.“
Markmið Erlu var að skoða þær námsbækur sem nú þegar eru notaðar í kennslu, leita að grunnþáttunum í þeim og meta hversu vel fallnar þær væru til að miðla þeim. Að hluta til var verkefni Erlu fólgið í því að gera það sem aðalnámskrá býður kennurum og skólastarfsfólki að gera, þ.e. að innleiða grunnþættina inn í skólastarfið með því að horfa gagnrýnum og skapandi augum á starfið í heild sinni, viðhorf, vinnubrögð, námsumhverfi og námsefni. Erla benti á að mikil áhersla væri lögð á gagnrýna hugsun í aðalnámskrá og að allir grunnþættirnir ættu rætur sínar að rekja til gagnrýninnar hugsunar. Auk þess sem það að virkja gagnrýna hugsun nemenda ætti að vera hluti af lýðræðismenntun þeirra. Hún velti því hins vegar fyrir sér hvort umfjöllun um hvað felst í gagnrýninni hugsun væri nægileg í aðalnámskrá.
Erla skýrði frá því að í samvinnu við Námsgagnastofnun hefði hún lagt upp með að skoða íslensku, stærðfræði og samfélagsgreinar og miða við svokallað kjarnaefni á unglingastigi. Hún tók síðan dæmi af því hvaða fög virtust við fyrstu sýn henta helst til kennslu á hverjum grunnþætti fyrir sig, sbr. móðurmálskennsla og læsi, sagnfræði/þjóðfélagsfræði og jafnrétti eða lýðræði og mannréttindi, íþróttir og heilbrigði og velferð, náttúrufræði og sjálfbær þróun, en víkkaði síðan sjónarhornið út í það t.d. hversu mikilvægt er að vera læs í víðum skilningi þess orðs t.d. í sambandi við tölur og stærðfræði, launþegi þarf að vera læs á launaútreikning og prósentureikningur kemur sér vel á útsölutímabili en einnig þarf fólk að vera læst á umhverfi sitt og hin lýðræðislegu ferli samfélagsins.
Erla tók síðan afstöðu til þess hvar námsbækur miðluðu grunnþáttum vel og illa. Hér er ekki rými til að taka mörg dæmi um það en nokkuð vel virtist takast til, að hennar mati, í stærðfræði og landafræði ef hugað er að umfjöllun um læsi, sjálfbæra þróun og jafnvel sköpun. Nokkuð áberandi var að sögukennsla spannaði ekki hugmyndir um jafnrétti eða lýðræði og mannréttindi þar sem líklega væri einna hentugast að kenna þá þætti. Kynjahlutfall er mjög ójafnt í sögubókum fyrir þetta aldurstig og öll umfjöllun um margbreytileika mannlífsins af skornum skammti.
Erla tók einnig dæmi um hvar reyndi á gagnrýna hugsun kennarans og mikilvægi þess að hann stuðlaði að gagnrýninni afstöðu til texta og tók í því samhengi dæmi af smásögu eftir Þórberg Þórðarson úr Mályrkju I sem ber heitið „Fyrsta lyfting mín“ og fjallar um tvo vini sem sofa til skiptis hjá konu úti í kirkjugarði. Án þess að það væri tiltekið virtist þar vera um vændiskaup að ræða, en engin tilraun gerð til þess að velta upp gagnrýnum spurningum um efnið. Erla velti fyrir sér hvort slíkir textar ættu raunar heima sem kennsluefni fyrir áttunda bekk, sérstaklega þar sem kennsluleiðbeiningar útskýrðu ekki hvaða tilgangi slík saga ætti að þjóna.
Miklar umræður spunnust á fyrirlestri Erlu, um bæði framkvæmd og um eftirfylgni þessara grunnþátta aðalnámskrár. Erla sagði að fyrirheitin væru fögur en framkvæmdin flóknari og tóku nokkrir undir það. Hvernig eiga kennarar og skólastjórnendur að breyta og bæta, hvernig er skólabragurinn og hversu mikið rými er innan stofnunar sem erfitt er að skilgreina sem lýðræðislega í stjórnskipun sinni til þess að opna á gagnrýna hugsun og lýðræðisleg vinnubrögð. Felst grundvöllur lýðræðis í einstaklingsbundnum viðhorfum eða formlegri umgjörð? Er hugarfarsbreyting nægileg, þarf að breyta skipulaginu, aðferðunum, umhverfinu? Kannski er áhugavert fyrir heimspekikennara að velta einni spurningu fyrir sér í kjölfarið: Er nægilegt að (heimspeki) menntun hjálpi nemendum að tjá tilfinningar sínar og skoðanir, með því að þjálfa þá í að setja fram eigin afstöðu og rökstyðja hana ef þeir hafa ekki möguleika til að hafa raunveruleg áhrif á samfélag sitt, skólasamfélagið?
Þóra Björg Sigurðardóttir