Siðasúpan: skilaboð til þeirra sem sitja í súpunni
Fyrirlestur Mikaels M. Karlssonar, prófessors, á vegum Siðfræðistofnunar og Heimspekistofnunar föstudaginn 1. mars 2013 kl. 15 í Lögbergi 103
Siðfræði er greinandi heimspekileg umfjöllun um siðferði. En hvað er siðferði? Um það er engin ein viðtekin skoðun heldur ýmsar ólíkar skoðanir, margar þeirra vanhugsaðar eða byggðar á misskilningi að því er virðist. Einnig eru nokkrar ólíkar siðfræðikenningar eða tegundir kenninga sem greina og lýsa siðferði—rótum og kröfum þess—með ólíkum hætti. Hér eru oft nefndar til sögunnar kenningar um dygðir í anda Aristótelesar, leikslokakenningar í anda Epikúrosar, Johns Stuarts Mill og fleiri, skyldukenningar í anda Kants, tilvistarkenningar í anda Kierkegaards, Sartres og annarra, og samræðukenningar í anda Habermas og fleiri. Hvernig passa allar þessar kenningar saman? Eru sumar þeirra vitlausar og aðrar réttar? Eru einhverjar þeirra smættanlegar í aðra? Fjalla þær allar um sama efnið? Eða er „siðferði“ margrætt hugtak þannig að hver kenning um sig fjallar um siðferði í einum skilningi en ekki um siðferði í öðrum skilningi? Hvaða tök hafa kröfur siðferðisins á okkur og hvers vegna eru þær svona mikilvægar? Eða eru þær í raun mikilvægar? Er siðferðileg rökhugsun samleiðandi (e. convergent) eða margleiðandi (e. non-convergent)? Er yfirleitt hægt að fjalla almennt um siðferði? Eða er siðferði einhverskonar súpa sem siðfræðikokkurinn reiðir fram hverju sinni í ljósi þess sem er til í búrinu? Lesturinn er hugvekja um mikilvægi þess að hugsa um eðli—eða eðlisleysi—siðferðisins og um leið um tilgang siðfræðinnar.