Safn heimspekilegra spurninga

Í bók Jostein Gaarder Halló! Er einhver þarna? segir frá geimverunni Mika sem hneigir sig fyrir öllum spurningum. Mika segir við vin sinn Jóakim sem býr á jörðinni:

Heima hjá mér hneigjum við okkur alltaf þegar einhver spyr skemmtilegra spurninga… Og því merkilegri sem spurningin er þeim mun dýpra hneigjum við okkur… Maður hneigir sig aldrei fyrir svari… Sá sem hneigir sig er að beygja sig, sagði Mika. – Þú átt aldrei að beygja þig fyrir svari… Svar tilheyrir alltaf því liðna. Það eru bara spurningarnar sem vísa fram á veginn. (Bls. 35-36 í Gaarder, J. (1996). Halló! Er einhver þarna? Reykjavík: Mál og menning.)

Heimspekin elskar spurningar og margar af æfingunum sem finna má í Verkefnabanka Heimspekitorgsins ganga út á að kynna heimspekilegar spurningar fyrir nemendum. Guðrún Hólmgeirsdóttir kennari við Menntaskólann í Hamrahlíð hefur safnað saman spurningum nemenda sinna og þær má skoða hér. Hér að neðan gefum við fleiri sýnishorn af spurningum sem hægt er að fást við í heimspekitímum.

Margar af spurningunum eru ættaðar af Vísindavef Háskóla Íslands en aðrar koma úr ýmsum áttum, meðal annars frá heimspekinemendum og heimspekikennurum á Íslandi.

Hvað þarf maður að gera til að lifa góðu lífi?

Hvað er ást?

Er gott eða slæmt að vera forvitinn?

Myndir þú skipta á raunverulegu lífi og fullkomnu lífi sem væri bara draumur?

Getur vond manneskja verið hugrökk?

Hvað er tónlist?

Hvað vildir þú helst vera ef þú mættir bara velja eitt: falleg, gáfuð eða rík?

Hvað er persóna?

Getur þú átt það skilið að vera sá/sú sem þú ert?