Heimspeki og kvikmyndir

Heimspeki og kvikmyndir er kennslubók eftir Arnar Elísson til nota í heimspeki á framhaldsskólastigi . Áfanginn sem hún er lesin í hefur verið kenndur í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ síðastliðin þrjú ár og notar kvikmyndir sem kveikjur og kennsluefni til þess að fjalla um heimspekileg viðfangsefni, siðfræðileg álitamál, fagurfræðileg þemu og gagnrýna hugsun. Kennslufræði áfangans felur í sér að nýta möguleika kvikmyndamiðilsins til þess að framsetja siðfræði, fagurfræði og kennslu gagnrýnnar hugsunar á nýjan og skemmtilegan máta sem endurspeglar þá miðla sem eru mest notaðir í dag af nemendum á framhaldsskólastigi. Bókin Heimspeki og kvikmyndir á að endurspegla þessa sýn og vera aðgengileg nemendum rafrænt þeim að kostnaðarlausu þar sem þeir geta skoðað, lesið og lært gagnvirkt með þeim tækjum sem þeir kjósa og hafa aðgang að. Bókin nýtir myndbrot, hljóð, texta og myndir til þess að tengja áhugaverðar kvikmyndir við allt frá kenningum Sókratesar til Immanuel Kant. Nemendur geta lesið texta og horft á myndbrot sem tengjast þeim á sama tíma, tekið gagnvirkt sjálfspróf í lok hvers kafla og skrifað glósur jafnóðum og þeir lesa. Markmiðið er að styrkja sjálfstæði nemandans og tengja efni áfangans við raunveruleg og hagnýt dæmi í því samfélagi sem hann býr í. Bókin á að gera nemandann hæfan til þess að takast á námsefni áfangans og vinna að verkefnum í leiðsagnarmati skólans. Bókin er hönnuð fyrir iPad spjaldtölvur og eru gagnvirkir þættir hennar gerðir með þessa gerð spjaldtölva í huga. Einnig er bókin gefin út í öðrum útgáfum, sem PDF skjal og ePUB textabók, án gagnvirka hlutans, þar sem hægt er að lesa hana á öllum tölvum, spjaldtölvum og flestum símum.