Heimspekikaffi í Gerðubergi 17. apríl, kl. 20: Líf | Dauði

Heimspekikaffi í Gerðurbergi 17. apríl, kl. 20: Líf | Dauði

Viðhorf til lífs og dauða verða í brennidepli á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 17. apríl. Gunnar Hersveinn heimspekingur og Bjarni Randver Sigurvinsson guðfræðingur efna til umræðu um líf og dauða út frá mörgum og stundum óvæntum sjónarhornum.

„Lífið er undirbúningur fyrir dauðann,“ sagði Sókrates forðum en hvað átti hann við? Hver er afstaða austrænna trúarbragða til dauðans t.d. hindúisma og búddisma? Hvernig birtist afstaða manna til dauðans í útfararsiðum? Hvaða merkingu leggja einstök trúarbrögð í dauðann? Er hægt að segja að sérhver siður svari því með skýrum hætti eða gefi mörg svör við ráðgátunni um dauðann?

Heimspekikaffið hefur verið á dagskrá Gerðubergs frá því haustið 2011 og hefur notið mikilla vinsælda. Þar er viska kaffihúsagesta lokkuð fram með lifandi umræðu. Eftir inngang frummælenda hefjast skemmtilegar umræður við hvert borð út frá efni kvöldsins og síðan er leitað eftir innleggi gesta. Margir hafa fengið gott veganesti eftir kvöldin eða a.m.k. eitthvað til að íhuga nánar og ræða heima eða á vinnustað sínum.

Bjarndi Randver Sigurvinsson

Bjarni Randver Sigurvinsson er guðfræðingur og stundakennari við Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað bókina Trúfélagið Krossinn og ritstýrt bókinni Guð á hvíta tjaldinu: Trúar- og biblíustef í kvikmyndum.

Gunnar Hersveinn hefur tekið virkan þátt í samfélagsumræðunni til margra ára og skrifað bækur um gildi lífs og þjóðar. Þær heita Gæfuspor – gildin í lífinu, Orðspor – gildin í samfélaginu og Þjóðgildin – sprottin af visku þjóðar. Hann hefur jafnframt gefið út ljóðabækur, nú síðast ljóðaumslagið Sjöund. Gunnar Hersveinn hefur einnig starfað sem blaðamaður og hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir greinaskrif og framlag sitt sem samfélagsrýnir. Þeir sem vilja kynna sér verk Gunnars er bent á heimasíðuna www.lifsgildin.is.