Viðtal við heimspekikennara: Ylfa Björg Jóhannesdóttir

Í október 2012 tók Heimspekitorgið viðtal við Ylfu Björg Jóhannesdóttur, heimspekikennara við Landakotsskóla í Reykjavík.

Spurning 1: Hvernig er heimspekin byggð inn í skólastarfið í Landakotsskóla? 

Ylfa Björg: Heimspekin er sérgrein í Landakotsskóla og skólaárið 2012-2013 er hún kennd í 5 ára bekk 1x í viku, 3. bekk 2x í viku, 5.bekk 2x í viku í hringekju yfir skólaárið, 6. bekk 2x í viku, 7. bekk 2x í viku og 9. bekk 2x í viku. Heimspeki er einnig tvinnuð saman við íslenskukennslu 1x í viku og samfélagsfræðikennslu 3x í viku í 5. bekk og samtvinnuð af og til samfélagsfræðikennslu í 7. bekk 2x í viku.

Spurning 2: Hvaða markmið setur þú/þið nemendum í heimspekináminu? Er áherslan á að kynnast ákveðnum spurningum/hugmyndum eða á hugarfærni/sköpun/vinnubrögð?

Ylfa Björg: Markmiðið er að þjálfast í sókratískri samræðu, efla rökleikni og gagnrýna hugsun. Efla samvinnu með því að hugsa saman og siðferði með því að bera saman hugmyndir sínar við bekkjarfélaga sína, vinna með hugtök og andstæður. Læra að finna muninn á heimspekilegum spurningum og staðreyndaspurningum og þeim spurningum sem hægt er að líta á sem bæði heimspekilegar og staðreyndalegar og vinna með þær í samræðunni. Efniviður samræðunnar er ýmiss konar en við vinnum aðallega með heimspekileg hugtök eins og frelsi, drauma, veruleika, jafnrétti, réttlæti, vináttu, tungumálið, hugsunina, sálina, uppruna fyrirbæra svo fátt eitt sé nefnt. Út frá þessum hugtökum læra nemendur að fást við klassísk heimspekileg vandamál úr heimspekisögunni á sinn hátt og mín reynsla er sú að nemendur koma oftar en ekki sjálfir með hugmyndir heimspekinganna ýmist út frá spurningum sínum eða svörum, það er alltaf einhver Aristóteles, Kant eða Nietzsche í hópnum. Ég legg því meiri áherslu á heimspekileg hugtök og spurningar nemenda sjálfra um hugtökin. Þá geta þeir myndað hugmyndir saman út frá samræðunni.

Spurning 3: Hvaða námsefni notar þú/þið?

Ylfa Björg: Námsefnið sem ég nota er margskonar. Oftar en ekki þarf ég að búa til námsefnið sjálf eða fá krakkana til að búa til námsefnið í formi spurninga og athugasemda. Ég hef lært margt af öðrum heimspekikennurum eins og Brynhildi Sigurðardóttur, Jóhanni Björnssyni, Ármanni Halldórssyni, Jóni Thoroddsen og Hreini Pálssyni. Ég reyni að viða að mér námsefni og kennsluhugmyndum af netinu og er á póstlista hjá Jason Buckley. Ég nota bækur sem gefnar hafa verið út fyrir heimspeki í grunnskólum: Uppgötvun Ara, Valur, Hugrún, Veröld Soffíu. En ég nota líka ýmsar æfingar sem ég hef lært í heimspekismiðjum bæði hérlendis og erlendis. Þannig að námsefnið er samsuða úr mörgum áttum. Ég hef verið að læða inn ritgerðum um heimspekinga og hugmyndir þeirra á unglingastiginu. Þá geta nemendur aflað sér upplýsinga á skólavefnum en þar er ágætis yfirlit yfir heimspekisöguna ásamt verkefnum en einnig á vísindavefnum og á wikipaedia. Ég nota líka ritunarverkefni um þeirra eigin vangaveltur sem þjálfa nemendur í að setja hugmyndir sínar í orð.

Í 5 ára bekk hef ég stuðst við ævintýri og sögur og unnið með boðskapinn úr þeim, ýmist með því að teikna og skoða saman teikningarnar eða leira. Áherslan er á að læra að hugsa saman og skapandi hugsun. Ég prófaði sápukúluverkefnið hans Hreins og það sló í gegn. Krökkunum fannst gaman að búa til myndir með því að nota sápukúlur og matarlit, blanda saman grunnlitunum og fá mismunandi liti út. Svo í næsta tíma skoðuðum við myndirnar og nemendur sögðu hvað þau sáu út úr myndunum og það vakti mikla lukku. Þá lögðum við áherslu á að einn talaði í einu og hinir æfðu sig í að hlusta á meðan. Ég hef unnið mikið með Margréti bekkjarkennara 5 ára bekkjar um val á viðfangsefnum og útfærslu þar sem hún hefur töluvert meiri reynslu en ég af svo ungum hugum.

Í 3. bekk hef ég einnig unnið út frá ævintýrum og boðskapi þeirra og rætt það. Einnig höfum við notað smá leiklist og leikið hugtökin, og teiknað þau og rætt um þau með hliðsjón af samræðureglum að hlusta á hvert annað og tala eitt í einu og segja hvers vegna okkur finnst hitt eða þetta. Það tók smá tíma fyrir þau að átta sig á hvað fælist í því að læra heimspeki í skólanum en þau geta vel hugsað saman og rökrætt og túlkað hugmyndir í myndum. Svo eru þau byrjuð að ná tökum á heimspekilegum spurningum. Þau hafa áhuga á að nota dans í heimspekinni og við stefnum á að prófa það, heimspeki og dans var einmitt tekið fyrir í vinnusmiðju í Frakklandi sumarið 2012 hjá Brenifier.

Eins og staðan er núna hef ég notað Hugrúnu lesbók og vinnubók í 5. bekk og í ár tvinna ég það saman við íslenskukennsluna. Við leggjum áherslu á gagnrýninn lestur til að bæta lesskilning. Nemendur koma svo með spurningar úr kaflanum sem ég skrifa upp á töflu og við kjósum um spurningar og ræðum þær með hliðsjón af samræðureglum og svo ræðum við spurningarnar. Við skiptum bekknum í tvennt og ég hef einn tíma á viku með hvorum helming. Í heimspekitímunum hef ég komið með ýmis verkefni sem nemendur eiga að leysa, raða rökum frá bestu til verstu, teikna hugtök og koma með spurningar um hugtökin sem við ræðum svo, leira skip og velt því fyrir sér ef við myndum skipta öllu út úr skipinu hvort það væri nýtt skip eða sama skipið og færa rök fyrir því. Í samfélagsfræðinni vinnum við Inga Bjarnason saman og tvinnum saman leiklist og heimspeki í samfélagsfræði út frá bókinni Miðaldafólk á ferð.

Í 6. bekk lagði ég upp með að nota Veröld Soffíu en hún er svolítið þung fyrir þennan aldur svo við tökum valda kafla úr henni af og til og ræðum þá. Annars vinnum við með spurningar nemenda sjálfra og mikil áhersla er lögð á sókratíska samræðu. Þau hafa verið hjá mér áður í Hugrúnu svo ég vil í ár gefa þeim frelsi til þess að hafa áhrif á samræðuefnin sem við tökum fyrir.

Í 7. bekk legg ég megin áherslu á rökfræði og gagnrýna hugsun og siðfræði. Þau munu fást við siðfræðiklípusögur og bera saman út frá þeim muninn á helstu siðfræðikenningum heimspekinganna Kant, Mill og Aristótelesi. Nemendur fá þjálfun í sókratískri samræðu um heimspekileg hugtök sem nemendum þykir mikilvægt að ræða. Ég tek sérstaklega fyrir jafnrétti, frelsi, réttlæti, lýðræði, vináttu og við notum sókratísku samræðuna sem hluta af lýðræði í skólastarfinu. Við höfum farið í heimspekigöngu þegar veðrið er gott þar sem nemendur ganga eða tala, ekki bæði í einu og útkoman var sú að þeim þótti fleiri spurningar vakna utandyra en innandyra.

Í 9. bekk er lítill hópur en þar legg ég áherslu á að lesa Veröld Soffíu sem er yfirlit yfir heimspekisöguna í formi skáldsögu. Við tökum samræðu út frá þeim köflum sem nemendur velja og þykja áhugaverðir. Einnig er ég með kvikmyndaheimspeki þar sem við horfum á eina kvikmynd á önninni og ræðum hana og heimspekileg stef í myndinni og veltum fyrir okkur boðskap myndarinnar. Nemendur velja sér svo kvikmynd að eigin vali til að horfa á og skrifa ritgerð um og ræða í tíma.

Spurning 4: Hver er virkni nemenda? Hvernig vinna þeir í heimspekitímum?

Ylfa Björg: Stundum eru nemendur latir við að hugsa, það reynir á einbeitinguna, hugmyndaflug ofl. en ef umhugsunarefnið vekur áhuga nemenda þá eru þau ekki lengi að skipta um ham. Virkni nemenda er að jafnaði góð, um leið og þeir átta sig á því að þetta er tími fyrir þá til þess að hugsa hugmyndir sínar lengra og máta þær við hugmyndir samnemenda sinna þá skapast ákveðin dýnamík. Þegar nemendur finna fyrir þessu þá verður virknin meiri og þeir leggja meira á sig. Ef kveikjan er góð að tímanum og vekur áhuga nemenda og ef nemendur halda sig við rammann sem samræðan setur þeim þá eru nemendur virkir. Áhugi nemendanna sjálfra smitar út frá sér. Til þess að gera tímana markvissa þá metum við saman það sem við gerðum í tímanum, til þess að gera betur næst.

Spurning 5: Hvernig er heimspekinámið metið?

Ylfa Björg: Heimspekinámið er metið til einkunnar á yngsta stigi í formi umsagnar en á miðstigi og unglingastigi til einkunnar 1-10.  Virkni í tíma er metin, unnin verkefni í tímum, ritgerðir, samræðan er metin bæði sem sjálfsmat og mat frá kennara út frá matslista. Ég hef verið með prófverkefni sem fær nemendur til að leggja sig vel fram í tímanum.

Yngsta stig:

  • 5 ára bekkur: virkni í tíma og verkefnavinna, samvinna.
  • 3. bekkur: virkni í tíma, verkefnavinna, samvinna.

Miðstig

  • 5. bekkur: virkni í tíma og verkefnavinna, sókratísk samræða út frá matslista bæði mat kennar og sjálfsmat nemanda.
  • 6. bekkur: virkni í tíma og verkefnavinna, sókratísk samræða út frá matslista bæði mat kennar og sjálfsmat nemanda. Prófverkefni
  • 7. bekkur: virkni í tíma og verkefnavinna, sókratísk samræða út frá matslista bæði mat kennar og sjálfsmat nemanda. Ritgerð og prófverkefni

Unglingastig:

  • 9. bekkur: virkni í tíma og verkefnavinna, sókratísk samræða út frá matslista bæði mat kennar og sjálfsmat nemanda. Ritgerðir 2 á hvorri önn og prófverkefni.

Spurning 6: Annað sem þú vilt taka fram um heimspekikennslu?

Ylfa Björg:  Það er mikilvægt að nemendur fái þá upplifun af skólagöngunni að það sé í lagi að hugsa og koma sjálf með hugmyndir og að það sé hluti af menntun þeirra. Þó svo að það virðist sjálfsagður hlutur getur það oft gleymst. Heimspekitímarnir koma til móts við þau hérna.

Háskólinn kallar á sjálfstæða hugsun, frumkvöðla framtíðarinnar og til þess að nemendur geti komið undirbúnir undir þekkingarleit í Háskóla Íslands þarf að viðhalda þessari sjálfstæðu hugsun, þjálfa rökleikni og siðvitund, hvort heldur sem er innan annarra námsgreina eða sem sérstök námsgrein innan skólanna.