22. Fréttabréf heimspekikennara er komið út

Í nýju Fréttabréfi heimspekikennara er m.a. sagt frá aðalfundi félagsins eftir tvær vikur, því helsta sem er á döfinni á árinu og birtar æfingar úr Verkefnabanka Heimspekitorgsins.

Í Fréttabréfi heimspekikennara birtast fréttir af starfsemi félagsins og ýmsu öðru sem tengist því sem félagsmenn fást við.

Hér má skoða eldri tölublöð fréttabréfsins.

Aðalfundur 2019-2020

Aðalfundur miðvikudaginn 29. janúar, kl. 18:30

Aðalfundur Félags heimspekikennara verður haldinn 29. janúar, 2020, kl. 18.30-20.00 í Græna salnum, Verzlunarskóla Íslands, Ofanleiti 1 í Reykjavík.

Dagskrá hefst með erindi Ólafs Stefánssonar. Eftir kaffihlé verður síðan aðalfundur haldinn með hefðbundinni dagskrá.

Dagskrá fundarins:

18:30 Heimskingi.
Ólafur Stefánsson sögumaður og heimspekingur götunnar miðlar af reynslu og innsýn.

19.00 Kaffi

19.15 Aðalfundur
           Skýrsla stjórnar
           Reikningar félagsins
           Kosningar
           Önnur mál

Framboð í stjórn og ósk um önnur mál verða að hafa borist stjórn Félags heimspekikennara fyrir fundinn. Framboð berist í netfangið heimspekikennarar@gmail.com

Hér má nálgast Facebook-síðu viðburðarins, þar sem hægt er að staðfesta mætingu.

Nýárskveðja

Stjórn Félagsheimspekikennara óskar félagsmönnum og samstarfsaðilum gleðilegs árs.

Norræn samtök um heimspekilega ráðgjöf, sem Félag heimspekikennara er aðili að, halda tíundu ráðstefnu sína, í Brandbjerg Højskole á Jótlandi í Danmörku, dagana 22.-24. maí 2020. Ráðstefnan verður auglýst nánar á Fb síðu samtakanna og munum við líka segja frá henni í væntanlegu fréttabréfi þegar nær dregur.

Margt er á döfinni á vettvangi Félags heimspekikennara á þessu ári. Til stendur að endurtaka Dialogos-vinnustofu með þeim Guro Hansen Helskog og Michael Noah Weiss, en þau komu til landsins í september sl. í boði félagsins. Dagsetning þessarar vinnustofu verður auglýst nánar síðar.

Á þessu ári verður einnig blásið til ráðstefnu um heimspekilega samræðu, listir og mannkostamenntun. Ráðstefnan verður haldin á tveimur dögum í vikunni 9.-16. ágúst og meðal aðalfyrirlesara á henni verða David Carr, prófessor emeritus frá Edinborgar-háskóla í Skotlandi, og Adam Wallenberg, list- og heimspekikennari frá Svíþjóð.

Félag heimspekikennara mun halda Aðalfund á næstu vikum, þar sem kosin verður ný stjórn, og verður hann auglýstur á næstu dögum.

Gleðilegt árið 2020!

Dialogos-vinnustofa

Félag heimspekikennara auglýsir námskeið helgina 13.–15. september 2019

Leiðbeinendur:

Guro Hansen Helskog
Michael Noah Weiss

Í þriggja daga vinnustofu munu Guro og Michael leiða samræður um heimspekilegar spurningar sem snerta okkur persónulega. Þau munu kynna mismunandi aðferðir til að nálgast viðfangsefnin.

Námskeiðið nýtist kennurum sem vilja innleiða samræðu í kennslustofunni. Samræða eflir sjálfstraust, æfir tjáningu og stuðlar að lýðræðislegum skóla. Aðferðirnar sem kynntar eru í vinnustofunni nýtast þó alls staðar þar sem hópar koma saman, hvort sem það er í fjölskyldu, atvinnulífi eða félagasamtökum.

Guro er dósent við Universitetet i Sørøst-Norge (USN). Hún hefur langa reynslu af iðkun heimspekilegrar samræðu og er höfundur bókarinnar Philosophising the Dialogos Way towards Wisdom in Education gefin út af Routledge 2019.

Michael er dósent við sama háskóla. Hann hefur þróað hugleiðsluaðferð sem hann kallar guided imagery.

Svona lýsir Guro nálgun sinni:

„Dialogos-vinnustofa eða dialogos-samræður þýðir að við fáumst við heimspekilegar hugmyndir og hugtök bæði út frá reynslu og út frá röklegum, tilfinningalegum, tilvistarlegum og andlegum forsendum. Þungamiðja aðferðarinnar er sameiginleg rannsókn á fyrirbærum í lífslistinni. Meðal æfinga sem við gerum má nefna sókratíska samræðu, hugleiðslu, rök með og móti, heimspekilegar gönguferðir, æfingar um líkama og huga sem og samræður sem ganga út frá texta og tilfinningum. Diologos stendur fyrir uppeldislega og heimspekilega vinnu sem miðar að því að næra innra líf okkar og tengsl við aðra með því að leita í sameiningu að visku eftir mismunandi leiðum.“

Námskeiðið fer fram á ensku.

Staður: Réttarholtsskóli

Tími: 13.–15. september (föstudagur kl. 17–20, laugardagur kl. 9–12 og 13–15, sunnudagur 11–14)

Þátttökugjald: 20.000 kr.

Þátttaka tilkynnist í tölvupósti á heimspekikennarar@gmail.com

Þátttaka er staðfest með því að greiða námskeiðsgjaldið:

kt. 671296-3549
rn. 140-26-000584

Vel heppnað námskeið um beitingu heimspekinnar í samfélagsfræði- og íslenskukennslu

Félag heimspekikennara stóð fyrir námskeiðinu Að beita aðferðum heimspekinnar í samfélagsfræði- og íslenskukennslu þriðjudaginn 20. ágúst s.l. Fjallað var um hvernig heimspekin getur lagt til ákveðnar aðferðir við að fást við hin ýmsu viðfangsefni sem íslensku – og samfélagsgreinakennarar fást við. Gagnlegar æfingar, verkefni og ýmis viðfangsefni voru kynnt sem kennarar geta nýtt sér í kennslustundum.

Áhersla var lögð á að skoða hvernig vinna megi með spurningar, fullyrðingar, hugtakagreiningu, skoðanamyndun, rök og samræður svo fáein dæmi séu nefnd. Þátttakendur fengu einnig að spreyta sig á nokkrum vel völdum verkefnum.

Kennari á námskeiðinu var Jóhann Björnsson grunnskólakennari og doktorsnemi í heimspeki menntunar.

Að beita aðferðum heimspekinnar í samfélagsfræði – og íslenskukennslu

Langar þig stundum til þess að breyta til og brjóta upp kennslustundirnar? Langar þig til þess að efla skapandi og gagnrýna hugsun í því fagi sem þú kennir? langar þig til að hvetja nemendur þína til að rökræða námsefnið? Viltu næra undrun nemenda þinna?

Félag heimspekikennara heldur námskeið um það hvernig nota megi aðferðir heimspekinnar í kennslustundum í íslensku og samfélagsfræði. Leiðirnar sem kynntar verða eru auðveldar í framkvæmd og tilvaldar til þess að auka fjölbreytnina í skólastarfi og geta þær tekið þann tíma sem hver kennari vill.

Þótt fyrst og fremst sé horft til kennara í íslensku og samfélagsgreinum eru allir kennarar velkomnir enda má yfirfæra viðfangsefni námskeiðiðins yfir á fleiri greinar en íslensku og samfélagsfræði.

Staður og tími: Réttarholtsskóli við Réttarholtsveg, þriðjudaginn 20. ágúst kl. 09.00-12.00.

Kennari: Jóhann Björnsson kennari við Réttarholtskóla og doktorsnemi í heimspeki með börnum og unglingum

Þátttökugjald: 5.000 kr.

Þátttaka tilkynnist til Jóhanns Björnssonar, í tölvupósti á johannbjo@gmail.com

Þátttaka er staðfest með því að greiða námskeiðsgjaldið:

kt. 671296-3549
rn. 140-26-000584

___________


Félag heimspekikennara er fagfélag kennara á öllum skólastigum. Það vinnur að ýmsum verkefnum með það fyrir augum að efla heimspekikennslu á öllum skólastigum. Sjá nánar um félagið , tilgang þess og sögu, á eftirfarandi upplýsingasíðu.

Hvað er heimspeki með börnum?

Heimspeki með börnum er stunduð víða í íslenskum menntastofnunum. Hverjir geta ástundað hana? Hvaða þekkiungu þarf leiðbeinandinn að hafa? Hvað er heimspeki með börnum? Á hún heima í skólastofunni eða utan skólans? Slíkar spurningar eru meðal viðfangsefni Félags heimspekikennara. Í grein sinni Eru börn heimspekingar? reynir Kristian Guttesen að varpa ljósi á sumar af þessum spurningum.

Þann 15. febrúar hélt Jón Thoroddsen fræðsluerindi á vegum Félags heimspekikennara um kenslóbók sína, Gagnrýni og gaman. Viðburðurinn var fjölsóttur og þótti fundargestum fróðlegt að hlusta á lýsingu Jóns á bókinni, sem hann sagði vera sögu kennara, þróun aðferðar og leiðbeiningar um beitingu hennar.

Fjórði viðburður ársins er eins dags námskeið á vegum Félags heimspekikennara og rannsóknaverkefnisins Líkamleg gagnrýnin hugsun. Donata Scheller kynnir kenningar um og aðferðir líkamlegrar gagnrýninnar hugsunar, en áhersla verður lögð á verklegar æfingar sem byggja á þeirri aðferðafræði sem hefur verið þróuð til að virkja, þjálfa og iðka líkamlega gagnrýna hugsun. Námskeiðið fer fram 30. mars 2019, kl. 9:30-17:00 í Odda 106 Háskóla Íslands. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður en þátttaka er ókeypis.

Greint er frá viðburðinum í nýjasta fréttabréfi Félags heimspekikennara (nr. 20, mars 2019). 

Vinnustofa fyrir kennara í gagnrýninni hugsun í öllum fræðigreinum

Námskeið á vegum verkefnisins „Líkamleg gagnrýnin hugsun“ í samstarfi við Félag heimspekikennara

Líkamleg gagnrýnin hugsun 

Eins dags vinnustofa fyrir kennara í gagnrýninni hugsun í öllum fræðigreinum

Hvenær: Laugardagur 30. mars 2019, 9:30–17:30
Hvar: Odda 106, Háskóla Íslands

Líkamleg gagnrýnin hugsun (www.ect.hi.is) er rannsóknarverkefni sem heimspekingar og mannfræðingar við Háskóla Íslands, Árhúsarháskóla, Háskólann í Koblenz, Stony Brook Háskóla og Rannsóknarstofu ör-fyrirbærafræði í París hafa komið á laggirnar. 

Kenningar um og aðferðir líkamlegrar gagnrýninnar hugsunar byggja á hvarfinu að líkamanum en það felst í því að gangast við þekkingarfræðilegri virkni þeirrar for-ætlandi sem býr að baki í tilfinningum, líkamlegri og reynslubundinni hugsun. Rannsóknir á samspili hugar og líkama í hugsun sýna hvernig hægt er að sigrast á grundvallarklofningi varðandi tilurð þekkingar sem hefur einkennt kartesíska hugsun í rannsóknum og kennsluháttum allt fram til dagsins í dag.

Í vinnustofunni verða kenningar um líkamlega gagnrýna hugsun kynntar stuttlega, en megin áhersla verður lögð á verklegar æfingar sem byggja á þeirri aðferðafræði sem hefur verið þróuð til þess að virkja, þjálfa og iðka líkamlega gagnrýna hugsun. Undirstöðuatriði „Hugsað á brúninni“ („Thinking at the Edge“), aðferðar sem Eugene Gendlin þróaði við Háskólann í Chicago verða kynnt.

  Klasi 1: Að virkja skynjun („felt sense“, „felt meaning“) á/tilfinningu fyrir úrlausnarefni, málefni, verkefni eða spurningu. Að skoða og æfa þá endurómun/svörun sem finna má í tengslum á milli skynjunar á/tilfinningar fyrir merkingu og táknunar/framsetningar. Að verða fær um að setja í orð meira af þeirri nákvæmni sem býr í margslunginni undirliggjandi líkamnaðri þekkingu (eða margslunginni undirliggjandi þekkingu sem býr í líkamanum?). Að gera tilraunir með reynslubundna nákvæmni.
  Klasi 2: Að hugsa með flókinni lifaðri reynslu. Reynslubundin tenging sem bylgjuvíxlun (e. diffraction), ekki samanburður. Uppbygging aðleiðslu. Reynslu- og aðstæðubundinn skilningur sem „linsur“ sem við horfum í gegnum þegar við hugsum.

Donata Schoeller mun leiða námskeiðið en hún er lektor í heimspeki við Háskólann í Koblenz og gestaprófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum fæst hún við líkamlegar nálganir á hugsun og þekkingu á grunni túlkunarfræði, fyrirbærafræði, málspeki, pragmatisma og út frá sálmeðferðarlegum sjónarmiðum sem og rannsóknum hugarfræði. Meðal bóka hennar eru Close Talking: Erleben zu Sprache bringen (De Gruyter 2019), Saying What We Mean, (útgefið ásamt Ed Casey), (Northwestern University Press) og Thinking Thinking, útgefið ásamt Vera Saller, (Alber Verlag). Þá hefur hún þýtt meginverk Eugene Gendlins í heimspeki, A Process Model á þýsku. Donata Schoeller birtir reglulega greinar í alþjóðlegum tímaritum eins og Continental Philosophy Review, Mind and Matter, Nietzsche Studien og Deutsche Zeitschrift für Philosophie. Hún er þjálfari í líkamlegri gagnrýnni hugsun, Focusing og Hugsað-á-brúninni, sem hún kennir við háskóla víða um heim. Hún hlaut þjálfun hjá Claire Petitmengin í „Elicitation“-aðferð líkamlegrar gagnrýninnar hugsunar og er þátttakandi í rannsóknarstofu hennar í ör-fyrirbærafræði í París.

Fjöldi þátttakenda er takmarkaður. Áhugasamir skrái sig með því að senda tölvupóst á sth123@hi.is

Gagnrýni og gaman

Félag heimspekikennara er fagfélag kennara á öllum skólastigum. Tilgangur þess er m.a. að efla samstarf heimspekikennara og þeim sem starfa við æskulýðsstarf á öðrum vettvangi,  m.a. með því að vera vettvangur fyrir skoðanaskipti um heimspekikennslu, að vinna að eflingu heimspekikennslu hérlendis og að hafa forgöngu um endurmenntunarnámskeið og aðra fræðslustarfsemi  eftir því sem við á.

Þann 9. janúar sl. hélt Guðrún Hólmgeirsdóttir fræðsluerindi á vegum Félags heimspekikennara um þrjár kennslubækur sínar í heimspeki. Viðburðurinn var afar vel sóttur og spunnust miklar umræður út frá framsögu Guðrúnar.

Annar viðburður ársins verður fræðsluerindi Jóns Thoroddsen sem kynnir kennslubók sína, Gagnrýni og gaman. Greint er frá viðburðinum
í nýjasta fréttabréfi Félags heimspekikennara (nr. 19, febrúar 2019). Hér má svo lesa grein eftir Jón úr Skólavörðunni 5. tbl. 3. árg. ágúst 2003, þar sem hann segir frá tilraunum sínum í heimspeki með nemendum í Grandaskóla veturinn 2002-2003.