Heimspekikennsla

eftir Gunnar Árna Konráðsson

Ég hef verið nemandi í Norðlingaskóla í rúm fjögur ár og er núna í 9. bekk. Ég fékk áhuga á heimspeki þegar ég byrjaði í áttunda bekk. Áhuginn kviknaði líklega vegna þess að Ragnar Þór Pétursson sem er kennari við Norðlingaskóla, kennir fögin sín öðruvísi heldur en aðrir grunnskólakennarar, þá á ég við að hann notar kennsluaðferðir sem eru notaðar víða í menntaskólum. Þegar ég segi “öðruvísi kennsluaðferðir” þá get ég nefnt sem dæmi að í náttúrufræði þá settur hann inn á netið texta sem inniheldur viðfangsefni sem við lesum og glósum úr áður en við mætum í tíma og þegar við mætum ræðir hann efnið ítarlega og við glósum meira, þannig held ég að við lærum betur að taka góðar glósur, skipuleggja okkur og fáum meira að vita um viðfangsefnið.

Eftir nokkra mánuði á fyrsta árinu á unglingastigi voru okkur afhent blöð sem innihéldu valgreinar og við völdum úr það sem við vildum fræðast meira um. Heimspeki var eitt af þeim fögum sem hægt var að velja. Í ljós kom að margir nemendur völdu heimspeki. Það var greinilega ekki hægt að hafa rúmlega sjötíu nemendur í einni lítilli stofu eftir skóla á fimmtudögum. Kennararnir tóku þá ákvörðun að fella heimspeki inn í stundarskrána. Hópunum var skipt þannig að hver bekkur var kynjaskiptur s.s. 8. bekkur strákar, 8. bekkur stelpur, 9. bekkur strákar og svo framvegis.

Á þessum dögum settust allir í hring og Ragnar valdi umræðuefni fyrir hópinn. Í umræðum hópsins þróaðist umræðuefnið og niðurstöður tóku breytingum eftir því sem við ræddum meira um hlutina. Ég get nefnt sem dæmi umræðu um mann sem hélt að hann væri ljón í mannslíkama og vildi þess vegna líta út eins og ljón og krafðist þess að hann fengi að fara í aðgerð til þess að breyta útliti sínu í ljón. Eftir nokkra stund og eftir nokkrar umræður urðum við sammála um að maðurinn væri greinilega geðsjúkur og ætti ekki að fá að fara í þessa aðgerð. Þá kastaði Ragnar fram eftirfarandi spurningu:  “En ef þetta væri maður sem væri lamaður niður frá hálsi og vildi ekki lifa þannig og vildi bara fá að deyja, mætti hann það?”  Við þessa spurningu tók  umræðan nokkrum breytingum og við fórum að velta efninu fyrir okkur frá öðru sjónarhorni.

Þetta er í stuttu máli dæmi um mína reynslu af heimspekilegum umræðum. Mér líkar vel við að fást við vandamál og álitamál eins og þessi, vegna þess að það er ekki bara eitt rétt svar og þótt að maður komist ekki að niðurstöðu þá er þetta auðvitað mjög gott og þroskandi fyrir hugann.

Ég er ekki viss hvort þetta myndi flokkast sem “viðurkennd” heimspekikennsla, en ég hef lært mjög mikið á þessu eins og t.d. rökhugsun og að nálgast viðfangsefni frá ólíkum sjónarhornum.

Í dag erum við í tímum hjá Ragnari sem hann kallar Maður og Menning eða M&M. Í þessum tímum erum við að læra um marga ólíka hluti. Þetta er einhvers konar samfélags-sálfræði-heimspeki tímar. Þó að þessir tímar séu ekki alveg skilgreindir sem heimspekitímar þá erum við að nota þá hæfileika sem notaðir eru í heimspekitímum.

Mér finnst að heimspeki ætti að vera skyldufag í grunnskólum og sú kennsla ætti að byrja fyrr heldur en á unglingastigi vegna þess að mér finnst þetta vera mikilvægt fag.

Gunnar Árni Konráðsson