Þakkir til fráfarandi formanns

Ný stjórn félags heimspekikennara fór í heimsókn til Ármanns Halldórssonar, fráfarandi formanns, í kjölfar aðalfundar félagsins í júní. Ármanni voru færðar gjafir sem þakklætisvottur fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Ármann hefur verið formaður félags heimspekikennara síðan starfsemi þess var endurreist sumarið 2009. Hann á mestan heiður að því að endurvekja starfsemi félagsins og halda henni gangandi síðustu ár. Auk þess að kenna heimspeki og semja námsefni í faginu hefur hann af mikilli atorku sameinað fjölda heimspekikennara og byggt upp öflugt félagsstarf. Ármann hefur haft veg og vanda að fjölbreyttri dagskrá félagsins og stjórnað faglegri ráðgjöf félagsins til opinberra aðila. Félagsmenn þakka Ármanni vel unnin störf og á myndinni hér til hliðar má sjá Kristian Guttesen og Ingimar Waage afhenda Ármanni gjöfina frá félaginu.

Gjöfin samanstóð af bókinni  “Að höndla hamingjuna” eftir Bertrand Russell í þýðingu Skúla Pálssonar og þakkarskjali í ramma. Á skjalið var áletrað: “Með þakklæti fyrir að gegna formennsku í Félagi heimspekikennara og styðja vel við málefni þess og félaga á árunum 2010-2012” auk þess sem þar standa þrjú ljóð. Tvö ljóðin fjalla um menntun og það þriðja er eftir Mikael Karlsson. Í bakgrunni skjalsins er mynd af afsteypu af Sókratesi.