Hátíðarkveðja

Félag heimspekikennara óskar félagsmönnum og öðrum velunnurum heimspekikennslunnar gleðilegrar hátíðar. Við þökkum gott samstarf á árinu 2012 sem var viðburðarríkt og við hlökkum til nýrra spurninga og viðfangsefna á komandi ári. Meðal helstu viðburða voru námskeið með Lizu Haglund í mars, fréttabréf félagsins hóf göngu sína, aðalfundur og námskeið Jóhanns Björnssonar voru haldin í júní, ný stjórn hefur fylgst vel með þróun nýrrar aðalnámskrár allra skólastiga, heimspekilegar æfingar félagsmanna hafa lifað góðu lífi og í október var haldið fjölmennt málþing um barnaheimspeki.

Samræða í Garðaskóla: Fegurð og list

Í vetur kennir Ingimar Waage heimspekival í Garðaskóla. Í hópnum eru nemendur úr 9. og 10. bekk sem hittast tvisvar í viku og glíma við ýmiss konar heimspekilegar spurningar. Viðfangsefni þeirra þessa viku eru list og fegurð. Verkefnið hófst á því að Ingimar sýndi nemendum fimm listaverk: Fountain eftir Duchamp, No. 1 eftir Pollock, Stúlka með perlueyrnalokka eftir Vermeer, Svín í formalíni eftir Hirst og Dauði Hyacinth eftir Broc.

    

Continue reading Samræða í Garðaskóla: Fegurð og list

Heimspekileg æfing 22. nóvember

ATHUGIÐ! Breyttur tími á næstu heimspekilegu æfingu:

Fimmtudaginn 22. nóvember 2012 kl. 20.00 verður heimspekileg æfing í stofu 301 í Gimli, Háskóla Íslands. Kristian Guttesen og Ylfa Björg Jóhannesdóttir munu kynna verkefni sem þau settu saman fyrir nemendur í Háskóla unga fólksins. Verkefnið heitir Borðspilagerð: Heimspeki og sókratísk samræða.

Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Samræða um hamingju

Nemendur í 10. bekk við Réttarholtsskóla sem leggja stund á heimspeki taka þátt í svo kölluðu etwinning verkefni, evrópsku samstarfsverkefni skóla þar sem fjallað er um hamingjuna. Þeir hafa nýverið tekið sér góðan tíma til að vega og meta ýmsa þætti sem hafa áhrif þegar um hamingju og óhamingju er að ræða. Í frétt hjá Sísýfos heimspekismiðju má lesa um framvindu samræðunnar.

Thinking – tímarit um barnaheimspeki

Tímaritið Thinking er gefið út af IAPC (The Institute for the Advancement of Philsophy for Children) við Montclair State University í New Jersey. Nýjasta tölublaðið (volume 20) er helgað verkum Matthew Lipman og Ann Margaret Sharp sem voru frumkvöðlar í barnaheimspeki, stofnendur IAPC og sátu í ritstjórn Thinking. Ann og Mat létust bæði árið 2010 og er þeirra beggja sárt saknað af heimspekingum og kennurum frá öllum heimshornum sem nutu þess að vinna með þeim og læra af þeim. Sýnishorn úr nýjasta tölublaði Thinking má nálgast hér og umsókn um áskrift að tímaritinu má nálgast hér.

 

Hæfniþrep samfélagsgreina í framhaldsskólum

Næstkomandi miðvikudag, 14. nóvember, klukkan 16:30 í stofu 11 í MH er boðað til opins fundar fyrir kennara í samfélagsgreinum í framhaldsskólum.

Tilefnið er að ráðuneytið hefur látið vinna viðmiðunarramma fyrir félagsgreinar, svipuðum þeim sem finna má í lok Aðalnámskrár fyrir íslensku, stærðfræði og erlend tungumál (bls. 91 og áfram). Að þessu starfi hafa komið kennarar ólíkra félagsgreina auk fulltrúa úr nefnd sem skrifaði sambærilegan kafla í Aðalnámskrá grunnskólanna.

Á fundinum verða lögð fram fyrstu drög að þessum hæfniviðmiðum og rýnt í þau en 1. desember er stefnt að því að þessari vinnu ljúki. Betur sjá augu en auga og mikilvægt að fá sem flest sjónarmið fram á þessu stigi málsins. Útkoman verður notuð til leiðbeininga við áfangagerð og þrepaskiptingu áfanga og viðmiðunar fyrir ráðuneytið þegar áfangalýsingar verða metnar.

Allir hvattir til að mæta og nota tækifærið til að hafa áhrif á mótun hæfniviðmiðanna.

Málstofa: gagnrýnin umræða um fjármál

Verkefnið Efling kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði mun á næstu misserum standa fyrir hádegismálstofum þar sem tengsl gagnrýninnar hugsunar og siðfræði við önnur svið veruleikans eru skoðuð. Fyrsta málstofan verður haldin fimmtudaginn 1. nóvember klukkan 12:00–13:00 í Odda 106 og verður efni hennar fjármál.

Breki Karlsson forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi og Eyja Margrét Brynjarsdóttir heimspekingur munu halda erindi um mikilvægi gagnrýninnar og upplýstrar umræðu um fjármál og eðli peninga.

Það eru Rannsóknastofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun sem standa að verkefninu.

Málstofustjóri: Henry Alexander Henrysson