Ný heimasíða ICPIC

ICPIC, alþjóðasamtök barnaheimspekinga, uppfærðu nýlega heimasíðu sína. Þar má nálgast upplýsingar um ráðstefnu samtakanna sem hefst í Suður-Afriku í byrjun september. Heimasíðan birtir upplýsingar um ýmsar ráðstefnur og námskeið á sviði barnaheimspeki auk þess sem þar verða í boði nokkrir umræðuhópar sem áhugasamir geta skráð sig í.

Fréttabréf ágústmánaðar

Í nýútkomnu Fréttabréfi heimspekikennara birtir stjórn Félags heimspekikennara drög að dagskrá vetrarins. Þar er ótal margt í boði: heimspekilegar æfingar, málfundir, ráðstefnur og námskeið. Auk þess er í fréttabréfinu sagt frá rannsóknarverkefni um heimspekikennslu, ráðstefnu á Akureyri í október og nýafstöðnum umræðufundi um eflingu heimspekikennslu. Að venju eru líka tenglar inn á ný verkefni og miðast þau við upphaf skólastarfs.

Fundur áhugafólks um eflingu heimspekikennslu

Þann 30. júlí síðastliðinn boðuðu áhugasamir aðilar til umræðufundar um stöðu kennslu í heimspeki og siðfræði í íslenskum skólum. Fundurinn var fjölsóttur og var sérlega ánægjulegt að sjá breiðan hóp fólks saman kominn til  leita leiða til að fleiri íslendingar fái notið heimspekikennslu. Fundargerðina má nálgast hér.

Ráðstefna: Lærdómssamfélagið

Lærdómssamfélagið – Samræða allra skólastiga

Ráðstefna um menntamál í Íþróttahöllinni á Akureyri

Kall eftir erindum á málstofur ráðstefnunnar

Þann 4. október n.k. verður haldin ráðstefna á Akureyri á vegum allra skólastiga. Tilgangur ráðstefnunnar er að stuðla að samræðu kennara og stjórnenda af öllum skólastigum um lærdómssamfélagið. Ráðstefnan er haldin á Akureyri og boðuð í öllum símenntunarmiðstöðvum, leik-, grunn-, framhalds- og háskólum á landinu.

Auglýst er eftir erindum fyrir málstofur frá fræðimönnum, kennurum, sérfræðingum skóla, kennsluráðgjöfum, og öðrum áhugasömum aðilum. Sóst er eftir nýlegu efni sem ekki hefur hlotið kynningu áður á ráðstefnum. Einkum er leitað eftir:

  1. Fræðilegri umfjöllun eða frásögnum af birtingarmyndum lærdómssamfélagsins í íslenskum menntastofnunum
  2. Fræðilegri umræðu um tengsl skólastiga
  3. Frásögnum af nýbreytni og þróunarstörfum á öllum skólastigum
  4. Kynningu á nýlegum íslenskum rannsóknum er varða skólastarf

Í hverri málstofu verður 20-30 mínútna erindi auk 20-30 mínútna  til umræðna.

Frestur til að senda inn lýsingu á erindi, að hámarki 300 orð, er til 10. september 2013. Svör um samþykki frá ráðstefnunefnd munu berast fyrir 20. september. Fyrirlesarar á málstofum greiða ekki skráningargjald á ráðstefnuna. Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar hefur umsjón með ráðstefnunni í samvinnu við Akureyrarbæ, aðildarfélög KÍ á Norðurlandi, Miðstöð skólaþróunar HA, framhaldsskólana á Norðurlandi, mennta og menningarmálaráðuneytið.

Allar nánari upplýsingar gefur Heimir Haraldsson í síma 460 5720 eða gegnum netfangið: heimir@simey.is

Námskeið í Hollandi

Félag barnaheimspekinga í Hollandi heldur námskeið dagana 12.-14. ágúst næstkomandi. Á námskeiðinu mun Dr. Philip Cam heimspekingur og sérfræðingur í barnaheimspeki þjálfa þátttakendur í fræðilegum og hagnýtum grundvallaratriðum heimspekilegs samræðufélags. Hann mun fjalla um hugtakagreiningu með börnum og verkfærakassa heimspekingsins auk þess sem þátttakendur fá þjálfun í að byggja upp og styðja við heimspekilega samræðufærni.

Phil Cam hefur langa reynslu af því að kenna börnum heimspeki og þjálfa kennara í heimspekikennslu. Hann hefur samið bæði kennsluefni og kennsluleiðbeiningar sem hafa reynst afar vel í kennslu. Hér má sjá stutt myndband sem gefur örlitla innsýn í hugmyndir Dr. Cam.

Nánari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst til Ieva Rocena og hún tekur einnig við skráningum.

Sjá ítarlegri auglýsingu á ensku hér.

 

Fréttabréf júní 2013

Fréttabréf heimspekikennara í júní 2013 er komið á vefinn. Fréttabréfið kemur út mánaðarlega og flytur fréttir af störfum og hugmyndum heimspekikennara á Íslandi. Í nýjasta tölublaðinu má meða annars lesa fréttir af aðalfundi, upplýsingar um námsefnisgerð, viðtal við Guðrúnu Hólmgeirsdóttur, grein um hvernig foreldrar geta kennt börnum sínum gagnrýna hugsun og verkefni um heilbrigði.

Viðtal við heimspekikennara: Guðrún Hólmgeirsdóttir

Ritstjórn heimspekitorgsins tók stutt viðtal við Guðrúnu Hólmgeirsdóttur, heimspekikennara við Menntaskólann í Hamrahlíð. Hér að neðan segir hún frá kennslunni sinni og sýn á heimspekikennslu almennt.

Spurning 1: Hvar ert þú að kenna heimspeki? Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið? Hvaða áfangar eru kenndir? Er heimspeki valgrein eða skylda á ákveðnum brautum?

Guðrún: Ég kenni í Menntaskólanum við Hamrahlíð og hef gert í rúma tvo áratugi. Hefð fyrir heimspeki í skólanum nær langt aftur fyrir það og hér ríkir velvilji gagnvart heimspekinni. Continue reading Viðtal við heimspekikennara: Guðrún Hólmgeirsdóttir

Aðalfundur 25. maí

Aðalfundur Félags heimspekikennara verður haldinn laugardaginn 25. maí 2013, kl. 11, og fer fram í húsnæði Verzlunarskóla Íslands. Hildigunnur Sverrisdóttir, aðjúnkt og fagstjóri í arkitektúr, heimsækir félagið og heldur námskeið undir yfirskriftinni „Skapandi dvelur manneskjan – er hægt að kenna henni það?“

Hildigunnur kennir við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands og hefur unnið með gagnrýna kenningu og verufræði.

Námskeiðið er öllum opið og þátttaka ókeypis. Að námskeiðinu loknu hefjast hefðbundin aðalfundarstörf. Kaffiveitingar í boði Félags heimspekikennara.

 Dagskrá aðalfundar

1. Kosning fundarstjóra
2. Skýrsla stjórnar
3. Ársreikningur
4. Lagabreytingar*
5. Kynning á Frostaskjólsverkefni
6. Skýrsla ritstjórnar
7. Efni um heimspekikennslu
8. Ályktanir
9. Kosningar
10. Önnur mál

*(https://heimspekitorg.is/wp-content/uploads/2013/05/Tillaga-að-lagabreytingu-lögð-fyrir-aðalfund-Félags-heimspekikennara-25.pdf)

Hugsun og hamingja

Mánudaginn 6. maí kl. 20.00 í Hljóðbergi, sal Hannesarholts, munu Páll Skúlason, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, Guðrún Jónsdóttir og Henry Alexander Henrysson flytja stutt erindi og standa fyrir umræðum um tengsl hugsunar og hamingju og varpa fram ýmsum spurningum um efnið. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill á meðan húsrúm leyfir. Continue reading Hugsun og hamingja